Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata er afar ósáttur við það hvernig staðið var að kaupum á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Telur hann svör Bjarna Benediktssonar fjármála og efnahagsráðherra, sem Björn segir hann tönglast á, vera röng.
„Það eru settar þarna upp nokkrar aðferðir til þess að selja, þrjár mismunandi aðferðir. Þarna var verið að nota þessa „lokuðu tilboðsleið“,“sagði Björn Leví í samtali við Mannlíf og hélt áfram: „Það bárust athugasemdir frá umsagnaraðilum þar sem sú leið var gagnrýnd en það var ekkert hlustað á það. Forsendurnar sem liggja fyrir þegar það er notast við þetta fyrirkomulag eru til þess að fara að finna langtímafjárfesta, þeir sem vilja taka áhættuna og verða eigendur. Allir sem þekkja til svona mála vita þetta. Þú notar ekki þetta tilboðsferli til þess að sópa upp einhverjum sem eru að bjóða 1, 2 eða 3 milljónir eða eitthvað þvíumlíkt.
Og sérstaklega af því að, og þetta er alveg lykilatriði, að til þess að fá inn þá sem eru tilbúnir að taka ákveðna rekstraráhættu og stíga inn í það félag sem verið er að bjóða út en það má svo sem deila um áhættuna en hvað um það, þá er gefinn afsláttur. Og þetta er það sem fjármálaráðherra og þau eru alltaf að tönglast á að sé fullkomlega eðlilegt og það er alveg satt en það er enginn að tala um það gagnvart stóru aðilunum vegna ferlisins yfirleitt heldur að það sé verið að gefa þessum litlu aðilum. Þetta tilboðsferli er ekki notað til þess að safna til sín einhverjum gaurum sem að eru að bjóða milljón í þetta, að Lyf og heilsa geti keypt banka á afslætti er bara rugl!“ sagði Björn Leví augljóslega pirraður.
„Annars er almennt séð, afsláttur fyrir stóra fjárfesta sem ætla að vera eigendur, bara í fínu lagi, enginn kvartar undan því. En fjármálaráðherra og allir sem apa eftir honum, halda því fram að það sé verið að kvarta yfir því að gefinn hafi verið afsláttur en það er bara rangt, alveg rosalega pirrandi rangt.
Þau tönglast bara á þessu, gjörsamlega óþolandi! Það er verið að gagnrýna að það sé verið að gefa pínulitlum kaupendum afslátt. Þeir eru að kaupa fyrir það lágar upphæðir að þeir eiga að geta keypt þetta á almennum markaði án afsláttar. Að þeim hafi verið sópað inn í þetta. Meira að segja voru stóru kaupendurnir skertir, þeir fengu ekki að kaupa eins mikið og þeir vildu. Og þessu litlu fengu að kaupa í staðinn á afslætti. Þetta er gjörsamlega fáránlegt!“