Björn Leví Gunnarsson segir að fréttir af því að Jón Gunnarsson sé orðinn sérstakur fulltrúi Bjarna Benediktssonar í matvælaráðuneytinu, hljómi eins og hans sé „einhver aukaráðherra“.
Sagt var frá því í morgun að Bjarni Benediktsson, forsætis- og matvælaráðherra í nýju starfsstjórninni, hefði gert Jón Gunnarsson þingmann að „sérstökum fulltrúa“ sínum í matvælaráðuneytinu. Sjálfur sagði Jón í samtali við Morgunblaðið að fjölmörg mál bíði úrlausnar í ráðurneytinu: „Í matvælaráðuneytinu eru fjölmörg mál sem bíða úrlausnar og áherslur núverandi ráðherra og forvera hans eru ólíkar á mörgum sviðum og mitt verkefni verður að þoka þeim áfram og koma í höfn.“
Mannlíf heyrði í Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata og spurði hann út í fréttirnar af Jóni. „Ég veit ekki hvað það þýðir. Það er eins og hann sé svona aukaráðherra eða eitthvað álíka en ég veit svo sem ekki hvað verður úr þessu. En ef þeir taka einhverjar sérstakar stefnumótandi ákvarðanir þá er það bara mjög alvarlegt. Það hlýtur að þurfa að svara fyrir það á einhvern hátt. Þeir hafa enga heimild til þess, það er engin ríkisstjórn á bakvið það eða neitt svoleiðis.“