Í þættinum Þetta helst á Rás 1 í fyrradag var fjallað um kosningasmölun en slíkt hefur verið gagnrýnt af mörgum í gegnum árin.
„Við heyrum af aðferðum sem hafa raunverulega skilað árangri í kosningum. Leiðum til að fiska atkvæði fólks og ná kjöri þó ekki sé úr miklu fjármagni að moða.
Tryggvi Freyr Elínarson segir frá tæknilegum brögðum sem skiluðu Miðflokknum glæstri niðurstöðu í alþingiskosningum 2017. Einar Karl Haraldsson segir frá gagnreyndum aðferðum í kosningastarfi og því sem átti þátt í sigri Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann fyrst var kjörinn forseti Íslands árið 1996,“ segir í lýsingu þáttarins en hann hefur vakið sterk viðbrögð í íslensku samfélagi og skrifaði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, skrifar pistil um þáttinn á samfélagsmiðlinum Facebook.
„Þetta helst, um atkvæðaveiðar fyrir kosningar. Það er dálítið svakalegt að hlusta á þetta,“ skrifar þingmaðurinn um málið. „Hvernig það er beinlínis verið að ljúga hræðsluáróðri upp á aðra flokka til þess að tryggja atkvæði. Bara af því að það virkar. Maður veltir fyrir sér hvað fólk er tilbúið til þess að gera fyrir tilganginn og hvers vegna fólki sem kemst að því að stjórnmálaflokkar sem beita svona brögðum finnst í lagi að styðja viðkomandi flokka.“
Stjórnmál eru ekki íþróttir
„Ég meina, þetta eru ekki íþróttafélög sem maður heldur bara með sama hvað,“ heldur Björn áfram. „Þetta eru stjórnmálaflokkar sem vísvitandi reyna að rugla umræðuna til þess að tryggja sér atkvæði. Mér þætti vænt um ef einhver gæti útskýrt fyrir mér af hverju þetta er í lagi? Hvað fær þig til þess að segja bara, vel gert að rugla svona í umræðunni. Hérna er atkvæðið mitt.“