Björn Birgisson skítur Hannes Hólmstein Gissurarson í kaf í nýrri færslu á Facebook.
Samfélagsrýnirinn frá Grindavík, Björn Birgisson skrifaði nýlega færslu þar sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson er tekinn fyrir. „Þar er stutt úr frjálshyggjunni yfir í hatur rasismans. Hannes Hólmsteinn Gissurarson var einn helsti boðberi frjálshyggju á Íslandi beggja vegna aldamóta en virðist á seinni árum í vaxandi mæli hafa snúið athygli sinni frá efnahagsmálum og hugmyndafræði að megnri óbeit á ókunnugu fólki. Orðinn fremstur meðal jafningja í rasismanum.“
Rifjar Björn svo upp þegar Hannes komst í fréttirnar í lok síðasta sumar þegar hann öskraði á ókunnuga konu á Leifsstöð og sagði við dætur hennar: „Það á ekki að hleypa svona fólki eins og ykkur inn í landið.“ Bætir Björn svo við: „Nú hefur hann opinberlega lagst gegn því að tveir drengir frá Palestínu fái hér vernd og hæli, með tilvitnun í að karlmenn frá Palestínu séu illa glæpahneigðir, næstir á eftir Sýrlendingum hvað það varðar.“
Segir Björn að lokum að hvorki Hannes né Davíð Oddsson séu lengur áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum. „Það er frekar hlegið að þessum mönnum en að mark sé tekið á þeim – innanflokks sem utan.“