Björn Zoëga tekur við stærsta sjúkahúsi Sádí-Arabíu í apríl.
Fráfarandi forstjóri Karolinska-háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi í Svíþjóð, Björn Zoëga, upplýsti í viðtali við Morgunblaðið, að hann myndi taka við King Faisal Specialist Hospital and Research Centre, sem er stærsta sjúkrahús Sádi-Arabíu, í næsta mánuði.
Í viðtalinu segir hann frá því að honum hafi borist fjöldinn allur af starfstilboðum síðastliðin tvö ár en að eftir að hann tilkynnti um starfslok sín við Karolinska, hafi boð borist frá Sádí-Arabíu. Áður höfðu forsvarsmenn sjúkrahússins í Sádí-Arabíu óskað eftir því að hann tæki sæti í stjórninni.
Á sjúkrahúsinu starfa um 15. þúsund manns og eru legurýmin 2.400 talsins. Á Landspítalanum eru legurýmin innan við 700.
Segir Björn að verkefnið sem bíði hans sé spennandi en um leið krefjandi, sérstaklega í ljósi þess að um allt annan menningarheim er að ræða. Þó að fjármögnun spítalans sé ekki vandamál, þarf að ráðast í skipulagsbreytingar að sögn Björns, svo betur megi fara með þá peninga sem lagðir eru til stofnunarinnar.