Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Blaðamenn DV lýsa áreitni, andlegu ofbeldi og hótunum vegna fréttar um liprunarbréf Jakobs Frímanns

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ákveðin tímamót urðu á fjölmiðlaferli okkar beggja í liðinni viku þegar sett var af stað herferð til að reyna að þagga niður umfjöllun DV um Jakob Frímann Magnússon, oddvita Flokks fólksins.“

Svo hljóðar upphaf nýbirtrar greinar DV, eftir Björn Þorfinnsson, ritstjóra DV og Erlu Hlynsdóttur, aðstoðarritstjóra blaðsins. Greinin er merkt sem yfirlýsing blaðsins og titillinn er: „Beittu barni til að stöðva frétt“.

Liprunarbréfið – utanríkisráðuneytið kannaði ekki sannleiksgildi tillögunnar

Umfjöllun DV um Jakob Frímann, sem vísað er í, snýst um mál þar sem hann er sagður hafa beitt utanríkisráðuneytið blekkingum í mars á síðasta ári, til þess að liðka fyrir því að barn kæmist inn í landið þar sem faðir þess er búsettur. Faðir barnsins er, samkvæmt heimildum DV, vinur Jakobs Frímanns.

Jakob Frímann bað utanríkisráðuneytið um að útbúa svokallað liprunarbréf í fyrrnefndum tilgangi, án vitneskju eða aðkomu móður þess, en hún er forsjáraðili barnsins.

Utanríkisráðuneytið kannaði ekki sannleiksgildi þess sem fram kom í tillögu Jakobs Frímanns. Í henni kom meðal annars fram að móðirin væri samþykk beiðninni, málið væri barnaverndarmál og að Jakob sjálfur væri skyldmenni barnsins, sem á ekki við rök að styðjast. Það tók ráðuneytið aðeins nokkra klukkutíma að afgreiða málið og gefa út formlegt, stimplað liprunarbréf að forskrift Jakobs Frímanns.

- Auglýsing -

Jakob Frímann er fyrrum starfsmaður utanríkisráðuneytisins, en hann starfaði til að mynda sem sérstakur menningarfulltrúi í sendiráði Íslands í London.

Þegar móðir barnsins komst að þessu leitaði hún til lögfræðings, sem sendi bréf á ráðuneytið í marslok síðasta árs og krafðist skýringa á málinu. Að sögn DV voru viðbrögð ráðuneytisins dræm í upphafi en eftir að hafa verið beitt þrýstingi greip ráðuneytið til aðgerða og afturkölluðu bréfið. Utanríkisráðuneytið hefur síðan beðist afsökunar á málinu og ítrekað þá afsökunarbeiðni.

Tveggja sólarhringa áreitni

- Auglýsing -

Eftir að hafa haft samband við Jakob Frímann vegna málsins segjast þau Björn Þorfinnsson og Erla Hlynsdóttir hafa orðið fyrir áreitni, andlegu ofbeldi og hótunum af hálfu fólks nátengdu Jakobi Frímanni, sem þau segja fordæmalaust á löngum fjölmiðlaferli þeirra beggja.

„Í kjölfarið hófst tveggja sólarhringa áreitni í garð okkar beggja, Björns en þó aðallega Erlu, þar sem markmiðið var að koma í veg fyrir að þessi frétt myndi nokkurn tímann birtast. Okkur voru gerðar upp annarlegar hvatir, reynt að láta okkur fá samviskubit yfir því að vera að eyðileggja pólitískan feril Jakobs og ekki síður þau mikilvægu málefni sem hann væri að berjast fyrir. Við vorum beinlínis beitt andlegu ofbeldi og okkur hótað því að birting fréttarinnar myndi hafa afleiðingar fyrir okkur persónulega,“ segir í yfirlýsingu þeirra.

Þau segja æðstu stjórnendur útgáfufyrirtækisins einnig hafa verið beitta bæði blekkingum og þrýstingi til að koma í veg fyrir birtingu fréttarinnar.

„Alvarlegast af öllu var sú fyrirlitlega aðferð að láta barnið, sem statt var erlendis hjá föður sínum og hefði aldrei þurft að vera upplýst um fréttina eða að málið tengdist því, var látið hringja ítrekað í Erlu auk þess sem bréf í nafni þess voru send á stjórnendur fyrirtækisins. Þar var okkur blaðamönnum gefið að sök að ætla að velta okkur upp úr forræðismálinu og eyðileggja líf barnsins.“

Í kjölfar alls þessa segjast þau Björn og Erla hafa fundið sig nauðbeygð til að tilkynna málið til Barnaverndaryfirvalda.

Elíta Íslands hættulegri blaðamennskunni en verstu glæpamennirnir

Björn og Erla segjast bæði í gegnum feril sinn hafa fjallað um það sem að flestra mati myndi flokkast undir hættulegustu glæpamenn Íslands. Það sé þó elíta Íslands, hinir hátt settu og áhrifamiklu í þjóðfélaginu, sem líklegastir séu til að reyna að hafa áhrif á og koma í veg fyrir umfjöllun. „Þetta eru ríka fólkið, fína fólkið, fræga fólkið.“

Þau segjast hafa öll gögn í hendi og ef þau telji sig þurfa að verja sig frekar verði þau gögn birt.

„Við teljum að nú sé ekki lengur þörf heldur nauðsyn –  nauðsyn að íslenskir blaðamenn segi opinberlega frá þeim þöggunartilburðum, áreitni og ofbeldi sem þeir verða fyrir í starfi. Aðeins þannig getum við þróast áfram sem upplýst lýðræðissamfélag þar sem allir sitja við sama borð,“ segir að lokum í tilkynningunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -