Bleika slaufan 2019 hefur selst afar vel að sögn framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins. „Okkur óraði ekki fyrir því að þessi breyting úr nælu í hálsmen færi svona vel í fólk.“
Bleika slaufan 2019 er nánast uppseld en örfá eintök eru fáanleg hjá Krabbameinsfélaginu og einnig hjá einhverjum söluaðilum víða um land. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Karabbameinsfélaginu.
„Okkur óraði ekki fyrir því að þessi breyting úr nælu í hálsmen færi svona vel í fólk. Hönnun slaufunnar er líka einstök, eins og hún er reyndar alltaf, en Guðbjörg [Kristín Ingvarsdóttir] í Aurum á svo sannarlega heiður skilinn fyrir að hitta vel í mark,“ er haft eftir Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins, í tilkynningunni.
Í ár er Bleika slaufan í fyrsta sinn hálsmen en ekki næla og lagðist nýjungin vel í fólk að sögn Höllu. „Við sjáum fólk úti um allt ganga með hálsmenið og þannig sýnir það stuðning í verki.“
Á morgun, föstudaginn 11. október, er Bleiki dagurinn, en þá eru fyrirtæki og einstaklingar hvattir til að sýna stuðning við konur og krabbamein með því að bera Bleiku slaufuna, klæðast bleiku og skreyta eða lýsa húsakynni með bleiku.