Táknræn mótmæli voru við sendiráð Rússlands í Reykjavík í hádeginu í dag. Um þrjátíu manns mætti og mótmæltu stríðinu í Úkraínu. Hópur kvenna og eins karlmanns stillti sér upp fáklædd í blóðugum fötum og með skyltum með slagorðum eins og „Rússneskir hermenn nauðga börnum“ og „Stöðvið ofbeldið, stöðvið stríð!“ Þá fengu þeir sem voru þar að heyra það sem margir Úkraínumenn heyra dag hvern, loftvarnarflautur og barnagrát.
„Við munum pottþétt sigra þetta stríð“
Eftir að hópurinn hafði lokið mótmælastöðunni, tjáðu nokkrir sig við fjölmiðla. Olena var ein þeirra en hún er fædd í Bucha en hún kom til Íslands fyrir tveimur mánuðum.
Fréttamaður annars miðils en Mannlífs spurði hverju hún væri að mótmæla í dag. „Ég fæddist í Busha, ég stundaði nám í Busha og ég hef séð þann óskapnað sem rússneskir hermenn hafa gert fólki í Úkraínu. Ég er handviss að nauðganir, dráp, rányrkja og ofbeldi gagnvart venjulegum borgurum er aðalvopn rússneska hersins, rússneskra hryðjuverkamanna. Við erum hér til að sýna fólki að við erum hér og við erum á móti innrás Rússa.“
Fréttamaður: „Ertu með einhver skilaboð til rússneskra yfirvalda?“
„Við munum pottþétt sigra þetta stríð. Við erum frábært þjóð. Við erum friðsæl þjóð. Við viljum vera partur af Evrópu og vera lýðræðisríki. Ég veit að Rússar vilja ekki leyfa okkur að verða hluti af Evrópusambandinu en við viljum tilheyra siðuðum heimi og þeir ættu að hætta þessu stríði og glæpum gegn Úkraínsku þjóðinni.“
Fréttamaður: „Hvernig geta íslensk stjórnvöld stutt betur við bakið á Úkraínsku þjóðinni?“ „Við erum mjög þakklát íslenskum stjórnvöldum og þjóðinni því hún er mjög gestrisin og hér fáum við mikinn stuðning. En ríkisstjórnin mætti gera eitthvað gagnvart sendiráðinu hér og segja hreint út að rússneski herinn er að fremja glæpi og eru í raun hryðjuverkamenn. Þeir drepa saklausa borgara og íslenska þingið þarf að segja það við þjóðina.“
Fréttamaður: „Hvernir er það fyrir þig að sjá Rússa fagna deginum í dag, Sigurdeginum, nú þegar stríðið í Úkraínu er enn í gangi?“ „Þetta er enginn sigurdagur fyrir Rússa, þetta er smánardagur fyrir Rússa, ég get bara sagt það, þetta er dagur smánunar fyrir Rússa. Úkraína mun vonandi bráðum eiga sinni sigurdag.“
Fréttamaður: „Er fjölskylda þín enn í Úkraínu?“ „Já, partur af fjölskyldunni er enn í Bucha en ég flúði hingað ásamt börnum mínum.“
Fréttamaður: „Ertu með skilaboð til fjölskyldu þinnar í Úkraínu?“ „Já, farið varlega og haldið ykkur í byrgjunum því það er enn stríð í gangi.“
„Efnahagslegi þátturinn er það sem mun fella stríðið“
Næst var talað við Jón og kærustu hans, Olenu sem er frá Úkraínu en hún hefur búið hér í níu ár. Olena minntist meðal annars á glæpi rússneskra hermanna. „Þetta er ekkert leyndarmál, farið bara á YouTube, þar sjáið þið að það er verið að nauðga börnum og nýfæddum börnum. Hvernig í ósköpunum er hægt að útskýra þetta? Ég er mjög stolt Úkraínukona, þú getur flutt frá landinu þínu en landið þitt flytur ekki frá þér.“
Jón var spurður hvort hann teldi að Ísland gæti gert meira. „Já, stríð er eitthvað svo fjarlægt okkur Íslendingum, maður upplifir þetta á svo öðru stigi með því að upplifa þetta í gegnum einstakling sem hefur beina tengingu þangað. Þegar maður vaknar að morgni innrásardags og þarf að segja viðkomandi að það er komið stríð og maður sér viðbrögðin. Þegar fólk sprettur upp úr rúminu og byrjar að hringja í alla aðstandendur og þetta hefur verið alveg stanslaust síðan, það er alltaf verið að athuga, er í lagi með þig? Hvað er að gerast hjá þér? Þetta er svo fjarlægt okkur Íslendingum. En það sem við getum gert betur, almennt og yfirhöfuð er að taka sterka afstöðu og það verður ekki gert nema í gegnum algjört viðskiptabann þannig að þrýstingurinn í Rússlandi komi frá þjóðinni sjálfri. Efnahagslegi þátturinn er það sem mun fella stríðið.“
Blaðamaður Mannlífs: „Finnst þér að íslenska ríkið sé að gera nóg?“ „Stundum er alltof mikið bara verið að tala og við erum náttúrulega mjög smá þjóð og mikið viðhlægjendur oft, í stærri klúbbi.“
Fréttamaður: „Hvernig líður þér með það að Rússar séu nú að fagna stríðslokum seinna stríðs og þetta er enn í gangi í Úkraínu?“ „Það var auðvitað sami viðbjóðurinn í gangi í seinni heimstyrjöldinni þó að fréttir um það hafi borist með öðrum hætti, jafnvel ekki fyrr en misserum, mánuðum og árum síðar. Reynslusögur frá konum og ungum börnum af hryllilegum nauðgunum. Þetta fylgir öllum stríðum og auðvitað eru ekki allir hermenn skepnur en það er ofboðslega stór hluti hermanna sem breytast í skepnur í svona aðstæðum og þetta er bara spurning um einhverja útrás fyrir sjúklega ofbeldisþörf. Og þetta er eitthvað sem þarf að draga menn til ábyrgðar fyrir. Og ekki bara hermenninga heldur einnig þá sem eru að tefla þeim fram.“
Blaðamaður Mannlífs: „Finnst þér að yfirvöld hér á landi eigi að reka sendiherra rússa úr landi?“„Það þarf náttúrulega að viðhalda einhverju talsambandi en það þarf að sýna með einhverjum mjög skýrum og sterkum hætti að þetta er ekki liðið. Og það eru alltaf viðskiptalegir þættir sem yfirtrompa hið mannlega.“
Flúði Rússland fyrir tveimur mánuðum
Að lokum vildi hin rússneska Maria fá orðið en hún flúði Rússland fyrir tveimur mánuðum en hún þurfti nokkrum sinnum að beygja af, svo tók á hana að tala um þetta.
„Ég flúði Rússland með syni mínum, 26 mars. Það er ómögulegt að mótmæla í Rússlandi eins og við erum að gera hér. Ég er hér fyrir hönd rússneskra kvenna sem eru á móti stríðinu og þær eru að mótmæla í Rússlandi. Vinkona mín Sasha Skolichenka er nú í fangelsi næstu 15 árin því hún talaði opinberlega um fórnarlömbin í Mariupol. Hún var að segja sannleikann og nú er hún í fangelsi ásamt fleiri konum sem eru nógu hugrakkar til að mótmæla. Þetta sem við erum að gera hér er algjörlega ómögulegt í Rússlandi. Ég yrði barin um leið og ég færi úr buxunum á opinberum stað. Hinn hræðilegi atburður í Busha snerti mig mjög,“ sagði María og beygði af og afsakaði sig. „Af því að þetta er harmleikur kvenna og barna í Úkraínu og einnig harmleikur fyrir rússnesku þjóðina því skömmin er slík og við getum ekki losað okkur við þennan harðstjóra, við erum algjörlega hjálparlaus, við erum að gera okkar allra besta. Stjórnarandstæðingurinn Navalni er nú í fangelsi en áður var eitrað fyrir honum og enginn gerir neitt.“
Þarna stoppaði Maria aftur og afsakaði sig á meðan tárin streymdu niður andlit hennar. „Þetta er líka harmleikur fyrir rússnesku þjóðina og ég veit að partur af þjóðinni styður stríðið og það er hræðileg skömm. Og þetta er harmleikur fyrir okkar menningu, ég trúi ekki að þetta sé að gerast. Þeir eru ekki mennskir, þeir hegða sér eins og algjör skrímsli og ég stend hér til að styðja við mennskuna, fyrst og fremst og styðja konur og börn í Úkraínu og karlmenn þar líka, alla þjóðina. Og ég vil einnig tala fyrir rússneskar konur því þær eru að senda syni sína í stríðið, þær samþykkja það ekki. Þeir eru sendir í stríðið 18, 19 ára og þeir eru að deyja þar og engin fær að vita af því í Rússlandi, því það er verið að fela dauða rússneskra pilta sem deyja í stríðinu.“
Við lok mótmælanna steig fram kona sem tjáði viðstöddum að hún vildi að leyfa fólki að heyra það sem Úkraínubúar heyra daglega og spilaði svo upptöku úr símanum sínum.