Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær að banna lausagöngu katta í bæjarfélaginu frá 1. janúar 2025. Meirihlutinn var hlynntur því að banna lausagöngu katta alfarið og tillagan því lögð fram. Bæjarfulltrúi minnihlutans gagnrýnir að málið hafi ekki verið rætt almennilega og segir það hafa verið mögulegt að koma í veg fyrir bann.
Mannlíf hafði samband við Björgvin Halldórsson, tónlistarmann og kattarvin sem sagði:
„þetta er ekki gott að heyra.“
Andri Teitsson, bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs á Akureyri, segir að meirihlutinn hafi verið sammála í málinu:
„Það er búin að vera umræða í mörg ár um hvort það sé eðlilegt og æskilegt að kettir gangi lausir, og gagnrýnin hafi verið út á að þeir geri þarfir sínar í blómabeð og það sé óþrifnaður, og svo hins vegar að þeir ráðist á fugla á varptímanum. Þetta er svona aðalgagnrýnin og svo kannski líka að þeir beri sjúkdóma og fari inn í hús og fleira,“ segir Andri á Vísi um aðdragandann.
Þá hefur gengið illa að fá fólk til að skrá ketti í bæjarfélaginu að sögn Andra, þrátt fyrir tilraunir á síðasta ári til að koma skráningum í betra horf. Á annað hundrað kettir eru nú á skrá en ljóst er að þeir eru mun fleiri í raun, allt að tvö eða þrjú þúsund að sögn Andra.
Eðlilegt að fólk ræði málin
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi sem lagði fram bókun gegn tillögunni ásamt öðrum, segir eðlilegt að fólk ræði málin og leiti lausna en gagnrýnir að meirihlutinn hafi beint farið í algjört bann.
„Við erum alla vega ekki hrifin af því, eins og gerðist á bæjarstjórnarfundi í gær, að rjúka til og banna hluti án þess að leita lausna eða undirbúa. Það átti sér í raun ekki stað neinn undirbúningur, ekkert samtal við hagaðila eða sérfræðinga, engin tilraun til að ná einhvers konar sáttum heldur bara rokið til og bannað,“ segir Hilda við vísi.
Hún segir það hafa verið farsælla að skoða málið faglega og leggja upp úr því að framfylgja þeim samþykktum sem þegar eru í gildi. Það hafi þó ekki verið gert hingað til og eftirlitið verið mjög lítið. „Það hefði verið hægt að taka einhver skref, byrja til dæmis á því að banna lausagöngu um næturnar og yfir varptíma fugla,“ segir Hilda.
Andri segir þó tilraunir til að takmarka lausagöngu katta fullreyndar.