Félagið Ísland – Palestína boða mótmæli fyrir utan Alþingi í dag en þar verður þess krafist að börn sem föst eru á Gaza en eru með dvalarleyfi á Íslandi, sé komið til landsins.
Klukkan 15 í dag hyggst félagið Ísland – Palestína mótmæla á Austurvelli og krefjast þess að um 60 börnum, sem nú þegar hafa dvalarleyfi á Íslandi, sé bjargað frá Gaza. Í texta við ljósmynd af fjórum systkinum sem föst eru á Gaza, segir meðal annars: „Hvenær ætla íslensk yfirvöld að “taka afstöðu til þess” hvort þau vilji bjarga Mai, Miar, Abdalnasser og Mohammed?“ Þar segir ennfremur að börnin séu föst á Gaza, „þar sem enginn staður er öruggur fyrir sprengjuregni og árásum, hungursneyð og vatnsskorti.“ Þá kemur fram í textanum að málið sé í raun ekkert flókið en hér má lesa færsluna í heild sinni:
„Hvenær ætla íslensk yfirvöld að “taka afstöðu til þess” hvort þau vilji bjarga Mai, Miar, Abdalnasser og Mohammed? Þessi systkini eru nú þegar með dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Þau, og um 60 börn til viðbótar með dvalarleyfi á Íslandi, eru föst á Gaza, þar sem enginn staður er öruggur fyrir sprengjuregni og árásum, hungursneyð og vatnsskorti. Til að koma þeim til okkar þarf utanríkisráðherra að fyrirskipa að sendur sé listi á landamæri Gaza við Egyptaland, og senda diplómata til að taka við þeim og fylgja þeim til Kaíró. Það er allt og sumt. Þetta er ekki flókið. Börnin heim!“