Sunnudagur 19. janúar, 2025
3.3 C
Reykjavik

Borgarfulltrúinn sem vill kaupa falleg föt: „Ákveðnar verslanir ættu að taka sig á“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kjartan Magnússon er 55 ára borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Kjartan býr í Vesturbænum og starfaði árum saman sem blaðamaður Morgunblaðsins. Kjartan er Neytandi Mannlífs.

Gerir þú verðsamanburð á vöru og þjónustu?

Já, ég ber gjarnan saman verð á vörum og þjónustu því ég veit að það getur verið mjög mismunandi á milli verslana. Reyndar finnst mér töluvert vanta upp á verðmerkingar í sumum verslunum, sem gerir slíkan samanburð erfiðan. Þá er of algengt að maður verði var við töluverðan mun á hilluverði og kassaverði og þá yfirleitt oftar kaupandanum í óhag. Slík vinnubrögð eru algerlega óviðunandi og ákveðnar verslanir ættu að taka sig á að þessu leyti. Þeir, sem vinna við verðlagseftirlit, mættu gjarnan kanna þetta og birta niðurstöðurnar.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Ég held að besta sparnaðarráðið sé að fara aldrei svangur að kaupa í matinn. Sjálfur mætti ég nú fara oftar eftir þessu gamla húsráði. Ég kaupi mest inn í Bónus og tek fram að ég er sáttur við verðmerkingar þar. Ég reyni að kaupa ekki meira en þarf hverju sinni svo ekki þurfi að henda of miklum matarleifum.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

- Auglýsing -

Flokkun hefur aukist á mínu heimili eftir að fjórflokkun sorps var tekin upp fyrir skömmu. Flokkunin er ekki flókin í sjálfu sér og svo vonar maður bara að það gangi vel og sé ekki of kostnaðarsamt að endurnýta sorpið.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

Maður vill auðvitað að maturinn sé góður og svo er auðvitað best ef hann er hollur eða að minnsta kosti ekki of óhollur. Að sama skapi vil ég gjarnan kaupa falleg föt, en líka vönduð og endingargóð. Þegar ég kaupi gjöf vil ég helst gefa eitthvað sem viðkomandi vantar svo hún nýtist vel en sé ekki bara enn einn óþarfur hlutur inn á heimilið. Mér finnst æ vandasamara að velja góðar gjafir, því flestir eiga yfrið nóg af alls konar hlutum. Einu sinni var skothelt að gefa nýja bók, en er það alls ekki lengur.

- Auglýsing -

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

Ég man ekki eftir neinu sérstöku, sem erfitt hefur verið að draga úr kaupum á. Fyrir nokkrum árum ákvað ég þó að draga úr bókakaupum, því ég á meira en nóg af þeim. Það reyndist ekki svo erfitt, en oft þarf ég þó að neita mér um að kaupa bók sem mig langar í.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Já, tvímælalaust. Ég hef gert mikið af því að fara í gönguferðir og fjallgöngur hér á Íslandi og reyndar einnig erlendis. Þessar gönguferðir hafa gefið mér mikið og sannfært mig um að við eigum einstakt land, sem við verðum að hlúa að, vernda en jafnframt nýta með skynsamlegum hætti.

Annað sem þú vilt taka fram?

Ég tel að við neytendur eigum almennt að fá mun víðtækari upplýsingar um það sem við kaupum en nú er. Jafnframt þurfum við að veita framleiðendum og verslunum meira aðhald en nú er. Ég skal nefna tvö dæmi, sem mér koma í hug.

Gott lambakjöt er í miklu uppáhaldi hjá mér og mörgum öðrum. Svokölluð upprunamerking lambakjöts er frábært verkefni, sem felur í sér mikla möguleika. Mér skilst að hægt sé að standa þannig að merkingunni að neytandinn sjái af hvaða landsvæði kjötið komi, úr hvaða sýslu, hreppi og jafnvel frá hvaða sveitabæ, sem væri auðvitað mjög skemmtilegt. Ég tel þó mikilvægast að við, íslenskir neytendur, fáum að vita hvort lambakjötið góða, sem við kaupum í verslunum, sé af sjálfbæru beitarlandi eða ekki. Það verður nefnilega ekki fram hjá því litið að á ákveðnum svæðum er hnignandi landi beitt langt umfram þolmörk. Sem betur fer hefur víða náðst umtalsverður árangur í endurheimt landgæða og því má finna mörg ánægjuleg dæmi um sjálfbæra sauðfjárrækt.

Ég vil að við neytendur séum upplýstir um þetta með skýrum hætti, t.d. með því að veita lambakjöti af sjálfbærum svæðum ákveðna vottun. Ég hygg að flestir ábyrgir neytendur myndu velja kjöt af sjálfbæru beitarlandi en sneiða hjá kjöti sem orðið hefði til með ofbeit. Þannig væri hægt að nýta okkur neytendur í þágu umhverfisverndar. Reynslan hefur kennt mér að líta alltaf á dagsetningarmerkingar matvöru áður en ég set hana í körfuna. Þegar ég kaupi ferskan fisk eða kjöt, vil ég að sjálfsögðu vita hvenær vörunni var pakkað hjá viðkomandi framleiðanda. Mér finnst ekki nóg að framleiðandinn merki bara þá dagsetningu, sem er að hans mati „Best fyrir“ eða „Síðasti neysludagur“, þótt það sé auðvitað mikilvægt líka. En sú dagsetning segir mér ekki nóg. Metnaðarfullur framleiðandi merkir ferska vöru bæði með pökkunardegi og síðasta ráðlagða neysludegi. Það gerir t.d. „Fiskbúðin okkar“, sem selur fisk í handhægum öskjum til stórmarkaða og vil ég hrósa eigendum hennar fyrir það. Ég sleppi yfirleitt að kaupa þær ferskvörur, sem eru ekki merktar með framleiðslu- eða pökkunardegi og hvet aðra neytendur til að gera slíkt hið sama. En best væri auðvitað ef framleiðendur tækju sig á og veittu okkur viðskiptavinum þá sjálfsögðu þjónustu að upplýsa okkur um hvenær varan fór frá þeim.

Viðtal þetta birtist fyrst í nýjasta tölublaði Mannlífs sem hægt er lesa hérna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -