Hægt er að sækja um núna í Húsverndarsjóð Reykjavíkurborgar en hann auglýsti á dögunum eftir umsóknum um styrki til viðgerðar og endurgerðar á byggingum í Reykjavík.
Öllum er heimilt að sækja um styrki úr húsverndarsjóði vegna húseignar eða mannvirkis en nokkur skilyrði eru fyrir samþykki borgarinnar.
Mannvirkið þarf að hafa sérstakt varðveislugildi af listrænum eða menningarsögulegum ástæðum, framkvæmdir séu í samræmi við upprunalegan byggingarstíl mannvirkis og sjónarmið minjavörslu haft að leiðarljósi og framkvæmdin teljist ekki til eðlilegs viðhalds, svo sem endurnýjun eða málun.
71 verk á fimm árum
Mannlíf hafði samband við borgina til að spyrja nánar út í sjóðinn en samkvæmt upplýsingum frá henni verða sjö milljónir til úthlutunar í ár en það er sama upphæð og úthlutað var í fyrra.
Hversu mörg hús í borginni hafa fengið styrk úr þessum sjóði á undanförnum fimm árum?
„Um er að ræða 71 verkefni á árunum 2020-2024,“ sagði Sunna Stefánsdóttir hjá Reykjavíkurborg um sjóðinn. „Í starfshópnum situr fulltrúi frá Borgarsögusafni sem þarf að taka út verkið og staðfesta að það sé hafið, og í samræmi við umsókn, áður en styrkur er greiddur út.“
Geta hús sem áður hafa fengið styrk fengið aftur?
„Já, en sjaldnast er veittur styrkur fyrir sama verklið. Hafi t.a.m. verið veittur styrkur fyrir endurnýjun á gluggum er hægt að fá aftur styrk síðar fyrir t.d. endurnýjun á þaki eða tréverki.“