Börn á grunnskólaaldri í Vesturbænum hafa selt fullorðnum einstaklingum kynferðislegar myndir. Börnin hafa þó ekki selt myndir af sér sjálfum heldur sótt þær á netið sjálf. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Ómar Örn Magnússon, skólastjóri Hagaskóla, sendi foreldrum barna sem stunda nám við skólann en RÚV greindi fyrst frá málinu.
Í tölvupóstinum er greint frá því að nokkrir nemendur hafi villt á sér heimildir á hinum ýmsu samfélagsmiðlinum og selt kynferðislegar myndir fyrir pening. Upphæðin ráðist af hversu mikið sést á myndinni og hversu skýr hún sé. Skólastjórinn segir að þetta sé metin áhættuhegðun hjá börnunum og þau geti sett sig í hættu. „Við flokkum þetta sem áhættuhegðun unglinga á samfélagsmiðlum. Við bendum á og beinum nemendum af þessari braut,“ sagði Ómar um málið.
Þá segir skólastjórinn að hann hafi heyrt af sambærilegu atviki í öðrum skóla. Nemendur sem hafa sýnt af þessa hegðun fá hjálp og aðstoð frá skólanum en málið er komið á borð lögreglu og biður skólastjórinn fólk að hafa samband við lögreglu hafi það upplýsingar um álíka mál.