Þau eru fjölmörg íslensku börnin sem hafa legið svo á að komast í heiminn að þau fæddust í sjúkrabílnum á leiðinni á spítalann. Fyrsta barn þessa árs fæddist til að mynda í sjúkrabíl á leið frá Dalvík til Akureyrar klukkan 00:23 á nýársnótt og var það stúlkubarn sem vó 14 merkur.
Í brekkunni á Sauðárkróki – Desember 2017
Það var þann 4. desember á árið 2017 sem lítil dama skaust bókstaflega í heiminn í Hverfisbrekkunni á Sauðárkróki.
Klukkan var 6:54 þegar útkallið kom, fyrsti forgangur, barn á leiðinni.
Það voru sjúkraflutningamennirnir Yngvi Yngvason og Sigurbjörn Björnsson sem mættu á heimili þeirra Ólafar Aspar Sverrisdóttur og Snorra Geirs Snorrasonar, sem áttu von á sínu þriðja stúlkubarni.
Ólöf vaknaði um klukkan fimm um morguninn með mikla verki og ákvað að fara í sturtu í von um að það myndi slaka á verkjunum, án árangurs. Sagðist hún þó hreinlega ekki hafa verið viss um að hún væri komin svo langt því henni fannst verkirnir ekki vera nógu reglulegir. „Þegar foreldrar mínir komu til að taka eldri stelpurnar fór ég að gera mér grein fyrir því að ég þyrfti að fara rembast svo ég sagðist ekki vera fara á Akureyri.“
– Auglýsing –
Engin ljósmóðir var á vakt á Sauðárkróki og því náðist ekki í hana, sem Ólöf sagði hafa flækt stöðuna, auk þess að valda stressi og óvissu. Á endanum bað Ólöf móður sína að keyra heim til ljósmóðurinnar og ná í hana.
Ákveðið var að fara á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks (HSN) og taka stöðuna þar, í stað þess að bruna beint til Akureyrar á fæðingardeildina, þar sem legvatnið var ekki farið.
„Ekki vorum við komnir langt þegar vatnið fór og Sibbi kallar: „Það er að koma!“, sagði Yngvi í viðtali við Feyki, héraðsfréttablað Norðurlands vestra skömmu eftir þessa eftirminnilegu vakt. Og það var mikið rétt. Barnið var svo sannarlega að koma og fæddist það í sjúkrabílnum í Hverfisbrekkunni.
– Auglýsing –
Yngvi sagði hrærður frá því að þau öll hefðu verið í hálfgerðu sjokki yfir hve hröð atburðarásin var. „Við fórum að annast barnið sem fór stuttu seinna að gráta, þvílíkur léttir! Í þann mund mæta ljósmóðir og læknir og var yndisleg stúlka fædd 21 mínútu eftir að útkallið barst.“
Að sögn Ólafar var dóttir hennar ansi slöpp þegar hún mætti í heiminn „en sjúkraflutningamenn, læknir og ljósmóðir stóðu sig frábærlega að koma dömunni almennilega í gang eftir allan hamaganginn.“ Hún sagði að þarna hafi alls ekki verið um draumastöðu að ræða og henni hafi þótt erfitt að vera ekki með fagmanneskju sér til aðstoðar.
Í dag er stúlkan litla sem var að flýta sér svo í heiminn, hún Erika Mist, orðin fimm ára og er að sögn föður síns hraust og flott stelpa. „Henni virðist ekki hafa verið meint af þó hún hafi komið með hraði í heiminn,“ sagði Snorri léttur í bragði í samtali við Mannlíf. Snorri er afar þakklátur sjúkraflutningamönnunum og ljósmóðurinni sem hann segir að hafi staðið sig frábærlega þennan örlagaríka morgun.
Erika Mist er nú orðin stóra systir, en lítill bróðir kom í heiminn í mars í fyrra. Honum lá ekki jafn mikið á og systur sinni, en fæddist samt á Sauðárkróki þó engin fæðingadeild sé þar. „Við vorum lögð af stað til Akureyrar en þá var ófært svo við þurftum að snúa við og hann fæddist hér á HSN,“ segir Snorri og bætir við „það tók þó pínu lengri tíma heldur en með systur hans.“
Í bílasalnum á slökkvistöðinni – September 2020
Foreldrarnir voru á leið á fæðingardeild Landspítalans en sáu ekki fram á að komast á leiðarenda í tæka tíð þar til barnið kæmi í heiminn. Því beindi ljósmóðir, sem þau voru í símasambandi við, foreldrunum að slökkvistöð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í Skógarhlíð, og gerði slökkviliðsmönnum viðvart um komu þeirra. Þeir tóku á móti foreldrunum í bílasal slökkvistöðvarinnar og fluttu konuna úr heimilisbílnum yfir á sjúkrabörur og áleiðis inn í sjúkrabíl.
Þegar í sjúkrabílinn var komið dró heldur en ekki til tíðinda því réttum tveimur mínútum eftir komuna þangað fæddist myndarstúlka á slaginu 20:00. Sjúkrabíllinn stóð þá ennþá inni í bílasalnum.
Á Laugarásvegki og í Grindavík – September 2016/Apríl 2002
Næturvakt slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast eina dimma nótt í september 2016 en sjúkraflutningamenn tóku á móti tveimur börnum seint um kvöldið og um nótt. Samkvæmt varðstjóra hjá slökkviliðinu var tekið á móti barni við Laugarásveg um nóttina. Foreldrarnir voru ekki komnir inn í sjúkrabílinn þegar barnið ákvað að nú væri tímabært að koma í heiminn.
Lítill drengur fæddist í apríl 2002 í sjúkrabíl á leiðinni frá Grindavík til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Tveir sjúkraflutningamenn og læknir voru í bílnum og aðstoðuðu móður við fæðinguna.
„Barnið fæddist svo einhverstaðar á leiðinni,“ sagði talsmaður sjúkraflutningsmannanna í samtali við Víkurfréttir. Bifreiðin var ekki stöðvuð, heldur haldið áfram á Heilbrigðisstofnun þar sem fjölmennt lið tók á móti móður og nýfæddu barni.
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem barn fæðist í sjúkrabíl frá Grindavík en 12-13 árum áður fæddist barn í Grindavíkurbílnum við álverið í Straumsvík.
Náðu ekki á Selfoss – Ágúst 2021
„Ég vissi að þetta gæti alveg gerst hratt, þar sem fæðingin hjá elsta barninu mínu gekk líka mjög hratt, en ég átti ekki alveg von á því að þetta myndi gerast svona hratt.“
Þetta sagði Karen Óskarsdóttir sem fæddi barn í sjúkrabíl á Skeiðavegi í ágúst 2021. Karen og eiginmaður hennar, Jón Marteinn Finnbogason, búa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og það tekur þau sirka fjörutíu mínútur að keyra á Selfoss. Þangað náðu þau ekki því litla stúlkan kom í heiminn í sjúkrabílnum á leiðinni, 13 merkur.
„Systir mín hringdi í mig rétt fyrir tíu um kvöldið og spurði hvort hún geti sofið rólega um nóttina. Ég var búin að vera með einhverja samdrætti yfir daginn en ég bjóst ekkert við að vera fara af stað. Ég sagði henni að það væri ekkert að gerast og skellti á hana,“ segir Karen.
„Tuttugu mínútum síðar hringdi ég í hana og sagði henni að verkirnir væru að versna og að við ætluðum að leggja af stað á Selfoss. Þegar við erum að leggja af stað, um klukkan hálf ellefu, finn ég að verkirnir eru harðna og það verður alltaf styttra á milli,“ segir Karen.
Ákveðið var að klára fæðinguna í sjúkrabílnum við Skálholtsafleggjarann þar sem barnið var við það að fæðast. „Sex mínútur fyrir miðnætti var hún fædd. Allt gekk vel og allt fór vel. Ég var í góðum höndum með tvær ljósmæður við hlið mér og þrjá sjúkraflutningamenn. Mér leið ekkert illa, leið bara eins og ég væri á spítalanum,“ sagði Karen og bætti við:
„En þetta gekk allt svo hratt yfir að maður gat ekki mikið verið að spá í því að fara í aðra stellingu. Þetta gerðist svo hratt – svo var þetta bara búið.“
Snjóruðningstæki á undan sjúkrabílnum – Mars 2013
„Þetta mun líklega seint gleymast“ sagði Guðbergur Rafn Ægisson í marsmánuði 2013 er Guðrún Sigríður Geirsdóttir eignaðist son þeirra í sjúkrabílnum á leiðinni á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þau eru íbúar á Húsavík og var mikil ófærð á Víkurskarði þessa nótt.
Þar að auki sátu tvær stórar bifreiðar fastar á veginum og því var ekki hægt að ryðja hann. Gripið var til þess ráðs að senda snjóruðningstæki á undan sjúkrabílnum til að ryðja gömlu leiðina yfir Dalsmynni í Fnjóskadal.
Í samtali við Morgunblaði sagði Guðbergur að honum hafi vissulega ekki staðið á sama í þessum óþægilegu aðstæðum. „Við sáum ekkert hvar við vorum vegna blindhríðar. Við þurftum oft að stoppa bílinn vegna þess að við sáum ekki á milli stika. Við vorum bara einhversstaðar í Dalsmynninu þegar barnið fæddist. Maður sá að þetta gekk vel og þá hugsaði maður ekkert mikið um að maður væri staddur út í óbyggðum.“
Eitthvað lá barninu á að komast í heiminn og fæddi móðirin það inni í sjúkrabílnum á Reykjanesbrautinni. Ljósmóðir var með í för, og sagði varðstjóri Brunavarna Suðurnesja að móður og barni hafi heilsast vel eftir bílferðina.
Sjúkraflutningamenn tóku á móti dreng inni í sjúkrabíl fyrir utan Landspítalann í Reykjavík um þrjúleytið að degi til, 4. janúar 2020. Um klukkan hálfþrjú hafi slökkviliði borist tilkynning um konu sem komin væri í hríðir og að stutt væri á milli þeirra.
Tekin hafi verið ákvörðun um að senda konuna á Landspítalann með sjúkrabíl en ekki hafi verið komist lengra en svo að drengurinn hafi fæðst inni í bílnum, á bílastæði fæðingardeildarinnar, þar sem sjúkraflutningamenn tóku á móti honum.
Fæddist í bílskýli sjúkrabílanna – Október 2011
Í október 2011 fæddist barn í sjúkrabíl frá Grundarfirði. Sjúkraflutningamenn voru kallaðir út um hádegisbil til að flytja konu á fæðingadeild HVE á Akranesi.
Barninu lá hins vegar svo á að komast í heiminn að það gat ekki beðið þar til sjúkrabíllinn komst alla leið á Akranes. Þegar nálgast var Borgarnes var konan, Anna Gorzelska, komin að fæðingu og brugðu sjúkraflutningamenn og ljósmóðir sem var með í för á það ráð að renna að heilsugæslustöðinni í Borgarnesi. Farið var í bílskýli sjúkrabíla, þar sem Anna fæddi 14,5 marka stúlku.
„Við sáum það strax þegar við lögðum af stað frá Grundarfirði að við myndum jafnvel ekki ná alla leið. Fæðingin gekk mjög hratt fyrir sig en þetta er annað barn þeirra hjóna. Þegar við vorum síðan komin að Langá á Mýrum ákváðum við að gera barnið að Borgnesingi og stoppuðum þar. Aðalatriðið er að allt gekk ljómandi vel og þetta var yndislegur dagur,” sagði Hildur Sæmundsdóttir ljósmóðir í samtali við Skessuhorn.
Ein í einangrun – Febrúar 2022
Aðfaranótt þriðjudags í febrúar á þessu ári tók Berglind Anna Bjarnadóttir sjálf á móti fjórða barni sínu og fyrstu dótturinni. Hún var þá í Covid-19 einangrun heima fyrir með þremur ungum sonum sínum.
Þetta var síðasta dagur einangrunarinnar og var eiginmaðurinn, Róbert Bjarni Bjarnason flugstjóri, utan heimilisins til að forðast smit. Enn voru áætlaðar þrjár vikur í komudag dótturinnar og fram að þessu hafði Berglind ávallt gengið fulla meðgöngu.
„Ég vaknaði að ganga fimm um morguninn og hélt ég væri að pissa á mig.,“ sagði Berglind í samtali við Fréttablaðið, en hún varð aldrei óttaslegin í hamagangnum heima fyrir.
„Ég veit það ekki, þetta eru svo margar tilfinningar. En þegar þetta gerist svona hratt eins og í mínu tilfelli þá hristist hreinlega allur líkaminn. Þetta er náttúrlega rosa „power“ á stuttum tíma. Ég átti alveg von á að hafa neyðarlínuna í beinni á meðan á þessu stæði en svo var ekki.“
Drengirnir þrír sváfu í sínum herbergjum um nóttina en Bjarni, sá elsti, vaknaði rétt áður en litla systir kom í heiminn og varð vitni að hinum stóra viðburði.
„Ég næ nú kannski ekki að vera alveg hljóðlát í þessum miklu verkjum og á meðan ég er að hringja um allt, svo hann vaknar við lætin. Ég var í miðri hríð þegar ég var að reyna að koma heimilisfanginu til skila og reyndi að segja það eins skýrt og ég gat. Næst þegar ég leit á símann var bara búið að skella á svo ég vissi ekkert hvort það hefði tekist. Mér varð þá litið í spegil við hlið mér og sá þá hausinn kominn út og áttaði mig á því að við næstu hríð þyrfti ég að grípa hana.“