Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að töluvert hafi verið um ölvun í gærkveldi og nótt.
Símtal barst frá starfsmanni gistiheimilis sem óskaði eftir aðstoð lögreglu. Hafði komið sér fyrir gestur í einu herbergjanna, í óþökk og án samráðs við starfsfólk gistiheimilisins. Var óvelkomni gesturinn handtekinn fyrir húsbrot, er hann grunaður um eignarspjöll og vörslu ólöglegra fíkniefna. Var hann færður úr hótelherberginu yfir í fangageymslur lögreglu í þágu rannsóknarinnar.
Þá bárust lögreglu tvær aðskildar tilkynningar um meðvitundarlausa einstaklinga á víðavangi sem reyndust vera dauðadrukknir. Var annar aðilinn fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu þegar óðum manni var haldið niðri af dyravörðum í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Þegar lögregla náði á vettvang róaðist aðilinn og fékk að fara sína leið.
Rúða var brotin í verslun í miðbænum í nótt. Skemmdarvargurinn var handsamaður og kærður fyrir eignarspjöll.
Ökumaður var stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í Kópavogi. Var hann mjög ósamvinnuþýður við lögreglu og réðst hann að lögreglumanni á vettvangi. Ökumaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu.