„Bankarnir munu væntanlega ekki vera lengi að koma þessu út í breytilegu vextina sína, sögulega séð. Einhverra hluta vegna hafa þeir verið miklu tregari þegar vextir hafa verið að lækka, þá tekur þetta marga mánuði. Svo eru þeir mjög fljótir alltaf þegar vextir hækka að koma því út í verðlagið,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við Mannlíf.
150.000 króna hækkun á 20 milljón króna láni
Í síðustu viku hækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti sína um 0,75 prósent. Þannig fara meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, úr tveimur prósentum upp í 2,75 prósent. Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir að verðbólguhorfur hafi versnað töluvert frá síðasta fundi peningastefnunefndar Seðlabankans. Verðbólga mældist 5,7 prósent í janúar og spá Seðlabankans segir til um að verðbólga verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Verðbólgan sem nú er við lýði er mesta tólf mánaða verðbólga í um áratug. Viðbúið er að bankarnir hækki vexti sína í kjölfar stýrivaxtahækkunarinnar eins og þeir hafa áður gert.
Ef tekið er mið af stýrivaxtahækkuninni einni er hægt að setja reikningsdæmið þannig upp að af hverri milljón nemur 0,75 prósenta hækkun 7.500 krónum. Þar með myndi greiðsla af 10 milljón króna láni hækka um 75.000 krónur á ári – 150.000 krónur á 20 milljón króna láni. Þetta eru því umtalsverðar fjárhæðir sem um ræðir.
Skuldarar borga brúsann
„Það eru bara þeir sem skulda sem greiða þennan kostnað. Vandanum við verðbólguna er velt út á skuldara. Nú er einhver hluti þjóðarinnar sem ekki skuldar íbúðarlán. Þau þurfa ekki að taka þátt í þessu, ekki með þessum hætti allavega, í aðhaldinu með okkur skuldurum. Þeir aðilar verða ekki fyrir þessum mikla beina kostnaði sem skuldarar verða fyrir,“ segir Breki.
Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Arion banka hagnaðist bankinn um 28,6 milljarða króna á síðasta ári. Um er að ræða methagnað en hann er meira en tvöfaldur á við árið á undan. Íslandsbanki hefur einnig birt ársreikning og hagnaðist samkvæmt honum um 23,7 milljarða á síðasta ári. Það er þremur og hálfu sinnum meiri hagnaður en árið 2020. Landsbankinn hagnaðist um 28,9 milljarða króna árið 2021.
„Arion banki meira en tvöfaldaði hagnaðinn frá árinu á undan. Hagnaður árið 2019 var einn milljarður. Á tveimur árum hafa þeir semsagt tuttugu og áttfaldað hagnaðinn. Sem er náttúrulega ótrúlegt.“
Breki segir að í ljósi þessa ætti ekki að vera erfitt fyrir bankana að láta það vera að velta stýrivaxtahækkunum út í verðlag til neytenda, í formi vaxtahækkana.
„Við sáum það í upphafi Covid að bankarnir juku vaxtaálagið sitt til íbúðalántaka. Kannski héldu þeir að í hönd færu einhver útlánatöp hjá þeim en svo var nú ekki raunin. Samt hafa þeir ekki enn sem komið er minnkað þetta vaxtaálag sem þeir juku í upphafi faraldursins.“
Þetta segir Breki að snerti vaxtamálið svokallaða. Neytendasamtökin hafa stefnt viðskiptabönkunum með það fyrir augum að láta reyna á hvort fyrirkomulag breytilegra vaxta hér á landi sér hreinlega löglegt.
„Við stefndum bönkunum núna í desember fyrir óskýrar vaxtaákvarðanir. Nú er það þannig að við vitum ekkert hvað bankarnir ætla sér að gera. Það væri nú ágætt ef það væri, eins og lög gera ráð fyrir, skýrt hvernig vextir bankanna tækju breytingum. En það er því miður ekki þannig. Þess vegna þurftum við að fara í þetta dómsmál.“
Breki segir að nú sem aldrei fyrr sé þörf á því að bæði bankar og önnur fyrirtæki dragi úr arðsemiskröfum sínum. Hann segir ársreikninga sýna að það séu fleiri en bankarnir sem séu að skila miklum hagnaði, það eigi við um ótal fyrirtæki líka.
„Við sjáum til dæmis að í sumum geirum hafa fyrirtæki verið að auka veltuna um tugi prósenta. Ef þú heldur í sömu hagnaðarkröfu í prósentum talið þá eykst hún gífurlega í krónum talið. Þannig að það á við banka sem og önnur fyrirtæki að nú sem aldrei fyrr er þörf á að draga úr arðsemiskröfum. Við sjáum til dæmis að arðsemi Arion banka fer þarna úr 6,5 prósentum upp í 14,7 prósent milli ára frá 2020 til 2021. Aðeins að róa sig, krakkar, segi ég nú bara!“
Ávísun á höfrungahlaup verð- og launahækkana
„Það eru allir sammála um að þetta er tímabundið ástand,“ segir Breki. „Þar til fraktflutningar fara aðkomast í gang og þar til verður unnið bug á þessu flutningahökti sem er í heimskeðjunni akkúrat núna og þar til hægt er að vinna bug á uppskerubrestum í ákveðnum geirum. Það er ekkert sem segir að þetta muni hafa einhver áhrif fram í tímann en vandamálið er að ef við veltum þessu inn í verðlagið þá er það ávísun á þetta venjulega höfrungahlaup verðhækkana og launahækkana sem við erum því miður allt of vön, sögulega séð. Nú er bara komið að því að atvinnulífið sýni þá stillingu sem atvinnulífið krefst alltaf af launþegum þegar launþegar eru að semja um laun og kjör.
Það er það sem við getum gert; að krefja fyrirtæki um ráðdeild og að þau rói sig aðeins í arðsemiskröfum.“
Breki segir að ef fyrirtækin og bankarnir svari þessu kalli sé vel hægt að halda út þetta tímabundna ástand.
„Annað er ávísun á óróa í haust þegar kjarasamningar eru lausir – ef það á að velta þessu endalaust inn í verðlagið og halda í þessar háu arðsemiskröfur. Slíkt höfrungahlaup hefur aldrei skilað neinu nema aukinni vansæld.“
„Það vill enginn þann óstöðugleika sem þessu mun fylgja. Hann er engum til góðs,“ segir Breki.