Steini Kára Ragnarssyni og Ingva Steinari Ólafssyni, viðskiptastjórum hjá Sýn, hefur verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu en DV greindi frá uppsögn Steins fyrr í dag og einnig að öðrum viðskiptastjóra hafi verið sagt upp.
Heimildir Mannlífs herma að sá maður sé Ingvi Steinar Ólafsson en hann vildi ekki tjá sig við Mannlíf þegar hann var spurður út í málið. Báðir mennirnir eru sagðir hafa staðið sig vel í vinnu og njóta virðingar samstarfsfólks.
Greinilegt er að Sýn er að ganga í gegnum miklar breytingar því eftir uppsagnir viðskiptastjóranna hafa sex lykilstarfsmenn hætt eða verið sagt upp á árinu en Þóra Björg Clausen, Eva Georgs. Ásudóttir, Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og Kolbrún Dröfn Ragnarsdóttir hafa allar tilkynnt á árinu um starfslok sín hjá Sýn. Kolbrún var yfirmaður auglýsingamála Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar en hún er einmitt systir Steins Kára.
Heimildir Mannlífs herma að margir starfsmenn Sýnar séu í uppnámi yfir öllum breytingunum og óttast að missa vinnuna. Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, hefur ekki viljað tjá sig við Mannlíf um þær breytingar sem standa yfir í fyrirtækinu.