Sólveig Anna sendi frá sér yfirlýsingu seint í gærkvöldi þar sem hún greindi frá afsögn sinni. Í yfirlýsingunni segir að starfsfólk Eflingar hafi hrakið hana úr starfi. Hvorki næst í Sólveigu Önnu né Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóra og lýsir starfsfólk á skrifstofu Eflingar stöðunni þannig að allt sé í lausu lofti.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri stéttarfélagsins Eflingar, mun afhenda uppsagnarbréf sitt í dag og hætta þannig störfum fyrir félagið.
„Mér þykir það ótrúlegt að það sé starfsfólk Eflingar sem í reynd hrekur mig úr starfi, með því að leyfa andstæðingum félagsins að hossa sér á ýkjum, lygum og rangfærslum um mig og samverkafólk mitt. Starfsfólk Eflingar hefur kosið að svipta mig því vopni sem hefur gert mér mögulegt að leiða sögulega og árangursríka baráttu verka- og láglaunafólks síðustu ár, mannorði mínu og trúverðugleika,“ segir Sólveig í yfirlýsingu á Facebook.
Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar
Mannlíf hafði samband við Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar sem vildi lítið tjá sig um málið og sagði að það væri að skýrast af sjálfu sér.
Í grein Þráins sem var birt var í Morgunblaðinu 25. september 2019 sagði Þráinn að: „mín skoðun er sú að hin nýja stétt í forystu Eflingar stefni að því að hreinsa út alla starfsmenn og þekkingu sem kemur úr eldra umhverfi félagsins.“
Þráni var sagt upp störfum sem skrifstofustjóra Eflingar á sínum tíma fyrirvaralaust á starfsmannafundi.
Ári síðar var öðrum starfsmanni Eflingar gert að mæta samstundis hjá framkvæmdastjóra þar sem fyrir var „fulltrúi starfsmanna“ sem framkvæmdastjóri hafði sjálfur valið til setu á fundinum. Ástæða uppsagnar var sögð skipulagsbreytingar. Fljótlega kom í ljós að það var fyrirsláttur enda voru ráðnir þrír nýir starfsmenn um svipað leyti og engin af verkefnum viðkomandi starfsmanns voru lögð niður. Áminningarferill var ekki virtur í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Í næsta herbergi beið einn lögmanna ASÍ. Þegar starfsmaðurinn neitaði að skrifa undir móttöku uppsagnarbréfs tók lögmaður ASÍ að sér að reyna að sannfæra starfsmanninn um að þessi framkoma framkvæmdastjórans væri í lagi. Enginn varði hagsmuni starfsmannsins á fundinum.
Ástæða yfirlýsingar trúnaðarmanna félagsins í dag er ógnarstjórnunartilburðir Sólveigar. Yfirlýsingin var send fyrir hönd starfsmanna Eflingar í sumar en á nýlegum starfsmannafundi félagsins bauð Sólveig starfsfólki Eflingar að staðfesta frásögnina. Það var gert og taldi Sólveig sér ekki stætt sem formaður lengur og sagði því af sér.
Sólveig sögð halda úti „aftökulista
Ástæða þess að Sólveig Anna ávarpaði starfsfólk var sú að trúnaðarmenn starfsfólks á skrifstofu Eflingar samþykktu ályktun 9. júní síðastliðinn sem send var á hana og aðra stjórnendur félagsins. Í umræddri ályktun mun Sólveig Anna hafa verið sökuð um að halda úti „aftökulista“ yfir starfsfólk sem henni væri ekki þóknanlegt og að hún hefði brotið kjarasamninga með fyrirvaralausum uppsögnum, auk annars. Í stöðuuppfærslu sinni segir Sólveig Anna að hanni hafi verið brugðið vegna texta ályktunarinnar „sem var ekki sannleikanum samkvæmur og að mínu mati skrifaður af miklu dómgreindarleysi, en ég blandaði mér þó ekki í þetta mál heldur fól öðrum stjórnendum að bregðast við, sem þau gerðu hratt og faglega. Skrifleg staðfesting barst frá trúnaðarmanni þar sem málinu var sagt lokið.“
Á fimmtudaginn í síðustu viku hafði fréttamaður Ríkisútvarpsins samband við Sólveigu Önnu til að spyrja hana út í umrædda ályktun. Í kjölfar þess ákvað hún að ávarpa starfsfólk skrifstofu Eflingar að morgni síðasta föstudags. „Ég sagði við starfsfólk á þessum fundi að það væru tveir kostir í stöðunni. Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.“