Úrslit í hönnunarsamkeppni um brú yfir Fossvog voru tilkynnt í gær.
Vinningstillagan ber heitið Alda og fékk vinningstillagan góða einkunn í öllum flokkum. Samtals hlaut hún 110,4 stig af 130 mögulegum. Að baki tillögunni er teymi frá verkfræðistofnunni EFLU.
Vegagerðin bauð keppnina út á Evrópska efnahagssvæðinu fyrir hönd samstarfsaðilanna og má sjá sýninguna á tillögunum þremur í anddyri Háskólans í Reykjavík fram yfir helgi.
Nánari upplýsingar, myndir og myndbönd um tillögurnar eru á vef Borgarlínunnar.
Umsögn dómnefndar um brúnna
„Mannvirkið er látlaust en jafnframt kröftugt. Brúin virkar einföld við fyrstu sýn en vex við nánari skoðun. Brúin fellur áreynslulaust að umhverfi sínu og mjúk bylgjulögun brúarinnar er áhugaverð skírskotun í öldur hafsins. Léttleiki brúarinnar keppir ekki við náttúrulegt umhverfi heldur skapar fallega sýn á sjóndeildarhringinn fyrir vegfarendur beggja vegna vogarins. Umferð fyrir alla samgöngumáta er greið og tengingar við brúarenda vel útfærðar. Aðgreining milli ólíkra samgöngumáta er vel leyst, stuðlar að öryggi allra vegfarenda og aðgengi fyrir alla. Tillagan sýnir góða heildræna nálgun gagnvart öllum þáttun tæknilegrar hönnunar. Framsetning tillögunnar er mjög skýr og öllum þáttum vel lýst í máli og myndum. Efnisval brúarinnar er vel rökstutt út frá endingu og viðhaldi.“
Hönnunarsamkeppnin var opin og í tveimur þrepum. Á fyrra þrepi bárust 15 tillögur sem nálguðust viðfangsefni keppninnar á mjög fjölbreyttan hátt. Þrjár tillögur hlutu flest stig í fyrra þrepi. Þær áttu það sammerkt að vera með sterkt heildaryfirbragð og heildræna nálgun á veigamestu þætti verkefnisins.
Var það mat dómnefndar að brýr samkvæmt tillögunum þremur hefðu alla burði til að sinna hlutverki sínu sem skilvirkt samgöngumannvirki og sem fallegt kennileiti á höfuðborgarsvæðinu.
Bygging brúar yfir Fossvog er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, sveitarfélaganna Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar, og Betri samgangna ohf. Brú yfir Fossvog er hluti af 1. áfanga Borgarlínunnar samkvæmt Samgöngusáttmálanum.