Kristinn Gylfi og Björn Jónssynir berjast enn fyrir skaðabótum gegn RÚV og Matvælastofnun þar sem fyrirtæki þeirra, Brúnegg, fór fljótlega á hausinn eftir umfjöllun Kveiks um fyrirtækið. Þetta er í annað sinn sem bræðurnir fara með málið fyrir dómstóla og hófst aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um eggjaframleiðsluna hjá Brúneggjum vakti mikla athygli á sínum tíma. Þar kom í ljós að fyrirtækið hafði lengi merkt afurð sína sem vistvæna án þess að uppfylla skilyrði til þess. Tryggvi Aðalbjörnsson, fréttamaður Kveiks, vann blaðamannaverðlaun fyrir umfjöllun sína árið 2017.
Eggjabræðurnir hafa alla tíð hafnað fréttaflutningi RÚV, sem þeir segja einfaldlega hafa verið rangan, og krefjast þeir bóta vegna meints persónulegs tjóns eftir umfjöllun Kveiks. Eftir umfjöllunina var eggjum meðal annars kastað í hús Kristins Gylfa.
„Okkur hefur ekki liðið vel, okkar fólk hefur tekið þetta mjög nærri sér, það er verið að kalla okkur eigendur Brúneggja dýraníðinga þegar við höfum verið í landbúnaðarrekstri í 35 ár og það vita allir sem þekkja okkur að við höfum alla tíð farið vel með okkar dýr“ sagði Kristinn.