„Ég hef farið tvisvar á veitingastaði að undanförnu – á kaffitíma. Í dag fengum við okkur smárétt á Kraumu sem kostaði kr. 2.600 (sjá mynd). Og bauð svo mömmu í kaffi á Café Milano (sjá mynd). Bollinn kostaði 780 krónur. Er þetta ekki dáldið dýrt?“
Svo spyr Bryndís nokkur í Facebook-hópnum „Vertu á verði – eftirlit með verðlagi“, en sá hópur er hratt og örugglega að verða mikilvægt tól neytenda við að vakta hin ýmsu neytendamál, þó sér í lagi mál er varða verðlag á Íslandi.
Með færslu Bryndísar fylgja myndir af smáréttinum á Kraumu og kvittun frá Café Milano.
Þó smáréttur sé, verður að segjast að fyrir 2.600 krónur hafi Bryndís fengið ansi lítið fyrir snúð sinn. Á diskinum má sjá fjóra aspasstöngla, nokkra ostbita, tvær hráskinkurúllur, örlitla slettu af sósu og nokkrar flísar af parmesanosti dreifðum yfir herlegheitin.
Kvittunin sýnir hins vegar það sem verður að teljast nokkuð sláandi verðlagning á kaffi.
Um er að ræða bolla af Americano á kaffihúsinu Café Milano. Americano er kaffi sem búið er til með því að blanda saman espresso og heitu vatni. Engin mjólk kemur þar við sögu, eða nokkuð annað en kaffi og vatn.
Á kvittun Bryndísar má sjá að Americano-kaffibollinn kostar 780 krónur á kaffihúsinu.
Dagný nokkur er sammála því að kaffið sé dýrt, þótt hún sé ekki eins viss um réttinn á Kraumu:
„Mér finnst kaffið dýrt. Veit ekki hvort mér finnst rétturinn dýr. Aspas á þessum árstíma – hvaðan kemur hann? Hráskinka er dýr. Veit ekki hvað er meira þarna.“
„Allt of dýrt, eina sem þau skilja ef fólk hættir að versla hjá þeim. Americano er líka miklu dýrari en annars staðar,“ segir Katrín.
„Café Milano hefur alltaf verið okurbúlla. Ekkert nýtt þar,“ segir Stefán.
Þórhildur kemur Kraumu til varnar:
„Eðlilegt verð fyrir forrétt á veitingastað.“
Arnþór setur fyrirvara:
„Er Krauma Michelin staður eða 4-5 stjörnu staður? Ef svo er þá já eðlilegt, ef ekki þá er þetta mjög dýrt.“
„Cafe Milano er ekki kominn tími til að þið lækkið verðið á kaffinu hjá ykkur?“ spyr Hildur í athugasemd sinni og merkir kaffihúsið í hana. Það vill þó ekki betur til en svo að hún merkir þar Cafe Milano, kaffihús sem staðsett er í Washington í Bandaríkjunum og getur lítið gert í verðlagningu kaffihúss á Íslandi.
„Ein teskeið af kaffi fyllt upp með heitu vatni. Mesta framlegð sem til er og nánast enginn kostnaður fyrir veitingastaðinn. Og ekki reyna að afsaka þetta okur með stól og borði og einhver rétti þér bollann, það má nú einhver millivegur vera..,“ segir Haffi.