Eins og fram kom í dag þá hafa fjórir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri verið teknir höndum af sérsveit ríkislögreglustjóra; grunaðir um skipulagningu hryðjuverka.
Tveir mannanna voru úrskurðaðir i gæsluvarðhald – annar í viku; hinn í tvær vikur.
Mennirnir liggja einnig undir grun um umfangsmikla vopnaframleiðslu; notuðu til verksins þrívíddarprentara.
Brynja Huld Óskarsdóttir er öryggis- og varnarmálafræðingur; hún er ein af örfáum sérfræðingum í hryðjuverkum hér á landi
Og Brynja Huld spyr nokkurra spurninga á samfélagsmiðli, sem eru allrar athygli verðar:
„Vantar svo miklu fleiri uppl. til að greina ástæður & herkænsku (strategy) á bakvið skipulagningu þessara hryðjuverka.“
Hún segir að „gremja & róttæknihæning er grundvallarundanfari í hryðjuverkum og eiga stærstan þátt í stýra einstaklingum inn á þessa braut.“
Og spyr:
„Hvaða öfgahugmyndafræði stýrði einstaklingum? Þekktust þeir fyrir? Eða kynntust þeir á netinu eða í öðrum félagsskap?
Í öllu falli gífurlega stór breyting þegar kemur að upplifun á hryðjuverkaógn á Íslandi; hryðjuverk eru skilgreind sem það fyrirbæri að beita ofbeldi eða hótun um ofbeldi vísvitandi til að vekja ótta með það fyrir augum að breyta hegðun almennings eða yfirvalda til að ná pólitísku markmiði,“ ritar Brynja Huld að lokum.
Svör við spurningum hennar hljóta að koma upp á yfirborðið á næstu dögum, og Mannlíf mun fylgjast vel með þessu máli.