Sunnudagur 12. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Brynjar æfur yfir leyniræðu Björgvins á landsfundi – „Ekki gefa okkur fleiri gjafir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Björgvin Þór Þórhallsson, fyrrverandi skólastjóri Melaskóla og sósíalisti, segist á Facebook hafa flutt leyniræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 6. nóvember síðastliðinn. Þessa ræðu hafi hann flutt fyrir tómum sal klukkan hálf sex að morgni sunnudags.

Ræðuna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan en hvort sem hún var flutt í raun eða ekki, þá er ljóst að hún strýkur Brynjar Níelsson, varaþingmann flokksins, öfugt. Brynjar bregst ókvæða við og skrifar: „Þér hefur ekkert dottið í hug að flytja ræður á landsfundum sósíalista í Norður Kóreu, Kúbu, Venesúela og öðrum svipaður til að segja hvað sósíalisminn hefur fært þeim?“

Björgvin var í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík í síðustu kosningum.

Færsla Björgvins í heild sinni

Ég hélt ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, kl. 5:30 í morgun. Ég var einn í salnum.

Ágætu landsfundarfulltrúar. Góðir Sjálfstæðismenn. Vondir Sjálfstæðismenn og allir sem eru þar mitt á milli.

Ég er hér fyrir hönd þjóðarinnar að færa ykkur þakkir. Takk fyrir allt. Takk fyrir allt sem þið hafið gert okkur, okkur sem þjóð og okkur sem samfélagi.

- Auglýsing -

Þið gáfuð okkur Davíð, þið gáfuð okkur Árna.

Johnsen.

Þið gáfuð okkur Íraksstríðið og þið gáfuð okkur Hrunið. Þið gáfuð okkur meira að segja Sigmund Davíð og Leiðréttinguna sem er nú sérstakt afrek.

- Auglýsing -

Og þið gáfuð okkur Bjarna. Takk fyrir það.

Og nú gefið þið okkur Guðlaug. Tack så mycket, eins og sænska mafían myndi segja.

Meðan ég man, ég sá Guðlaug hoppa um á hækjum áðan, er ekki hægt að láta hann fá hjólastól? Skilst að einn hafi losnað nýlega.

Sem sagt, þið gáfuð okkur Davíð. Tilfinningar mínar gagnvart þeirri persónu eru líklegri blendnari en flest annað. Sem áhugamaður um stjórnmál viðurkenni ég mikilfenglegan ferilinn og einstaka hæfileikana sem einungis Ingibjörg Sólrún Gísladóttir náði að jafna eða jafnvel bæta um betur. En á móti kom að það skorti alltaf tilfinnanlega uppá mildina í fari þessa ágæta manns, “Foringjans mikla” eins og fylgjendurnir kölluðu hann sumir. Hann gat verið ófyrirleitinn og eins og hann hefði orðað það sjálfur, undarlega smár í sniðum.

En svo liðu árin og ég tók hann smám saman í sátt. Einhverja sátt alla vega. Og þegar þar var komið sögu, var komið haust á pólitískum ferli Davíðs, kosningavorið 2003. Það haustaði mjög snemma það ár. Davíð vann sannkallaðan Pyrrhosarsigur á Samfylkingunni sem var illu heilli með Össur sem formann, mann sem þekkti ekki sinn vitjunartíma, hvorki þá né síðar, og hafði sett Ingibörgu, vonarstjörnu vinstri manna í fimmta sætið á lista flokksins í Reykjavík. Ingibjörg komst ekki inn og ég gleymi aldrei myndinni af henni í blaði skömmu síðar, tekinni morguninn eftir kosninganóttina. Hún sat með kaffibollann við eldhúsborðið og greinilega úrvinda. Brosti samt en dauflega. Og ég hugsaði: Hvílík sóun!

En fyrirgefiði, þetta var útúrdúr, ég þjóna lund minni og er farinn að fjalla um Samfylkinguna.

Málið var að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi þetta vor en ríkisstjórnin hélt meirihlutanum vegna kosningasigurs Framsóknarflokksins. Sá sigur er nú í fréttum, tuttugu árum síðar vegna loforðaflaums þess flokks. Loforðaermi Framsóknarflokksins ætlar að reynast okkur dýr. Og vegna þessa dýrkeypta varnarsigurs neyddist Davíð til að láta eftir forsætisráðherrastólinn til Halldórs Ásgrímssonar og bara til hans persónulega, eins og í lénsveldum miðalda, ekki til Framsóknarflokksins. Davíð fékk eitt ár í stólnum svona til að fá að velja sinn tíma og þaðan fór hann beina leið í utanríkisráðuneytið. Öll hans saga eftir það er síðan hálfgerð niðurlægingarsaga fyrir hann, flokkinn og okkur öll. 25 nýskipaðir sendiherrar (eða eitthvað álíka), afmælissöngur fyrir stríðsherrann í Washington, fáránleg og lítilmannleg barátta fyrir því að orustuþotur yrðu um kyrrt á Keflavíkurflugvelli og svo þegar hann loks hætti í stjórnmálum og gerði sjálfan sig að Seðlabankastjóra (tilkynnti það sjálfur, réð í raun sjálfan sig, skyldi hann hafa tekið atvinnuviðtal við sjálfan sig?): Hrunið eða hvað það nú heitir það ágæta bankahrun.

Sem sagt, þið gáfuð okkur Davíð. Það er eiginlega ekki hægt að halda áfram með þessa sögu ógrátandi, uppgjörsskýrsla um flokkinn rifin í tætlur í ræðustól á landsfundi og það þurfti svo lög til að losna við manninn úr Seðlabankanum. Hversu lágt …? Hvað kom fyrir þennan mann? Hvað kom fyrir ykkur, ágæta Sjálfstæðisfólk?

Samt, fann ég til furðulegrar velvildar í garð Davíðs þegar kunnuglegt andlitið birtist í sjónvarpinu sem forsetaframbjóðandi hér um árið. Þetta var eins og ómur fortíðar: allir gömlu kallarnir rifjuðust upp fyrir mér, allar gömlu hetjurnar, Ragnar Arnalds, Svavar, Jón Baldvin, Steingrímur (Hermannsson!) og allir hinir… og það rann upp fyrir mér að saga Davíðs er mín saga og ykkar saga. Hann er hluti af minni samtíð, við höfum verið samferðamenn, gengið ólíkar götur en samstíga samt sem áður. Og ég fann til væntumþykju og hlýju, mér fannst í alvörunni svolítið huggulegt að heyra röddina.

En ég hefði auðvitað frekar nagað af mér útlim en að kjósa hann.

Og þið gáfuð okkur Árna Johnsen, þann ofurhuga og fork. Þann lífskúnstner. Þann dæmda fjárdráttsmann.

Ég var aldrei sáttur við fangelsisdóminn. Vil helst ekki loka menn inni nema þeir séu hættulegir öðrum. Árna hafði svo sem verið laus höndin í gegnum tíðina en við skulum ekkert vera að rifja það upp núna. Það þurfti ekki að loka hann inni, einungis að banna honum að koma að opinberum fjármálum aftur. En það fyrsta sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði þegar Árni hafði afplánað dóminn var að skipa hann fulltrúa í stjórn RARIK.

Ég hef bara góðar óskir til Árna en þetta var óþarfi og til skaða. Svona gera menn ekki en svona gerðI Sjálfstæðisflokkurinn. Svona gerir Sjálfstæðisflokkurinn. Það er í rauninni skömm að þessu. Skömm og heiður? Það er stundum eins og þessi hugtök séu víðsfjarri ykkur Sjálfstæðisfólki.

Og þið gáfuð okkur Íraksstríðið. Siðlaust árásarstríð byggt á lygum og blekkingum. Helmingurinn lygi og hitt allt eintóm svik. Og hvað lágu margir Írakar í valnum? Hversu margir sárir, örkumlaðir, limlestir? Og hvað með samfélagið sjálft? Írak er ónýtt land og Íraksstríðið leiddi af sér ein grimmilegustu hryðjuverkasamtök okkar tíma, ÍSIS.

Ég minnist ljósmyndar í blaði af ungri írakskri stúlku, barni, þar sem hún lá handa- og fótalaus á sjúkrahúsi í Bagdad, fórnarlamb loftárása “Bandamanna”. Ræfillinn hann Tony Blair ætlaði að fá hana til Bretlands til að veita henni góða aðhlynningu en mér finnst að Davíð eigi að annast hana.

Hún lá þarna án handa og án fóta. Tólf ára kannski eða tíu. Hennar sök var að vera þarna bara, heima hjá sér, þegar flugskeytin féllu, nákvæmu smartbomburnar. Var Íraksstríðið nauðsynlegt? Nei, auðvitað ekki og við erum samsek. Davíð og Halldór báru ábyrgð á því.

Og þið, ágætu Sjálfstæðismenn, báruð ábyrgð á Davíð Oddssyni.

Er afsökunarbeiðni á leiðinni?

Svo kom hið svokallaða hrun. Þar ber Sjálfstæðisflokkurinn meginsök. Hin pólitíska ábyrgð á þeim óskapnaði sem leiddi til Hrunsins, liggur í Valhöll. Hún liggur í þeirri hugmyndafræði, græðgisvæðingunni og þeirri öfgahyggju að markaðurinn leysi allan vanda – og hún liggur í krónískri spillingu Sjálfstæðisflokksins sem virðist fyrirmunað að skilja á milli ríkisvaldsins og flokksins. Svona eins og í … Norður-Kóreu?

Sjálfstæðisflokkurinn var með forsætisráðuneytið (Geir), hann var með fjármálaráðuneytið (Árni, nei, ekki Johnsen! Mathiesen), stjórnarformann Seðlabankans og Seðlabankastjóra, svokallaðan formann bankastjórnar. Flokkurinn var með Fjármálaeftirlitið (Jónas Fr. Jónsson) en að vísu ekki stjórnarformann þeirrar stofnunar, svo það sé sagt. Sjálfstæðisflokkurinn var sem sé ekki bara báðum megin við borðið, hann var til hliðanna líka, undir því og yfir því og allt um kring. Þeir hefðu alveg eins getað staðsett stjórnarráðið og ráðuneytin í Valhöll.

Hvílíkt bananalýðveldi! Hvílík niðurlæging einnar þjóðar!

Hvílíkur skandall.

Helvítis fokking fokk.

Þið, mínir kæru vinir, gerðuð okkur þetta. Þið gerðuð okkur að bananalýðveldi. Þið og við. Við leyfðum ykkar að gera það. Með því að kjósa ykkur unnvörpum og með því að leiða ykkur til valda, trekk í trekk. Eins og klárinn sem leitar alltaf þangað sem hann er kvaldastur.

Að lokum var þjóðinni reyndar nóg boðið og hér var gerð svokölluð bylting. Búsáhaldabyltingin beindist ekki gegn Samfylkingunni, glórulausum samstarfsflokki ykkar í Hrunstjórninni, heldur að ykkur. Búsáhaldabyltingin snerist um það m.a. að fá Samfylkinguna til að slíta þessu vonlausa stjórnarsamstarfi. Segja Sjálfstæðisflokknum upp.

Með búsáhaldabyltingunni rak þjóðin í raun Sjálfstæðisflokkinn. Þið voruð rekin. En þið náðuð ekki þeim skilaboðum, þið hélduð að þið væruð “Drekinn”. Heppilegur misskilningur.

Þess vegna skilur enginn hvers vegna þið barmið ykkur yfir litlu fylgi flokksins eftir Hrun. Allir aðrir vita skýringuna: það varð hérna svokallað hrun og þið njótið ekki lengur trausts og munið aldrei gera aftur. Fyrir þessa þjóð er það að tengja efnahagslegan stöðugleika við hagstjórn Sjálfstæðisflokksins bara lélegur brandari. Djók.

Og svo gáfuð þið okkur Bjarna, prinsinn sjálfan úr Garðabænum. Ófúsan forystumann sem lét til leiðast að taka við þessum kaleik, í nafni ættarinnar og hefðarinnar. Og hefur svo sem vaxið í starfi og hlutverki enda ekki annað hægt. Teflonhúðaður svo ekkert festist á hann, ekki einu sinni að hafa komið milljónum fyrir í skattaskjóli.

Ég hef reyndar aldrei litið á Bjarna sem einhvern voðalegan spillingargosa. Það sem er ófyrirgefanlegt í mínum huga er miskunnarleysið og skeytingarleysið gagnvart láglaunafólki, öryrkjum og eldri borgurum og eilíf samstaða með stórfyrirtækjunum og stóru fjármagnseigendunum gegn þeim sem minna mega sín. Hvernig er hægt að stilla málum þannig upp að kjarabætur þeirra sem minnst hafa – og hafa ekki nóg – setji hagkerfið á hliðina en ekki ef sömu peningar verða eftir hjá hinum ríku? Eru þetta ekki sömu peningarnir?

Bjarni er búinn að standa sig vel sem fjármálaráðherra enda búinn að vera þar jafn lengi og grunnskólabörn eru í grunnskóla en hann hefur staðið gegn réttlætinu. Og það verður aldrei neinn friður án réttlætis. Hann er ekki rétti maðurinn til að vera með þessi völd.

Og svo gefið þið okkur Guðlaug. Ekki beint orðheppnasta stjórnmálamann landsins en ódrepandi og með níu líf í pólitík. Á hvaða lífi ætli hann sé núna?

Guðlaugur, Grafarvogsfurstinn alþýðlegi. Sjarmerandi eins og George Bush yngri, einn af strákunum, vantar bara hafnaboltahúfuna. En hver er pólitík hans? Ég veit það eiginlega ekki. Stundum finnst mér eins og pólitík Guðlaugs Þórs, Borgnesingsins knáa, sé aðallega Guðlaugur Þór Þórðarson og hans frami.

Þó kemur ýmislegt uppí hugann: hér var einu sinni sjónvarpsstöð, á svipuðum level og Omega. Þar sátu löngum stundum Ingvi Hrafn fréttamaður, Hallur Helgason, fyrrverandi fréttamaður og Jón Kristinn Snæhólm, Sjálfstæðismaður úr Kópavogi. Og með þeim var Guðlaugur Þór, furstinn úr Grafarvogi. Hinir létu móðan mása en Guðlaugur beið. Og þetta er svolítið einkenni á þessari tegund af stjórnmálamanni, að tala síðastur svo hann lendi ekki á skjön við meginstrauminn í umræðunni. Svo talaði Guðlaugur og hinir hlustuðu í andakt á meðan. Eða kannski með smá spurn í augunum: “er þetta allt og sumt”? En Guðlaugur skar sig ekki úr í þessum hópi. Og skoðanir þessa hóps er ekki hægt að kalla annað en öfgakennda hægri stefnu.

Hver er pólitík Guðlaugs? Spyr sá sem ekki veit.

Kæru landsfundarfulltrúar. Mér þykir vænt um ykkur alla, eins og mér þykir vænt um alla hælisleitendur sem hingað koma. Við erum öll manneskjur og viljum það sama, svona meira eða minna. Ég er ekkert betri en þið, jafnvel ívið verri ef eitthvað er. Þó ég sé ekki sammála ykkur um margt í stjórnmálum þá virði ég rétt ykkar til að hafa ykkar skoðun og stefnu og mæla fyrir henni. Samkvæmt leikreglum lýðræðisins og í lýðræðislegum anda. En um leið og ég þakka fyrir þessar gjafir ykkar í gegnum tíðina, og það geri ég í nafni þjóðarinnar, þá verð ég þó segja þetta:

Ekki meir, ekki meir.

Ekki gefa okkur fleiri gjafir.

Gleðilegan landsfund. Lifið heil

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -