Þriðjudagur 29. október, 2024
5.1 C
Reykjavik

Bubbi Morthens til bjargar: „Á sínum tíma bjargaði Kvennaathvarfið lífi mínu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í ár eru fjörutíu ár eru liðin frá stofnfundi Samtaka um kvennaathvarf  sem var haldinn 2. júní 1982. Kvennaathvarfið hóf starfsemi sína 7. desember 1982. Á þeim 40 árum sem Kvennaathvarfið hefur verið starfrækt hefur gengið á ýmsu rekstrarlega séð. Fjárhagslegur barningur einkenndi fyrstu ár samtakanna, sem þrátt fyrir allt lögðu og enn leggja kapp við að aðstoða konur á Íslandi að losna úr viðjum heimilisofbeldis.

„Hvernig framhaldið verður veit ég ekki. Ég er orkulítil eftir þessi átök og ekki góð á taugum. Svona nokkuð tekur mjög á mann og ég óska engri konu þess að ganga í gegnum það sem ég hef þurft að gera. Og ég á ekki mörg ráð handa konum sem kunna að lenda í þessu, — og þó. Eitt ráð á ég. Kvennaathvarfið. Ég hvet allar konur sem lenda í blindgötu heima hjá sér á einn eða annan hátt og verða fyrir kúgun á heimili sínu, að leita hiklaust til Kvennaathvarfsins. Þar er engri konu úthýst sem á aðstoð þarf að halda. Þar er einnig gott að vera og þar eru konur sem skilja vandamálið og hollt er að tala við. Það er ekkert vafamál að á sínum tíma bjargaði Kvennaathvarfið lífi mínu.“ 

Framangreindur texti eru lokaorð frásagnar konu sem varð fyrir þráfaldlegum líkamsmeiðingum af hendi geðsjúks eiginmanns hennar og birtust þriðjudaginn, 3. febrúar 1987 í Þjóðviljanum.

„Aðsóknin að Kvennaathvarfinu í Reykjavík, sem opnað var í desember 1982 bendir til þess að mikið sé um ofbeldi á heimilum hér á landi. Meirihluti kvennanna sem koma í athvarfið er eldri en 36 ára. Við vitum ekki hvort ofbeldi hefur vaxið eða minnkað, vegna þess að upplýsingar vantar frá fyrri árum,“ eftirfarandi kom fram í ársriti Kvenréttindafélags Íslands, 19. Júní frá 1984. Þar nefndi Hildigunnur Ólafsdóttir, afbrotafræðingur meðal annars að Kvennaathvarfið væri mikilvægur þáttur viðspyrnu kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi þá segir Hildigunnur jafnframt: „Mjög mikilvægt er að konur sem hafa orðið fyrir nauðgun geti leitað til annarra kvenna og fengið stuðning. Konur verða að læra að slá til baka og búast til varnar. Kvennaathvarfið er liður í því.“

Húsnæðisvandinn

Húsnæðisvandi elti samtökin en föstudaginn 8. apríl 1983 eða um það bil fimm mánuðum frá stofnun Kvennaathvarfsins, birtist eftirfarandi í Helgarpóstinum:

Kvennaathvarfið er nú nokkuð í sviðsljósinu vegna þess að það er að missa núverandi húsnæði sitt og hefur hafið söfnun til kaupa á eigin húsi. Konurnar sem stýra athvarfinu segja að reynsla síðustu mánaða hafi sýnt að mikil þörf sé á slíku húsnæði, og ekki skal það dregið í efa. Hins vegar heyrum við að ekki komi allar konur lúbarðar af mönnum sínum til Kvennaathvarfsins. Þangað leiti ekki síður húsnæðislausar konur sem til dæmis eru að skilja við menn sína, eða koma utan af landi til Reykjavíkur. Heyrum við að Kvennaathvarfið sé í hinum mestu vandræðum vegna ásóknar þessara kvenna, sem ekki þykir stætt á að vísa burt…

- Auglýsing -

Sjálfstæðisflokkurinn tregir við styrkveitingu

Árið 1986 var sérstaklega erfitt fjárhagslega hjá athvarfinu. Í Þjóðviljanum  8. maí 1986 er fjallað um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn þráaðist við að greiða út styrk til Kvennaathvarfsins: „Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa enn ekki fengist til að greiða Samtökum um kvennaathvarf 625 þúsund króna styrk sem samþykktur var við afgreiðslu fjárhagsáætlunar borgarinnar fyrir þetta ár. Á fundi borgarráðs í vikunni var tillögu Sigurjóns Pétussonar um að styrkurinn yrði greiddur enn frestað og verður hún ekki afgreidd fyrr en í næstu viku.“

Var einnig rætt við Ólöfu Briem sem starfaði í athvarfinu. Hún tók fram að á degi hverjum væri þar 15 – 20 börn og konur og þörfin brýn.

„Sem fyrr segir hefur tillögu Sigurjóns Péturssonar í borgarráði verið frestað tvívegis og verður ekki afgreidd fyrr en í næstu viku. Þá verða liðnir fjórir mánuðir frá því borgarstjórn samþykkti að veita þennan styrk.“

- Auglýsing -

Af fjárhagserfiðleikum samtakanna fór ekki varhluta í fjölmiðlum en í dálknum Fréttapóstinum í Helgarpóstinum frá 24. júlí 1986 var stiklað á stóru og tveimur mánuðum eftir ofangreinda frétt bólaði ekkert á styrkveitingu frá borgarráði:

„Kvennaathvarfið á hausnum 

Kvennaathvarfið á við mikla fjárhagserfiðleika að stríða, en tillögu minnihlutans í borgarstjórn um tafarlausa greiðslu á seinni helmingi þeirra 625 þúsund króna sem athvarfið fékk úthlutað á fjárhagsáætlun borgarinnar, var vísað frá á borgarráðsfundi á þriðjudag. Fjárhagsstaða Kvennaathvarfsins er svo bág að ekki hefur reynst unnt að borga starfsmönnum tilskilin laun og ekki reynst unnt að hefja lagfæringar á annars hálfónýtu húsi athvarfsins. En þótt opinberir fjárveitingamenn séu tregir á athvarfið sér hauk í horni sem er Bubbi Morthens en hann mun gangast fyrir tónleikum til styrktar athvarfinu. Kvennathvarfið fékk um 2 milljónir á fjárlögum rikisins til ráðstöfunar en gróflega áætlað vantar eina milljón upp á svo unnt reynist að starfrækja athvarfið fram að áramótum.“

 

Bubbi Morthens til bjargar 

Í Tímanum, miðvikudaginn 23. júlí 1986 birtist frétt undir fyrirsögninni „BUBBI TIL BJARGAR KVENNAATHVARFINU“. 

„Bubbi Morthens hefur ákveðið að halda styrktartónleika fyrir Kvennaathvarfið í skemmtistaðnum Roxzy á föstudagskvöld klukkan 22. Kvennaathvarfið stendur frammi fyrir gjaldþroti, fáist ekki auknar fjárveitingar til viðgerða og viðhalds á húsnæðinu. Nú hefur Bubbi hlaupið undir bagga með athvarfinu og vonir standa til að hann og aðrir tónlistarmenn geti bjargað Kvennaathvarfinu undan hamrinum.“

Rætt var við umboðsmann Bubba, Viðar Arnarson sem sagði: „Hugmyndin kviknaði þegar ég og Bubbi vorum að horfa á sjónvarpsfréttir á sunnudag og sáum frétt um vanda athvarfsins. Bubbi kveikti á þessu eins og skot og við ætlum að gera það besta úr þessu, með tilliti til þess hversu stuttan tíma við höfum til undirbúnings.“  

„Edda Scheving hjá Kvennaathvarfinu sagði í samtali við Tímann í gær að þær væru afskaplega þakklátar. „Þegar ég frétti af þessu í gær fór ég beint heim til mín og spilaði „Konu“ með Bubba Morthens, lokaði augunum og brosti. Ég trúi þessu bara varla ennþá,“ sagði Edda. Hún taldi að þetta væri sennilega besta auglýsing sem Kvennaathvarfið hefur fengið til þessa og hún sagðist vona að þetta „yrði til þess að opna á stjórnvöldum augun“.

Mynd/skjáskot frá tímarit.is/DV Bubbi og Viðar umborðsmaður hans fengu blóm eftir fyrstu Kvennaathvarfstónleikana

Í DV, 13. október 1986 var viðtal við Viðar Arnarson umboðmann Bubba aðspurður hvort hann hafi einhverja hugmynd um hversu miklu fé þeir geti safnað: Það er erfitt að segja til um það, en við vonumst eftir að geta safnað 600.000 kr. og þá er fjárhagsvandi athvarfsins úr sögunni. Í dag hafa þær fjármagn til daglegs rekstur en það vantar pening í viðgerðir og viðhald. Þessir peningar koma því til með að tryggja rekstur athvarfsins og verða ekki aðeins gálgafrestur.“ 

Hjá sama miðli 12 dögum síðar eða 25. október 1986 segir Viðar: „Í dag vantar tæplega fimm hundruð þúsund upp á að það takist. Það skiptir engu hvaðan peningarnir koma. Þeir sem komast ekki á tónleikana geta eins sent Kvennaathvarfinu peninga í gegnum gíró“

Draumur um hentugra húsnæði

Nú í nóvember 2022 stendur Kvennathvarfið fyrir söfnun vegna nýs húsnæðis og segir á heimasíðu þess:

„Okkur dreymir um að geta boðið öllum konunum okkar og börnum þeirra upp á heimili á einum stað þar sem hugað er að þeirra þörfum og hagsmunum. Því höfum við ákveðið að ráðast í byggingu nýs athvarfs sem er sérstaklega hannað með það í huga að sinna á einum stað þeirri fjölbreyttu þjónustu sem við veitum. Með nýju húsnæði getum við einnig stórbætt aðgengi okkar sem því miður er ekki gott í núverandi húsnæði.

Fengist hefur fjármagn frá ríkinu til að koma verkefninu af stað, en við þurfum á stuðningi allra landsmanna að halda til að nýtt athvarf geti orðið að veruleika. Í byrjun nóvember verður landssöfnun í byggingarsjóð fyrir nýju athvarfi á Stöð 2, en fram að þeim tíma verða fjölmargar aðgerðir í gangi til að afla fjár til byggingar á nýju athvarfi.

Söfnunin er tvíþætt, annars vegar verður óskað eftir styrkloforðum frá einstaklingum og fyrirtækjum og hins vegar verður haldið listmunauppboð, þar sem fólki gefst tækifæri á að gefa og kaupa listmuni, þar sem ágóðinn rennur óskiptur til söfnunarinnar.

Það er einlæg ósk okkar að landsmenn leggist á árarnar með okkur og aðstoði okkur við að reisa nýtt, vel búið Kvennaathvarf þar sem allar konur sem þurfa á okkur að halda og þeirra börn, verða boðnar hjartanlega velkomnar.“

Hér er hægt að kynna sér styrktarleiðir Kvennaathvarfsins

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -