Bubbi Morthens var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Okkar á milli á RÚV í gær.
Í þættinum viðurkennir Bubbi að hann hafi alist upp í samfélagi þar sem eitruð karlmennska réð ríkjum og konur höfðu enga rödd. Hann segir ekki vænlegt til árangurs að rífa niður þá sem spruttu úr þessu eitraða umhverfi heldur reyna í dag að horfast í augu við fortíðina.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt, hvort sem ég er fæddur um miðja síðustu öld eða ekki og hvort sem ég kem úr þjóðfélagi þar sem eitruð karlmennska réð ríkjum og konur höfðu litla sem enga rödd. Þá þýðir það ekki að við sem ólumst upp á þessum tíma getum ekki lært, getum ekki stigið inn, getum ekki tekið þátt í umræðunni og reynt að skoða okkur og segja: heyrðu ég þarf nú að vinda ofan af mér þarna og laga þetta. Ég veit ekki hvort það sé leiðin til árangurs að ráðast á karlmenn sem eru þó að reyna að gera eitthvað og drulla yfir þá.”