Alls gista þrír í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir gærkvöldið og nóttina en 89 mál voru bókuð í kerfum lögregunnar. Hér eru helstu atburðir næturinnar.
Töluverður erill var í miðbænum í nótt vegna slagsmála, hávaða og annarra mála sem tengjast skemmtanalífinu.
Maður í annarlegu ástandi réðist á starfsmenn og öryggisverði heilbrigðisstofnunar en lögreglan handtók hann og vistaði í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Lögreglan sem annast Austur og Vesturbæ Reykjavíkur, miðbæinn og Seltjarnarnes, stöðvaði ökumann í akstri þar sem hann var grunaður um að keyra undir áhrifum fíkniefna. Reyndist hann hafa mikið magn fíkniefna meðferðis í sölueiningum. Var hann hann handtekinn og vistaður í fangaklefa á meðan málið er rannsakað.
Tilkynning barst um mann sem hafði beitt piparúða utan við skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögreglu bar að var maðurinn farinn. Þá var lögeglan kölluð til vegna öldauða manns í miðbænum en honum var komið fyrir í fangaklefa þar til hann getur séð um sig sjálfur.
Fimm ökumenn voru stöðvaðir á ölvunarpósti í Hafnarfirði og Garðabæ, grunaðir um ölvunarakstur. Voru þeir allir lausir eftir hefðbundið ferli.
Lögreglan sem annast Kópavog og Breiðholt var kölluð til vegna þjófnaðar í verslun en þar höfðu tveir fingralangir aðilar verið að stela. Viðurkenndu báðir aðilar þjófnaðinn og var vettvangsskýrsla fyllt út.
Þá var lögreglan einnig kölluð til vegna máls í verslun þar sem aðili var gripinn við að stela en þegar starfsmaður hugðist ræða við hann tók hann upp sprautunál og ógnaði starfsmanninum. Fór maðurinn síðan út úr versluninni en málið er í rannsókn.
Er lögreglan í Kópavogi og Breiðholti var með ölvunarpóst gerði einn ökumaður tilraun til þess að komast hjá þessu eftirliti og ók á miklum hraða framhjá lögreglumönnunum sem stóðu að eftirlitinu. Þurftu lögreglumennirnir að stökkva frá bifreiðinni en ökufanturinn var stöðvaður stuttu síðar og handtekinn. Engum varð þó meint af í málinu.