Búið er að koma strandveiðibátnum Hadda HF til hafnar við Sandgerði en hann sökk í nótt norðvestur af Garðskaga.
Samkvæmt Aflafréttum er báturinn glænýr en hann var smíðaður árið 2023. Eins og fram hefur komið í fréttum barst neyðarkall klukkan 02:42 um að báturinn væri að sökkva. Strandveiðimaður sem var í grenndinni bjargaði skipstjóra Hadda HF um borð og sigldi með hann á Sandgerðahöfn þar sem sjúkrabíll beið hans.
Áhöfn björgunarbátsins Ásgríms S Halldórssonar náði að draga bátinn, sem maraði í hálfu kafi, til hafnar í Sandgerði um hálf átta leytið í morgun.
Fram kemur hjá Aflafréttum að nafnið á bátnum sé komið frá móður eigandans af bátnum sem hét Halldóra Þorvaldsdóttir frá Landakoti í Sandgerði en maður hennar var Árni Árnason en þau Hadda og Árni gerðu bátinn Hjördísi GK frá Sandgerði lengi vel út en sá bátur sökk 1990 en mannbjörg varð í sjóslysinu.
Eigandi og skipstjóri bátsins, Þorvaldur Árnason náði að koma sér í sjógalla áður en hann fór í sjóinn og var orðinn kaldur þegar honum var bjargað um borð í strandveiðibátinn sem kom fyrst á vettvang.
Samkvæmt upplýsingum Mannlífs hélt bjargvætturinn aftur á sjóinn eftir að hafa siglt með Þorvald í land.