Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Byrlunar- og símamál Páls slegið út af borðinu: „Embættið telur það hafa uppfyllt skyldur sínar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rannsókn á síma- og byrlunarmáli Páls Steingrímssonar er lokið en greint er frá því í ítarlegri tilkynningu frá Lögregluni á Norðurland eystra.

Málið sem rannsakað hefur verið síðan árið 2021 hefur verið fellt niður en alls fengu sjö réttarstöðu sakbornings í málinu. Auk eiginkonu Páls var um að ræða sex blaðamenn. Þeir eru: Þóru Arnórsdóttur þáverandi ritstjóra Kveiks, Þórður Snær Júlíusson þáverandi ritstjóri Kjarnans, Arnar Þór Ingólfsson þáverandi blaðamaður Kjarnans, Aðalsteinn Kjartansson þáverandi blaðamaður Stundarinnar, Ingi Freyr Vilhjálmsson þáverandi blaðamaður Heimildarinnar og Arnar Þórisson, yfirframleiðandi Kveiks á RÚV.

Forsaga málsins er sú að Páll Steingrímsson tilkynnti málið til lögreglu og taldi að síma sínum hafi verið stolið eftir að honum hafði verið byrlað ólyfjan og hann lá inn á spítala. Upp úr gögnum sem fengust úr síma Páls voru skrifaðar fréttir á Kjarnanum og Stundinni en miðlarnir tveir sameinuðust síðar. Fréttirnar snérust að mestu leyti um svokallaða skæruliðadeild Samherja en hún átti að koma höggi á blaðamenn, listamenn og fleiri.

Hægt er að lesa tilkynningu lögreglu hér fyrir neðan:

Embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hefur tekið ákvörðun um að hætta rannsókn í máli er varðar meinta byrlun, afritun á upplýsingum af síma einstaklings og dreifingu á kynferðislegu myndefni. Brotið var tilkynnt lögreglu þann 14.05.2021.

Við rannsóknina fengu sjö einstaklingar réttarstöðu sakbornings. Sakarefnið var þrennskonar og beindust allir þættir að einum sakborningi en einn þáttur að öðrum sakborningum. Hér að neðan er gerð grein fyrir sakarefninu.

1. Líkamsárás, byrlun, 217. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Einn aðili var undir rökstuddum grun um að hafa byrlað brotaþola lyf. Engin gögn í málinu gáfu lögreglu tilefni til að gruna aðra sakborninga um að hafa átt þátt í að byrla brotaþola.

2. Brot á 199. gr. a. almennra hegningarlaga. Í málinu liggur fyrir að sakborningur sem náði síma af brotaþola kveðst hafa afhent fjölmiðli símann þar sem síminn var afritaður. Sakborningur vissi þá að í símanum var kynferðisefni sem ólögmætt er að dreifa nema með samþykki. Sannað er að sakborningur sendi sjálfum sér kynferðislegt myndefni úr síma brotaþola. Ekkert liggur fyrir um að þeir aðilar sem meðhöndluðu símann og efni úr honum eftir að hann var afhentur fjölmiðlum hafi dreift þessu kynferðislega myndefni.

3. Brot gegn 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga. Að því er varðar þennan kærulið beindist rannsóknin aðallega að því að upplýsa um hver hefði afritað innihald símans sem fenginn var með þeim hætti sem áður hefur verið lýst. Framburður sakbornings sem afhenti fjölmiðlum símann hefur verið stöðugur allan tímann sem rannsóknin hefur staðið um að hann hafi afhent fjölmiðlum símann og þar hafi síminn verið afritaður. Sakborningurinn hefur einnig verið stöðugur í framburði um að hafa upplýst þá sem tóku við símanum hvernig síminn væri til kominn og hver ætti símann. Í júlí síðastliðnum upplýsti sakborningur um að hafa afhent fréttamanni RÚV símann í húsnæði RÚV í Reykjavík. Sá hafi kallað til annan starfsmann RÚV sem tók við símanum og fór með hann til þriðja aðila sem hann gat ekki upplýst um hver hefði verið. Þessir starfsmenn RÚV hefðu verið með símann í sólarhring og sakborningur hefði komið daginn eftir á RÚV og fengið símann afhentan aftur.

- Auglýsing -

Niðurstöður rannsóknarinnar eins langt og hún nær eru helstar eftirtaldar:

• Það liggur fyrir að einn sakborninga játaði að hafa sett lyf út í áfengi sem hann færði brotaþola og hann drakk. Nokkrum klukkustundum síðar veiktist brotaþoli alvarlega. Ekki hefur tekist að sanna orsakasamband á milli byrlunar á lyfjum og veikinda brotaþola með óyggjandi hætti. Lögreglustjóraembættið á Norðurlandi eystra telur háttsemina varða við 217. gr. almennra hegningarlaga. Að því gefnu að brotið eigi aðeins undir 217. gr. gæti brotið verið fyrnt sem dómstólar hafa þó endanlegt mat á. Ef hægt væri að sanna orsakatengsl milli byrlunar og veikinda brotaþola er ekki líklegt að ákæruvaldinu tækist að sanna ásetning sakbornings til að valda brotaþola þeim skaða sem hann varð fyrir. Þá er vísað til andlegs ástands sakbornings á verknaðarstundu og eftirfarandi veikindi hans. Af framangreindum ástæðum hefur verið ákveðið að hætta rannsókn á þessu sakarefni í málinu.

• Lögreglustjóraembættið á Norðurlandi eystra telur sakarefnið um að dreifa kynferðislegu myndefni af brotaþola sé líklegt til sakfellis á hendur einum sakborningi. Brotið felst í því að sakborningur sendi sjálfum sér kynferðislegt myndefni af eiginmanni sínum úr síma hans. Vegna veikinda sakbornings leikur vafi á um hvort hann hafi verið sakhæfur á verknaðarstundu. Sakborningur hefur hafnað beiðni um að undirgangast sakhæfismat og því hefur verið ákveðið að hætta rannsókn á þessum þætti málsins.

- Auglýsing -

• Sakarefni samkvæmt 228. og 229. gr. alm. hgl. lýtur að brotum á friðhelgi einkalífs meðal annars með því að hnýsast í, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi. Þar er afstaða Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að allir sakborningar í málinu gætu hafa sýnt af sér atferli sem getur flokkast undir brot á framangreindum ákvæðum. Sérstakar aðstæður sem varða einkahagsmuni eða almannahagsmuni geta gert framangreinda háttsemi refsilausa. Augljósar refsileysisástæður gætu almennt verið þær að aðili hafi verið að skipuleggja glæp eða játa á sig alvarlegan verknað í einkagögnum en endanlegt mat um slíkt liggur hjá dómstólum. Rannsóknin beindist hins vegar aðallega að því að reyna að upplýsa hverjir afrituðu símann, hvar og hvernig það var gert. Það liggur fyrir að birtar voru fréttir upp úr einkagögnum af símtækinu s.s. tölvupóstum, skjölum og spjallþráðum spjallforrita.

• Það er mat Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að ekki hafi tekist að sanna hver afritaði símann, hvernig og hver afhenti öðrum upplýsingar um einkamálefni brotaþola. Þeir sem birtu fréttir upp úr gögnum símans fengu réttarstöðu sakbornings auk þeirra sem sannað er að höfðu verið í samskiptum við þann sakborning sem afhenti símann til fjölmiðla. Sakborningar sem störfuðu hjá fjölmiðlum neituðu að tjá sig hjá lögreglu og afhentu lögreglu engin gögn. Það er réttur þeirra sem hafa fengið stöðu sakbornings. Lögregla óskaði ekki eftir því við sakborninga að þeir upplýstu um heimildarmenn sína enda lá það fyrir frá upphafi rannsóknar hver heimildarmaðurinn var í máli þessu.

• Það er miður hve langan tíma rannsóknin tók en gildar skýringar eru á því. Rannsóknin var engu að síður samfelld. Veikindi eins sakbornings höfðu mikil áhrif á gang rannsóknarinnar sem og ágreiningur við sakborninga sem töldu sig ekki bera sömu skyldu og aðrir til að gefa skýrslu hjá lögreglu vegna stöðu sinnar sem blaðamenn. Fjallað var um málið á þremur dómsstigum, auk þess sem gerðar voru vanhæfiskröfur á starfsmenn embættisins sem fjallað var um á tveimur dómsstigum og töfðu þessi málaferli rannsókn málsins mikið. Málið féll ekki undir forgangsmál í samræmi við almenn fyrirmæli ríkissaksóknara auk þess sem önnur atriði höfðu áhrif á rannsóknartímann. Ekki tókst að afla fullnægjandi stafrænna gagna þar sem þeim hafði verið eytt og réttarbeiðnir sem sendar voru erlendum tölvuþjónustu fyrirtækjum hafa enn ekki skilað árangri. Það liggur fyrir að ekki hefur tekist að sanna hver afritaði upplýsingar af síma í einkaeigu og með hvaða hætti þrátt fyrir að vísbendingar séu uppi um það. Af þessum sökum sem og vegna sjónarmiða um fyrningu hefur embættið ákveðið að hætta rannsókn í þessu máli gegn öllum sakborningum.

Embættinu er skylt samkvæmt sakamálalögum að taka til rannsóknar mál þar sem grunur er um refsiverða háttsemi óháð því hver það er sem tilkynnir brot eða er sakaður um brot. Embættið telur það hafa uppfyllt skyldur sínar. Aðilum máls hefur verið tilkynnt um málalok.

Embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra veitir ekki frekari upplýsingar um málið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -