Lægsta bensínverð á landinu fæst hjá Costco Kauptúni á 213,9 krónur á hvern lítra og hefur því hjá þeim um eina krónu frá því í síðasta mánuði. Verð Costco er þó 3,9 krónum ódýrara en lægsta verð Orkunnar sem auglýsir sitt bensín á 217,8 krónur á stöðvum sínum við Dalveg, Reykjavíkurveg, Mýrarveg og Bústaðarveg. Á þessum stöðvum fæst ekki afsláttur með kortum eða lyklum félagsins.
Þrátt fyrir þetta auglýsir Orkan lægsta verðið í öllum landshlutum, skilyrðislaust.
ÓB auglýsa sitt bensín 10 aurum dýrara en Orkan eða alls 217,9 krónur á hvern lítra á sínum ódýrustu stöðvum á Akureyri, í Arnarsmára, Bæjarlind, Fjarðarkaupum og Hamraborg. ÓB lykillinn veitir ekki afslátt á þessum stöðvum.
Ódýrasta lítraverð Atlantsolíu eru 219,3 krónur og hjá N1 er það 219,9 krónur.
Dælan auglýsir lægsta meðalverð landsins á eldsneyti af íslensku olíufélögunum, eða 229,65 krónur á bensínlítrann. Þeirra lægsta verð er 218,9 krónur en þeirra hæsta er 244,9. Costco er þó með lægsta meðalverð landsins þar sem þeir halda bara úti einni stöð.
Meðalverð á eldsneyti á landinu öllu eru 253,57 krónur og miðgildi þess eru 256,4 krónur. Af 247 bensínstöðvum landsins bjóða 229 af þeim bensín á 237,9 krónur eða dýrara.
Dýrast fæst eldsneyti á landinu hjá Olís í Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, Hrauneyjum og á Akranesi á 264,3 krónur.