Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tveggja ára fangelsi, þar af 21 mánuð skilorðsbundinn, fyrir ítrekuð ofbeldis og fíkniefnabrot á árunum 2021 og 2022. Mbl.is fjallaði um dóminn í dag en maðurinn var ákærður í 15 mismunandi liðum. Árið 2021 er honum gefið að sök að hafa ítrekað ógnað barnsmóður sinni og beitt hana ofbeldi.
Hann er sagður hafa rifið í hárið á henni, kýlt hana með krepptum hnefa, hent henni á gólfið og sprautað hana í handlegginn með ópíóðalyfinu oxýkódon og hótað að drepa hana. Síðar sama dag er hann sagður hafa ráðist aftur að henni og meðal annars reynt að ýta henni fram af svölum íbúðarinnar meðan hún hélt á syni þeirra. Maðurinn er einnig sakaður um að hafa brotið nokkrum sinnum gegn nálgunarbanni með því að fara inn á heimili konunnar. Auk þess var hann ákærður fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot.