Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Dagmar- lýsir hrottalegu ofbeldi: „Mér var byrlað í partýi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dagmar Rós Svövudóttir ræðir um kynferðisofbeldi sem hún var beitt við hlaðvarpstjórnandann Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum Eigin Konur. Í þættinum, sem er aðgengilegur á Patreon-síðu Eigin Kvenna, er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Í viðtalinu við Eddu lýsir Dagmar frá hrottalegu ofbeldi sem hún var beitt og afleiðingum ofbeldisins.

Varúð. Lýsingar á kynferðisofbeldi.

Í fyrra skiptið var henni byrlað og hún man ekki ennþá daginn í dag hvað gerðist og hversu margir gerendurnir voru. Í seinna skiptið var henni nauðgað af nánum fjölskylduvini, í brúðkaupi hans. Hún kærði manninn og í kjölfarið kærðu tvær aðrar konur hann einnig fyrir kynferðisbrot.

Konurnar voru stimplaðar sem „geðveikar“ og sagt að þetta væri vinkonuhópur sem væri að taka sig saman gegn manninum. Dagmar bendir á að hún þekkti aðra konuna ekkert fyrir og hina mjög lítið. Hún bendir einnig á að enginn gerir sér þetta til gamans að fara í gegnum kerfið. Þetta sé ógeðslega erfitt, niðurlægjandi og lýjandi.

„Mér var byrlað í partýi“

Dagmar var byrlað árið 2009, árið sem hún varð átján ára. „Ég gerði ekkert í því, ég sagði bara einni vinkonu minni og svo var þetta bara grafið,“ segir hún og bætir við að hún viti ekki enn í dag hvað hefði gerst.

- Auglýsing -

„Mér var byrlað í partýi þar sem ég ætlaði ekki einu sinni að drekka því ég átti að passa systkin mín daginn eftir. Gestgjafinn og annar strákur sögðu: „Hey fáðu þér einn drykk“, og ég hugsaði: „Æi, já hvað er einn drykkur að fara að gera.“ Ég held ég hafi tekið 2-3 sopa og svo man ég ekkert fyrr en daginn eftir. Þá vaknaði ég nakin, á gólfinu og man ekki neitt og veit ekki ennþá í dag hvað gerðist. Gæinn sem gaf mér drykkinn var frammi, hann bauð mér góðan daginn og spurði hvað planið væri þennan dag. Ég vissi ekkert hvar ég var, síminn minn var dauður, þannig ég fékk hann til að skutla mér heim. Ég man þegar ég var í bílnum, þetta var svo súrrealískt, að vera í bílnum með manninum sem gerði mér þetta. Ég fattaði það strax að hann byrlaði mér, en þarna strax var skömmin svo mikil,“ segir Dagmar og bætir við að maðurinn hefði þrifið fötin hennar og var búinn að hengja þau til þerris þegar hún vaknaði.

„Það klikkaða líka við þetta var að hann var búinn að þrífa fötin mín.“

Þetta er ekkert grín

Dagmar byrjaði að vinna í áfallinu í byrjun 2019. Í júlí sama ár verður hún aftur fyrir kynferðisofbeldi, í þetta skipti af hálfu manns sem var mjög náinn fjölskyldunni.

- Auglýsing -

„Fyrsta sem ég hugsaði [eftir ofbeldið] var ég ætla að þegja, það er auðveldast. Ég er vinkona konunnar hans, maðurinn minn og hann eru bestu vinir, dætur okkar eru bestu vinkonur. Öll þessi tengsl út um allt, ég hugsaði að það væri langbest að þegja,“ viðurkennir Dagmar.

En hún ákvað að segja frá. Fleiri konur stigu fram gegn sama manni í kjölfarið en áttu þær þá að hafa tekið sig saman og voru sagðar „geðveikar.“ Dagmar var í veikindaleyfi frá vinnu þegar þetta gerðist og nýtti maðurinn sér það til að segja hana klikkaða. Í heildina voru þær þrjár sem kærðu sama manninn fyrir kynferðisofbeldi. Tvær kærur hafa verið felldar niður.

„Það gerir sér þetta enginn til gamans, að kæra svona. Þetta er ekkert grín. Nú er komið tvö og hálft ár og ég var loksins að fá niðurstöðu núna. Þetta er bilun. Og að fá gögnin, ég held ég hafi aldrei verið jafn reið á ævi minni og þegar ég fór í gegnum þessi gögn. Þegar ég lagði fram kæru fannst mér hlutirnir gerast frekar hratt til að byrja með og lögfræðingnum mínum fannst það líka,“ segir hún.

„En þetta fer svo ekki fyrr en ári seinna til ákærusviðs. Þetta var bara ofan í skúffu.“

Fór til Íslands á neyðarmóttökuna

Nauðgunin átti sér stað í brúðkaupi mannsins úti á Ítalíu. „Ég hringdi í Landspítalann og spurði hvað væri best fyrir mig að gera. Við vorum í litlum smábæ á Ítalíu þar sem enginn talaði ensku, þannig ég vissi ekki hvort ég ætti að fara þarna á spítala eða hvað. Við vorum að fara heim tveimur dögum seinna. [Sú sem ég talaði við á Landspítalanum] sagði: „Nei komdu um leið og þú kemur heim. Svo málið sé hér en ekki úti á Ítalíu.“ Þannig ég gerði það. Við fórum heim tveimur dögum seinna, lentum um nóttina og ég fór strax á neyðarmóttökuna morguninn eftir,“ segir Dagmar.

„Það er eitthvað sem fólk leikur sér ekki að gera. Þetta er svo niðurlægjandi einhvern veginn. Spurningarnar, þú liggur þarna nakin, það er verið að skoða þig alla, teknar myndir af þér. Ert að segja söguna tvisvar, þrisvar.“

Hann spurði fullt af spurningum og var í áfalli sjálfur

Eftir atvikið tók maður Dagmarar eftir því að eitthvað væri að en hún vildi fyrst ekki segja honum það. „Ég vissi að allt færi til fjandans,“ segir hún. Hann hélt áfram að ganga á hana þar til hún sagði honum hvað hefði gerst.

„Hann spurði fullt af spurningum og var í áfalli sjálfur. En hann efaðist ekki um mig í eina sekúndu, sem ég er ótrúlega þakklát fyrir. Hann hefur alltaf verið eins og klettur í þessu máli,“ segir Dagmar og rifjar upp atvikið sjálft.

„Ég fór með honum upp í þetta hús því ég þurfti að fara á klósettið og hann var að fara að skipta um föt […] Ég fór á klósettið og kom fram og hann var bara á nærbuxunum, sem mér fannst ekki skrýtið. Þetta er besti vinur mannsins míns. Ég var ekkert að kippa mér upp við það, vorum bara að spjalla. Svo byrjaði hann eitthvað svona að kitla mig, og ég sagði honum að hætta og hló aðeins. En hann hætti ekki þó ég sagði honum að hætta, og mér var farið að finnast þetta óþægilegt því hann var farinn að grípa í staði og bara svona káfa á mér. Svo er eins og einhver grimmd kemur yfir hann. Ég sé það bara í augunum á honum og svo var mér bara kastað á rúmið og ég fraus bara. Hann er ekki stór maður en ég samt varð hrædd við hann.“

Sjokk fyrir hana líka

Dagmar lýsir viðbrögðum konu mannsins. Hún tók einnig eftir að það væri ekki allt með felldu og sendi Dagmar stöðugt skilaboð þetta kvöld.

„Ég sagðist bara vilja hitta hana og ræða þetta augliti til auglits. En hún hætti ekki […] Endaði með að ég sendi á hana […] „maðurinn þinn braut á mér.“ Og fyrsta sem hún sendi var: „Djöfull ertu rugluð, þú ert bara að ljúga.“ Auðvitað bjóst ég alveg við því en samt alveg: Já ókei bara þessi viðbrögð. Ég var bara klikkuð en samt vorum við góðar vinkonur fyrir þetta. Ég var með í því að skipuleggja gæsunina hennar fyrir brúðkaupið, við vorum alveg þar. En það er bara löngu búið.“

Dagmar segir þær ekki tala saman í dag.

„Ég álasa henni ekki fyrir það, þetta er náttúrulega sjokk fyrir hana líka. Ég var reið út í hana fyrst en hún er bara fórnarlamb í þessu öllu saman. Hvað veit ég hvað hann hefur gert henni til dæmis,“ segir hún. Þau eru ekki lengur saman í dag að sögn Dagmarar.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -