Dagur B. Eggertsson segir undirtóninn grafalvarlegan á fundi Nató í Brussel.
Atlantshafsbandalagið fundar nú stíft vegna þeirrar erfiðu stöðu sem Úkraína er komin í og Evrópa í heild jafnvel, í tengslum við árásarstríð Rússlands inn í landið og þá áherslubreytingu sem orðið hefur hjá Bandaríkjunum eftir að Donald Trump tók yfir stjórn landsins.
Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar leiðir Íslandsdeild þingmannasamtaka Nató og er nú staddur í Brussel ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Sigmari Gunnarssyni. Af því tilefni skrifaði borgarstjórinn fyrrverandi færslu og birti ljósmynd af þrieykinu en hann segir undirtóninn á fundinum mjög alvarlegan.
Hér má lesa færsluna:
„Við brosum og berum höfuðið hátt. Því fylgir stolt að vera fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi. Undirtónninn er þó grafalvarlegur. Ótrúlegur tími til að taka sæti í þingmannasamtökum Nató og leiða Íslandsdeildina þar, með þessum framúrskarandi þingmönnum, Þórdísi Kolbrúnu og Sigmari. Gríðarlega margt að setja sig inn í og síðustu dagar og yfirlýsingar á ýmsum vettvangi skilja sannarlega eftir margt til vandlegrar umhugsunar fyrir Ísland, fyrir Evrópu, að ógleymdri Úkraínu og öðrum nánustu nágrönnum Rússa. Meira um það síðar.“