Kosningar eru á næsta leyti en það má glögglega sjá á staksteinum Morgunblaðsins í dag. en þar er Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri tekinn í bakaríið.
„Ekkert var og er að marka Dag B. um allar þjóðarhallirnar sem hann lofar fyrir hverjar kosningar. Hann er þó sjálfum sér samkvæmur því ómarktækari maður hefur aldrei áður gegnt embætti borgarstjóra. Um það eru óteljandi dæmi. Hin má telja á fingrum annarrar handar. Öll loforðin eru margsvikin. Tímamörkin nú, 2025, standast ekki og það vita undirskrifendur.“
Staksteinahöfundur, sem sumir vilja meina að sé Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi borgarstjóri, vísar þarna í viljayfirlýsingu um nýja íþróttahöll í Laugardalnum sem undirrituð var á dögunum.
„Nú síðast mætti Ásmundur E. Daðason með formanni VG til að skrifa undir enn eina marklausa yfirlýsingu Dags. Hlægilegastur alls er þó eldspýtustokkurinn undir Miklubraut sem Dagur hóf að lofa fyrir hálfum öðrum áratug!“
Í staksteinum er vitnað í bloggskrif Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að rifrildið verði svo um að hver hafi hindrað að þjóðarhöllin rísi ekki. „Ráðherrarnir taki þátt í leikaraskapnum með borgarstjóra á flokkspólitískum forsendum.“
Í bloggskrifum sínum segir Björn að verði Dagur áfram borgarstjóri sé fyrirsjáanlegt að áfram verði spólað í sama farinu frá 2006. Undir hans stjórn sé sköpunar- og framkvæmdaþróttur úr sögunni.