Knattspyrnuþjálfarinn Davíð Snorri Jónsson er nýr aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu en greint er frá því á heimasíðu KSÍ í morgun. Davíð var þjálfari u21 landsliðs karla en hættir því í starfi. Hann tekur við starfinu af Jóhannesi Karli Guðjónssyni sem hætti fyrir stuttu til að taka við liði AB í Danmörku.
Hægt er að lesa tilkynningu KSÍ hér fyrir neðan:
„KSÍ hefur gengið frá ráðningu Davíðs Snorra Jónassonar í stöðu aðstoðarþjálfara A landsliðs karla og verður hans fyrsta verkefni með liðinu komandi vináttuleikir gegn Englandi 7. júní og Hollandi 10. júní.
Davíð Snorri, sem er fæddur árið 1987 og hefur lokið KSÍ Pro gráðu, þjálfaði Leikni R. ásamt Frey Alexanderssyni árin 2013-2015 og komu þeir liðinu í efstu deild karla í fyrsta sinn í sögu þess árið 2015. Davíð þjálfaði U17 landslið karla árin 2018 til 2020 og fór m.a. með liðið alla leið í lokakeppni EM 2019, áður en hann tók við stjórnartaumunum hjá U21 landsliði karla í byrjun árs 2021 og hans fyrsta verkefni með liðinu var úrslitakeppni EM í Ungverjalandi það ár. Hann hefur þjálfað U21 liðið síðan þá við góðan orðstír og fór m.a. með liðið í umspil um sæti í lokakeppni EM 2023, en færir sig nú um set yfir til A landsliðsins.
KSÍ býður Davíð Snorra velkominn í nýtt hlutverk.
Leit að nýjum þjálfara U21 landsliðs karla er hafin. Næstu leikir liðsins eru í september, þegar undankeppni EM 2025 heldur áfram.“