Dagur B. Eggertsson mun ekki vera 2. Þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík norður en Dagur var strikaður út nógu oft til þess að færast niður listann. „Heildarútstrikanir á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður voru 1.699, það er heildarfjöldi breyttra seðla, sem eru 17,6 prósent af atkvæðatölu listans. Af þeim eru 1.453 seðlar þannig að það eru gerðar breytingar á stöðu Dags, annað hvort hann strikaður út eða hreyfður til um sæti, sem eru fimmtán prósent af atkvæðatölu listans,“ sagði Heimir Örn Herbertsson, oddviti yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, við Vísi um málið en Dagur hefur verið einn af vinsælustu stjórnmálamönnum Íslands á öldinni í sögulegu samhengi samkvæmt mælingum. Nú virðist tíðin önnur en borgarstjórinn fyrrverandi var strikaður út eða færður niður listann alls 1.453 sinnum. Heimir greinir einnig frá því að nokkrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi strikað Dag út en slíkt ógildir kjörseðilinn en atkvæði myndu sennilega ekki haft teljandi áhrif á niðurstöðu kosninganna. Dagur hafði í gríni hvatt Sjálfstæðismenn til þess að strika yfir sig og sárnaði mörgum hægri mönnum grínið. Ekki neinn annar frambjóðandi var að sögn Heimis nærri því að færast niður lista. Mun þá Þórður Snær Júlíusson færast upp um eitt sæti hjá Samfylkingunni en hann hefur gefið það út að hann muni ekki taka sæti á Alþingi. Dagur heldur því tæknilega séð öðru sætinu.