Það er hiti í Hafnarfirði; nánast við suðumark. Og hér er um að ræða klofning í meirihluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Óháðra.
Það er stutt í sveitastjórnarkosningar, en þær fara fram þann 14. maí næstkomandi.
Í Hafnarfirði hefur átt sér stað viðsnúningur; sigur Guðmundar Árna Stefánssonar í prófkjörinu hefur nánast endurnýjað Samfylkinguna í Hafnarfirði. Og kannanir sem flokkarnir í Hafnarfirði hafa sjálfir látið gera sýna fram á mikla fylgisaukningu Samfylkingarinnar og mikið fylgishrun hjá Sjálfstæðisflokknum. Framsóknarflokkurinn gæti hangið inni með sinn eina mann.
Því er komin ansi hressileg taugaspenna í röðum Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna í Hafnarfirði; og það virðist sjást vel þegar skoðað er mál sem snýst um akstursþjónustu Hópbíla og það tekjufall sem fyrirtækið telur sig hafa orðið fyrir vegna Covid 19. Þar eru Sjálfstæðismenn ekki hrifnir af því sem Ágúst Bjarni Garðarsson (líka alþingismaður sem þáði eða þiggur jafnvel enn tvöföld laun, frá bæði ríki og bæ þrátt fyrir loforð um annað) lagði fram um málið – en í fundargerð um það má lesa eftirfarandi:
2011573 – Samningar um sérhæfða akstursþjónstu og skóla- og frístundaakstur, tekjufall Samningar um sérhæfða akstursþjónustu, tekjufall. Fulltrúi Framsóknar og óháðra bókar eftirfarandi. Fulltrúi Framsóknar og óháðra tekur jákvætt í erindi Hópbíla um tekjufallsstyrk. Á þessum Covid tímum hafa Hópbílar haldið úti góðri og samfelldri þjónustu. Hópbílar hafa, eins og svo mörg önnur fyrirtæki, orðið fyrir tekjufalli vegna faraldursins. Mikilvægt er að bregðast við, eins og víða hefur verið gert, til að tryggja áframhaldandi þjónustu fyrir þennan viðkvæma hóp.
Fulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn er Ágúst Bjarni Garðarsson, sem einnig er þingmaður fyrir sama flokk, og hefur þegið tvöföld laun – frá Hafnarfjarðarbæ fyrir setu í bæjarstjórn og fjölda nefnda sem og frá Alþingi, eins og sjá má hér.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru ekki sáttir
Helga Ingólfsdóttir er einn af fimm bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, og hún er ekki sátt við afgreiðslu málsins. Segir meðal annars:
„Ekki hafa fengist skýringar frá formanni bæjarráðs á forsendum sem liggja að baki mismunandi prósentum vegna viðbótargreiðslna né nákvæmar fjárhæðir á þeim greiðslum sem hafa verið samþykktar sem eru um 140 miljónir vegna ársins 2020, 2021 og 2022. Ekki liggja fyrir viðaukar fyrir hluta af þessum greiðslum. Afgreiðslur í bæjarráði varðandi tekjufallstyrki til verksala hafa verið án aðkomu eða samráðs við Fjölskylduráð sem fer með forræði á samningi um Sérhæfða akstursþjónustu í Hafnarfirði í umboði bæjarstjórnar.“
Samingurinn sem um ræðir var gerður í mikilli samvinnu við Ráðgjafarráð fatlaðs fólks í Hafnarfirði sem áttu tvo fulltrúa í starfshópi Fjölskylduráðs sem undirbjó útboð vegna samningsins og sem yfirfór þjónustuþörf og skoðaði leiðir að því markmiði að gera akstursþjónustuna skilvirkari og hagkvæmari en verið hafði í samvinnuverkefni um þjónustuna frá árinu 2015 undir yfirumsjón Strætó BS. Með starfshópnum starfaði Innkaupastjóri Hafnarfjarðarbæjar og verkfræðingur. Með því að skilgreina þarfir og skipulag þjónustunnar náðist fram mikilvæg hagræðing í núverandi samingi án þess að slakað væri á kröfum um gæði og það ásamt því að heimastöð verksala er í Hafnarfirði er meginástæða þess að hagstæður samingur var gerður milli aðila en jafnframt sú mikla reynsla sem verksali býr yfir. Viðbótargreiðslur vegna viðmiðunarfjölda ferða eiga ekki við miðað við samningsforsendur.
Fulltrúi Samfylkingarinnar, Árni Rúnar Þorvaldsson bókaði:
„Undirritaður tekur jákvætt í erindið enda mikilvægt að tryggja áframhaldandi rekstur þessarar mikilvægu þjónustu. Fulltrúi Samfylkingarinnar harmar hins vegar þau vinnubrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að halda fjölskylduráði frá umræðu um málið þar til nú og taka ákvarðanir án samráðs við fjölskylduráð í máli sem heyrir undir ráðið. Meirihlutinn ber því alla ábyrgð þeim vandræðagangi sem nú er kominn upp vegna málsins. Fulltrúi Viðreisnar tekur undir bókun frá fulltrúa Samfylkingarinnar.“
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Kristjana Ósk Jónsdóttir bókar:
„Ég harma að málið hafi ekki fengið efnislega meðferð í Fjölskylduráði fyrr. Og tek ekki afstöðu.“