Flytja þurfti tíu manns af gossvæðinu í nótt sem gátu ekki komist af sjálfsdáðum burt af svæðinu. Auk þess þurfti að aðstoða tíu til viðbótar vegna meiðsla og þótti nóttin tiltölulega róleg.
„En kannski það helsta sem var til tíðinda í nótt var að það kom einhver hópur manna á torfærutækjum inn á svæðið, að norðan virðist vera. Og voru bara með dólg, sinntu ekki tilmælum björgunarsveitafólks um að vera ekki að stunda utanvegaakstur, sem þeir voru að gera. Þegar lögregla kom upp eftir voru þeir horfnir af braut,“ sagði Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi slysavarnarfélagsins Landsbjargar, í samtali við RÚV í morgun.
Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá birti svo áhugaverðan póst á Facebook í morgun þar sem sagt er frá því að hraunið hafi fyllt dalverpið austan við Kistufell.