Félag íslenskra heimilislækna sendi nýverið á félagsmenn sína ályktun og tilmæli um að læknar skrifi ekki undir svokölluð „fit-to-fly“ vottorð þegar hælisleitendum er vísað úr landi. Félagið telur að slíkt brjóti á mannréttindasáttmálanum og siðareglum lækna. Þessi ályktun og tilmæli voru einnig send á yfirvöld.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra veltir fyrir sér í viðtali við RÚV hvort að læknar séu litaðir af pólitískum skoðunum og taki því þessa afstöðu.
„Þessi læknisvottorð, sem eru líka háð alþjóðlegum skuldbindingum sem við höfum undirgengist og öll önnur Norðurlönd og Evrópuríki krefjast sömuleiðis, þetta er fyrst og fremst til þess að vernda einstaklinginn þannig að heilsu hans sé ekki ógnað á því ferðalagi sem fram undan er,“ sagði Guðrún um málið.
Hún sagði einnig að það kæmi ekki greina að breyta reglugerðinni sem notast hefur við hingað til og tekur fram að þetta sé hluti af Schengen-samstarfinu og það sé ekki neinn munur á þessum læknisvottorðum og almennum læknisvottorðum.