Í tilkynningu frá stjórnarráðinu sem birtist á vef þess í byrjun desember var greint frá því að skipa og setja ætti tvo einstaklinga í embætti héraðsdómara. Einn við Héraðsdóm Reykjaness og yrði sá skipaður og einn við Héraðsdóm Reykjavíkur en sá yrði settur.
Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sótti um að vera settur dómari við Héraðdóm Reykjavíkur. Jónas Þór Guðmundsson sóttist einnig eftir að vera settur dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur meðan Arndís Anna Kristínardóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, og Sindri Stephensen sóttu um bæði embættin.
Háværar sögur hafa verið á kreiki um að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar myndi reyna setja Brynjar í embættið áður en ný ríkisstjórn tæki við. Til þess að geta það þarf dómnefnd um hæfnismat að hafa skilað dómsmálaráðherra umsögn um málið en í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Mannlífs um málið hefur nefndin ekki skilað inn umsögn sinni.
Því verður það líklega valkyrjustjórnin sem mun skipa og setja í embættin.