Dómsmálaráðuneytið svaraði kæru blaðamanns Mannlífs vegna synjunar ráðuneytisins á gögnum og upplýsingum er vörðuðu fund embættismanna ríkisstjórnar Namibíu og Brynjars Níelssonar, aðstoðarmanns Dómsmálaráðherra í sumar. Brynjari sagði á Facebook að embættismennirnir hafi viljað ræða Samherjamálið en fékkst ekki til að segja meira.
Fimm spurningar, þrjú svör
Mannlíf sendi upprunalega fimm spurningar og bað um að fá að sjá minnisblað frá leynifundinum. Spurningarnar voru eftirfarandi:
1. Hver var tilgangur fundarins?
2. Bar mál gegn Samherja á góma á fundinum?
3. Hverjir voru nákvæmlega viðstaddir fundinn?
4. Hvernig stóð á að fundurinn var haldin? Hver bað um fundinn?
5. Hversu lengi stóð hann yfir?
Svarið sem loksins barst 13 dögum eftir beiðni um svör, var eftirfarandi:
Dómsmálaráðuneytinu barst ósk í gegnum forsætisráðuneytið með litlum fyrirvara, frá embættismönnum frá Namibíu, um að hitta dómsmálaráðherra. Ráðherra var ekki viðlátinn þennan dag og því mættu tveir skrifstofustjórar ráðuneytisins og einn staðgengill skrifstofustjóra, ásamt aðstoðarmanni ráðherra á fundinn. Fundurinn stóð yfir í rúma klukkustund.
Hvað varðar innihald fundarins og minnisblöð af honum er vísað í 10 gr. laga um upplýsingamál nr. 140/2012
10. gr. Takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna.
Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um: […] 2. samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir.
Svar við kærunni
Lítur Dómsmálaráðuneytið svo á að það hafi svarað spurningum 3, 4 og 5. Í svarinu segir ráðuneytið að málatilbúnaður kæranda sé ekki umfangsmikill en telji þó „skýrt af honum að kærandi telji það kjarna þessa máls hvort áskilnaði 10. gr. upplýsingalaga nr. 40/2021 um mikilvæga almannahagsmuni sé fullnægt.“ Segist ráðuneytið sammála þessu en „vísar jafnframt til trúnaðargagna sem umsögn þessari fylgja og umfjöllunar um þau.“
Ennfremur segir í svari dómsmálaráðuneytisins að í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga er í skýringum með ákvæði 10. gr. sé að finna eftirfarandi texta: Með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ er vísað til þess að beiðni um upplýsingar verður ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Þessir hagsmunir eru tæmandi taldir, en hver töluliður sætir sjálfstæðri skýringu með tilliti til eðlis þeirra upplýsinga sem um ræðir.
Segist ráðuneytið hafa haft samráð við Utanríkisráðuneytið vegna málsins og aflað þaðan upplýsinga um hvernig almennt sé háttað upplýsingagjöf um fundi með sendimönnum erlendra ríkja. Samkvæmt Dómsmálaráðuneytinu leggst Utanríkisráðuneytið „afdráttarlaust gegn því að upplýst sé um efni funda með sendimönnum erlendra ríkja.“
Í niðurlagi svarsins færir ráðuneytið rök fyrir ákvörðun sinni að svara ekki öllum spurningum Mannlífs:
„Synjuninni til rökstuðnings vísast til ákvæðis 2. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga. Af ákvæðinu leiðir að heimilt er að takmarka upplýsingarétt almennings þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi gögn að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Gögnin sem um ræðir í þessu máli varða samskipti stjórnvalda við erlent ríki og umfjöllunarefnið er í eðli sínu viðkvæmt, ekki síst frá sjónarhóli hins erlenda stjórnvalds. Geti erlendir sendimenn ekki treyst því að trúnaður um samskiptin sé undantekningarlaust virtur, stefnir það nauðsynlegu trúnaðartrausti í hættu. Þar með gætu stjórnvöld ekki átt í árangursríkum samskiptum við erlend ríki til að sinna lögmæltum hlutverkum sínum í þágu í íslenska ríkisins með þeim afleiðingum að brýnir almannahagsmunir yrðu fyrir borð bornir.“