Föstudagur 15. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Dóri í Fjallakofanum er óttalaus: „Þegar ég stend upp stendur bara blóðspýjan beint út um buxurnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Halldór Hreinsson, eða Dóri í Fjallakofanum eins og hann er oft kallaður, er nýjasti gestur Reynis Traustasonar í hlaðvarpsþættinum Mannlífið.

Flestir útivistarmenn þekkja Halldór, enda hefur hann reynst mörgum vel í þeim geira. Hann er sjálfur útivistarmaður og hefur oftar en einu sinni komist í hann krappan í ævintýrum sínum. Hann lenti til að mynda í alvarlegu hjólreiðaslysi og hefur slasast á skíðum. Halldór fer yfir víðan völl og ræðir um Fjallakofann, kaupmennsku frá blautu barnsbeini, óvænta Dani á tröppunum hjá honum, þegar miðill lagaði öxlina á honum og þegar hann bjó í Noregi og þeytti skífum á diskóteki. Þá lenti hann reyndar illa í verkalýðsfélagi plötusnúða.

Verslunarrekstur er í blóðinu á Halldóri, ef svo má að orði komast. Hann var lítill strákur þegar foreldrar hans tóku við rekstri á Melabúðinni, sem enn er vinsæl kjörbúð með gott orðspor. Reyndar er Melabúðin af mörgum talin eitt af stórum kennileitum Vesturbæjarins. 

Hún er vel rekin í dag eins og var þá. Ég náttúrlega var kannski ekki dreginn í barnaþrældóm, en það bara fylgdi barnauppeldi þá, að á tíunda, ellefta ári, varstu farinn að hjálpa til.“

Halldór segir að verslunarmennska og aðstoð við viðskiptavini hafi snemma átt vel við hann. Hann segist telja að um sé að ræða eiginleika sem sennilega sé í genunum – í blóðinu. 

Að hafa gaman af fólki, að hafa gaman af að gleðja; þarna, í svona kjörbúð, liggur við að þú sért að fara með þeim inn í jólahátíðina, þegar þú ert að velja með þeim hamborgarhrygginn eða rjúpurnar, og meðlæti og annað. Þú færð svo mikla fyllingu og gleði í hjartað þegar það kemur svo til baka eftir helgi eða eftir hátíð og segir: „Þetta var svo ljúft og gott. Þúsund þakkir.“ Það eru verðlaunin; það eru auðæfin sem maður safnar að sér.“ 

- Auglýsing -
Mynd úr einkasafni.

Gengur í gegnum eld og brennistein fyrir viðskiptavini sína

Þegar Halldór er spurður hvað hann geri þegar viðskiptavinur sé ekki ánægður, segist hann reyna að klífa fjöll og ganga í gegnum eld og brennistein, þar til hann nái að koma til móts við óskir viðskiptavinarins. 

Ég ætla að halda í þá von, að það sé teljandi á fingrum annarrar handar eftir 50 ár í verslun, að það séu einhverjir sem ég bara náði ekki, ég bara gat ekki, alveg sama hvað ég reyndi. Kannski eru viðkomandi samt í dag ekkert óánægðir þótt þeir hafi verið það þarna á sínum tíma.“

Þeir vita að ég er með „fetish“ og söfnunaráráttu fyrir vel hirtum, vel gengnum gönguskóm

Halldór segist stundum fá til sín gamla skó í Fjallakofann, þar sem eigandinn óski eftir nýjum sólum. Þetta sé sannarlega hægt þegar um sé að ræða vandaða gönguskó. 

- Auglýsing -

Ég er að fá inn til mín 35 ára gamla skó. Bara vegna þess að þeir vita að ég er með „fetish“ og söfnunaráráttu fyrir vel hirtum, vel gengnum gönguskóm. Með sögu og sál.“

Það gæti þurft að fara að telja þetta fram til skatts

Halldór á þann draum að stofna skíðasafn, þar sem meðal annars verði kynstrin öll af skóm. 

Ég hef rætt þetta við ýmsa aðila, en ég hef ekki haft tök á að taka þetta nógu langt. Ágætur vinur minn á Dalvík, Jón Halldór, er með alveg gríðarlega verðmætt skíðasafn, bara heima hjá sér. Þú bara gengur inn í það þegar hann opnar dyrnar að sínu heimili, vegna þess að hann hefur ekki fengið hljómgrunn og stuðning hjá því samfélagi að komast með þetta inn á einhvern stað þar sem hægt væri að stilla þessu upp. Þarna eru skíði – fyrsti forstjóri ÁTVR; skíðin hans eru þarna. Möller-skíði og bara, „you name it“. Fyrir skíðaáhugafólk, þá er heimsókn til Jóns Halldórs, þótt hann sé ekki að taka á móti fólki þarna í „lange baner“, þá er þetta að sýna að þetta verður að veruleika. Það er bara spurning hvort hann lifi það, eða ég lifi það. En einhverjir munu koma á svona fjallasafni, sem getur verið fyrir skíði, skástrik, fjallabúnaður. Það er engin smá breyting sem hefur orðið á þessum áratugum frá síðustu öld.“

Aðspurður hvort hann sé kominn með mikið safn af svona munum, hlær Halldór áður en hann svarar. 

Á ég ekki bara að svara eins og Skagfirðingar með hestana sína; það er eitthvað til. En ég er ekki að telja þetta svona, það gæti þurft að fara að telja þetta fram til skatts, sko.“

 

Danirnir á tröppunum

Halldór er þekktur fyrir greiðvikni meðal vina og kunningja. Hann er beðinn um að fara dálítið ofan í saumana á sögu um hann, sem blaðamaður hefur heyrt. Sagan snýst, að sögn blaðamanns, um Dani sem birtust á tröppum Halldórs og sögðust eiga að fá að vera heima hjá honum.

Ég er ekki mikið fyrir að segja sögur af sjálfum mér. Ég læt bara verkin tala. Þarna var ég að ferðast með erlenda ferðamenn, fjölskyldu, sem var þarna í útreiðartúr á einum heitasta degi júlímánaðar. Ég stalst inn í vínbúðina á Hvolsvelli til þess að kaupa mér eina kippu af Tuborg Gull, af því að ég átti þarna fjóra tíma aflögu á meðan þau voru á sínu hestaferðalagi.

Ég má aldrei einhvern ferðamann sjá öðruvísi en að athuga hvort allt sé í lagi, hvort hann sé eitthvað aumur. Ég sé tilsýndar þarna á þjóðveginum, að þar er par, rykugt og illa farið af sól, svo ég stoppa og bara spyr; „hvor skal du hen?“ – reyni að beita minni dönsku. Þau koma bara inn í bílinn og ætluðu að fara síðasta sólarhringinn á Vík, áður en þau færu heim. Ætluðu að komast í Reynisfjöru og svona. Þau gera það, nema að ég gef þeim náttúrlega bara af mínum bjór. Ég spyr: „Er du torstig?“, og gaf þeim hvoru sinn bjórinn, og þau voru svo ánægð.

Nema hvað, þarna var ég með þessa ferðamannafjölskyldu inni á Hótel Skógum og ég sé að strákpjakkurinn er með gítar. Ég spyr hann hvort hann sé að spila á þetta og hann segist vera búinn að læra í San Francisco. Ég segi þá að ég sé þarna inni á hótelinu og að það væri gaman ef hann kæmi kannski inn í kvöldmatinn og tæki nokkur lög. Ég náttúrlega átti ekki hótelið, en ég byrjaði á því að spyrja hótelstýruna: „Ef hann kemur, má hann þá spila?“ Nema hvað, hótelið var smekkfullt af Ameríkönum, þau koma þarna inn, hann sest í annað hornið á móti kærustunni sinni og hann byrjar. 

Ég gleymi að segja þér frá því, að þarna áttu þau fimm evrur eftir í ferðasjóð og áttu 36 eða 40 klukkustundir eftir.

Það var gríðarlegt áfall fyrir snarólétta konu mína, þegar þau stóðu á tröppunum.

Hann byrjar að spila og þetta er svo fallegt, þetta er Mads Mouritz, sem átti nú reyndar íslenska kærustu eftir þetta, en ég ætla nú ekki að fara út í það. Þetta fannst mér vera næsti Kim Larsen Danmerkur, og það getur vel verið að hann sé á leiðinni þangað. En hann spilar þarna fjögur lög og það er staðið upp, það er klappað og hann þarf að taka aukalag og gerir það. Svo fara þau út og ég kem á eftir þeim, og hann segir: „Þarna komumst við í himnaríki og við erum hérna með 400 dollara eftir þetta, í tips.“ Þá segi ég að ef hann verði búinn að eyða þessu geti hann bara droppað við heima og gist á leiðinni út á völl. Ég var svo hughrifinn af þessum performans – ég á náttúrlega þessi lög, þessa diska og allt saman.

Það var gríðarlegt áfall fyrir snarólétta konu mína, þegar þau stóðu á tröppunum. Ég bað hana bara um að leyfa þeim að spila tvö lög inni í stofu. Ég kalla á nágrannana og er með svona smá stofukonsert og eftir það voru ekki neinar áhyggjur; þau fengu bara að gista.“

Mynd úr einkasafni.

Harmleikur á Esjunni

Halldór hefur verið björgunarsveitarmaður í áratugi. Í því hafa verið skin og skúrir; stundum hefur hann þurft að takast á við mikla sorg. Eitt sinn var hann kallaður út upp í Esju þar sem hann kom að hræðilegum vettvangi.

Horfandi á síðustu daga, hvað það er mikilvægt að eiga og hafa svona apparat sem björgunar- og hjálparsveitir skáta eru. Ég var og er enn virkur meðlimur í Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Það að hafa svona apparat hér, á þessu landi, er svo mikilvægt og það er svo mikil fórnfýsi hjá þessu fólki, þótt það sé lítið um það, að ég komi að þá er maður ennþá að einhverju leyti í einhverju baklandi.

Það er svo mikil fórnfýsi hjá þessu fólki.

Þarna voru þannig aðstæður að við vorum ennþá í nýliðaþjálfun og við erum kölluð út. Í nýliðaþjálfun ertu kallaður út í alls konar, til þess að athuga hvort þú hafir til brunns að bera það sem þarf. Við erum kölluð í snjóflóðaleit upp í Esju og þú heldur að þetta sé bara ein kvöldæfing af mörgum. Svo þegar þú áttar þig á því, að það er verið að leita að félaga þínum, þá náttúrlega tekur það gríðarlega á og mikil sorg í kringum það, en þarna stuttu seinna er ég kominn til þess að stýra Skátabúðinni og þá var, og er reyndar enn, þannig starfsmannahald að 80 til 90 prósent starfsmanna voru félagar í hjálparsveit og björgunarsveit, og í kringum snjóflóðin fyrir vestan, á Flateyri og Súðavík, þá sendi maður þá alla, alla félagana, til leitar.

Ég stóð einn eftir til þess að aðstoða með aukabúnað, það þurfti að ná í fleiri skóflur, eða snjóflóðastangir, eða húfur eða vettlinga eða „what ever“. Þannig að þetta er virkilega mikils virði, þetta fólk sem gefur sig í svona starf. Það fær mikla lífsreynslu og svona öðruvísi lífssýn.“

Í snjóflóðinu í Esjunni fórust tveir. „Einn sem komst undan og gat látið vita.“

 

Hjólreiðaslys á Grensásvegi

Halldór lenti eitt sinn í alvarlegu hjólreiðaslysi þegar leið hans lá um Grensásveginn í Reykjavík.

Ef maður færi að hátta sig hérna í stúdíóinu hjá þér, þá eru ör og mein hér og þar, allt tengt þessu rugli í manni; hjólreiðaslys, mest skíðaslys. En ég segi það náttúrlega öllum sem heyra vilja, að ég dett ekki. Ég dett ekki á skíðum og ég dett ekki á hjóli, en svo þegar maður er kominn á skýluna fær maður spurningarnar: „En þetta? En þetta?“. 

Þarna á Grensásveginum er ég bara á fullu adrenalínblasti.

Nýbúinn að upplifa enn eina fæðingu, fá eina æðislega dóttur í fjölskylduna; Fanndísi, og mér halda engin bönd. Þannig að ég hjóla bara eins og ég væri á bíl. Ég er örugglega að hjóla á 50 kílómetra hraða og ég veit að þegar þú ert að taka Grensásveginn í suðurátt, þá eru þeir á bensíngjöfinni, þessir sem eru á Miklubrautinni á leiðinni austur úr. Ég sé að það er að detta í gult og ég læt mig vaða yfir. Það verður rautt svona þegar ég er að fara framhjá bílunum, svo ég hendi mér á hjólinu inn á svona millieyju og bjarga mér þar.“ 

Þar lenti Halldór í vandræðum og varð að bremsa af fullum krafti. „Ég bara lendi á kantsteini sem ég gat ekki hoppað upp á. Þeir voru hér áður fyrr, allavega í Vesturbænum, svona ávalir, þannig að þú gast hoppað upp á þá, en þarna var hann bara þver, svo ég flýg í loft upp. Ég segi nú að þarna hafi tvær hellur brotnað; fyrst böggla ég hausnum niður, hjálmurinn helst á, sem betur fer, en brotnar. Ég fer með öxlina í aðra hellu og brýt hana, og þá fer öxlin í kássu og svo enda ég á bakinu. Þar var ég með svona góða mittistösku með vatni og peysu, sem tók svolítið bakhöggið. Svo kemur einhver annar á hjóli og spyr: „Get ég hjálpað þér? Ertu eitthvað slasaður?“ og ég var svo ruglaður og vitlaus að ég sagði: „Nei, nei, allt í lagi“ og dröslaði helvítis hjólinu bara þarna suður úr, yfir hálsinn, beint niður á bráðamóttöku. 

Ég fer með öxlina í aðra hellu og brýt hana, og þá fer öxlin í kássu.

Í stuttu útfærslunni, þá segja læknar og hjúkkur – æðisleg öll sem vinna þar – að þetta líti ekki vel út og ég muni eiga mein og hreyfigetan muni takmarkast mjög. Þau setja mig í fatla og ég get mig varla hreyft og það er verið að sýna mér myndir þar sem höndin hefur eiginlega bara farið úr slíðrinu.“

 

Miðill kemur í húsvitjun

„Ég veit ekki hvort það má segja það hérna, en móðir mín, Þorbjörg L. Marinósdóttir, var mikill svona spiritúalisti og mikið í andlegum málefnum og í tengslum við marga miðla. Þarna var Guðbjörg miðill á hæðinni fyrir ofan Fjallakofann í Hafnarfirði, sem hringir í mömmu og segir: „Heyrðu, ég sé að strákurinn þinn er eitthvað illa haldinn“. Hún var búin að sjá mig þarna í tvo, þrjá daga, með fatla. Svo mamma hringir í mig og vill skamma mig fyrir að hafa ekki látið hana vita að ég hefði lent í þessu slysi. Ég sagði: „Þetta er bara eitthvað sem ég þarf að lifa við.“ Svo bara ekkert með það, en hún spyr hvort hún megi leyfa miðlinum að koma inn til mín.

Ég gat ekki neitað því og daginn eftir, á sjötta degi, daginn fyrir endurkomu inn á spítala, þá kemur þessi elska og segir að það séu þarna þrír læknar sem bara klæjar í puttana að fá að komast inn til mín með henni. Hún fer á axlirnar mínar, og það er náttúrlega öxlin sem er í steik, og ég í stuttbuxum eins og þú þekkir á sumrin. Ég var í hnepptri skyrtu og hún kemur þarna framan á mig og fer að strjúka bringuna og svo fer hún á ökklana og upp á hné. Svo er hún allt í einu farin að nálgast innra lærið og ég svona: „Bíddu, er þetta part af programmet?“ og ég bara lygni aftur augunum. Svo tekur hún svolítið ákveðið um axlirnar og segir: „Þeir eru mjög ánægðir, mjög ánægðir.“ Daginn eftir, þegar ég fer inn á spítala, þá er ég bara kominn með meiri hreyfigetu en áður hafði verið.“

Svo er hún allt í einu farin að nálgast innra lærið og ég svona: „Bíddu, er þetta part af programmet?“

Hreyfigeta Halldórs var sem sagt orðin meiri en hún hafði verið áður en hann lenti í slysinu. Halldór segir læknana hafa orðið að viðurkenna að um einhvers konar kraftaverk væri að ræða.

Mynd úr einkasafni.

Slasaði sig á glænýjum skíðum

Aðspurður hvort hann sé hrakfallabálkur vill Halldór ekki taka svo djúpt í árinni.

„En ég er ekki svona „handy man“. Ég er bara kaupmaður með þumalputta. Ég get gert ýmislegt, en ég reyni að komast hjá því að halda á hamri ef það er einhver annar betur til þess fallinn.“

Þegar Halldór, sem er vanur skíðamaður, er spurður út í skíðaslys sem hann lenti eitt sinn í, viðurkennir hann að hann sé svo sem oft að tefla á tæpasta vað.

„Þarna var ég bara að prófa glæný skíði. Ég get alveg staðið á skíðum. Þarna er ég að reyna skíðin við alveg fantagóðar aðstæður í Skálafelli, í vestari hlutanum af brekkunni, sem er tiltölulega brattur og er litaður svartur, þar sem mesti brattinn er. Ég bara var að finna þessi skíði svo svakalega, og ég keyri þau svo svakalega. Þetta er á þriðjudagskvöldi og ég í fjórðu ferðinni, bara stíg upp úr bindingunum – ég var bara ekki búinn að herða þau nóg. Þetta eru svona test-bindingar, og ég bara feisplantaði eins og kallað er, og dett bara fram fyrir mig og bar hendur fyrir mig. Ekkert með það, ég rann einhverja hundrað metra og það fyrsta sem ég hugsa er bara: „Guð minn almáttugur, ég vona að enginn hafi séð mig.“ Ég bara veit að það var fjöldi krakka þarna hinum megin á austursvæðinu, þar sem þeir voru að æfa. En þegar ég stend upp, þá stendur bara blóðspýjan beint út um buxurnar.

Þá hugsaði ég: „Ókei, sestu niður.“ 

Það sem ég lenti í þarna er að þeir sem sóttu mig – ég gleymi þessu aldrei því ég er einn tíundi úr tonni, skrokkur sem þurfti þarna að bera einhverja 50 metra – komust ekki að, út af brattanum, með snjóbíl eða neitt, þannig að þeir urðu bara að vera með börur. Svo fer þetta að komast í fjölmiðla og ég ákvað þá að halda mig til hlés. Þegar fyrst er talað um að skíðamaður hafi slasast í Skálafelli, ákveður næsti fjölmiðill að henda aðeins meira í: „Aldraður skíðamaður illa haldinn eftir alvarlegt skíðaslys í Skálafelli“ og svo áfram og áfram, þannig að þetta var komið upp á efsta stig allra lýsingarorða. Það var bara spurning hvort ég væri lífs eða liðinn.“

Þá stendur bara blóðspýjan beint út um buxurnar.

Batinn eftir skíðaslysið var skjótur og góður að sögn Halldórs. Hann segist hafa verið með einn besta sjúkraþjálfara sem völ er á, sem hafi nuddað hann og komið honum í samt lag.

„En Gunnar skurðlæknir, frægi, sagði, þegar þeir voru tveir með mig á skurðarborðinu í þrjá tíma að þetta væri eins og eftir handsprengju. Þetta voru 34 spor. Það eina sem ég hef ama af, er að ég get ekki sparkað alveg eins fast í bolta. Þegar ég skora er það svona nettleikinn, en ekki hraðinn á boltanum.“

Halldór hefur ekki orðið hræddur á skíðum eftir slysið. Hann segist í raun ekkert hafa orðið neitt óttaslegnari en áður.

„Það er nú svona minn Akkilesarhæll og minn galli að mig skortir þetta hræðslugen.

Ég get elt þig í ísklifri; ég get elt þig fram á ystu nöf, upp á hæstu fjöll, hoppað fram af hengjum. Ég bara líð fyrir þetta, svolítið. Ég reyni að hlýða á mér skynsamari sem eru á undan, en ef ég væri að fara í forystu þá væri ég svona þessi forystusauður sem myndi ganga með féð fram af björgum. Það gæti alveg orðið þannig, bara því miður.“

Það er nú svona minn Akkilesarhæll og minn galli að mig skortir þetta hræðslugen.

 

Hóf verslunarrekstur tvítugur og hélt svo til Evrópu

Það var í kringum tvítugt sem Halldór hóf að reka sína fyrstu verslun. Þess hafði verið farið á leit við hann að hann tæki við keflinu í Melabúðinni. Hann segir að hann og þáverandi kærasta hans hafi hins vegar ekki verið tilbúin til þess á þeim tíma.

„Þú ert þá raunverulega hálfpartinn að giftast einhverju svona. Þannig að við segjum bara foreldrum mínum að það verði frekar að taka skrefið og skoða aðra möguleika, selja, en ég ákvað engu að síður að reka Melabúðina alveg á minn reikning í heilt ár, á mína ábyrgð, á meðan þau voru að koma sér fyrir í sínu ævintýri á Hvammstanga, sem var rækjuvinnslan og allt sem henni fylgdi. Það var mikið kappsmál og áhugamál hjá karli föður mínum, sem var náttúrlega búinn að vera í kaupmennsku þá í 40 ár. Þetta var svona næsti kaflinn í hans lífi.“

Eftir þetta ár var Melabúðin seld og Halldór hélt til Evrópu.

„Við fórum að þvælast um alla Evrópu – heimurinn var bara Evrópa þá. Við fórum um á bíl, vorum búin að vera í interrail áður, og enduðum svo í Noregi. Við vildum eiga góða stund þar á skíðasvæðinu í Geilo.

Í Noregi eru Íslendingar eftirsótt vinnuafl. Allavega þá og ég held að svo sé enn. Þú gast fengið eins mikla vinnu og þú sóttist eftir. Ég fæ vinnu þarna, og við bæði, sem uppvaskari á hóteli. Svo er ég orðinn dyravörður á næturklúbbnum, sem var einn sá stærsti og vinsælasti á staðnum. Svo var þörf á að bæta við á barinn og spurt hvort einhver væri með reynslu í barþjónustu, og ég hafði nú eitthvað talið mig hafa hjálpað föðurnum heima að hrista í Bloody Mary eða Screwdriver. Svo ég rétti upp hönd og þá var ég kominn á barinn.

Þá er spurt hvort það sé einhver með reynslu og ég náttúrlega rétti upp hönd.

Eitt leiðir af öðru og svo lendir diskótekarinn í því – þetta var eitt vinsælasta diskótekið þarna á svæðinu – að það eru einhver veikindi heima fyrir og hann þarf að fara. Þá er spurt hvort það sé einhver með reynslu og ég náttúrlega rétti upp hönd og var náttúrlega bara búinn að þeyta mínar skífur heima. En vertinn á næturklúbbnum kemur til mín á þriðja degi og segir: „Heyrðu, þú ert bara með þetta alveg í puttunum, því það er meira en 20 prósenta aukning í innkomunni.“ Fólkið var allt á dansgólfinu og drakk bara meira. Það var náttúrlega „part af programmet“. Nema, þarna lengist og teygist á þessum veikindum, þannig að í þriðju viku kallar hovedmeisterinn á hótelinu mig inn á teppið og ég sé að hann er með bréf í höndum. „Hvad er problemet?“ segi ég og þá segir hann: „Hér er ég bara með erindi frá norska skífuþeytarafélaginu.“

Ég spyr hvort það sé eitthvað til sem heitir verkalýðsfélag diskótekara.

Í Noregi á þessum tíma eru verkalýðsfélögin það sterk, að þarna eru þeir að segja að það sé einhver ófaglærður og ófélagsbundinn, og þar að auki einhver hálfviti frá Íslandi, sem sé ekki með nein réttindi til þess að þeyta skífum á norsku diskóteki, og það verði bara að stöðva það hér og nú, og fá til þess færan og faglegan, félagsbundinn skífuþeytara. Ég segi þá: „Ókei, hvað er vandamálið? Ég get bara farið núna, en þú ert þá að missa besta skífuþeytara sem þú hefur nokkurn tíma haft. Þú ert að missa í leiðinni besta uppvaskara sem þú hefur haft.“ Því uppvaskið var náttúrlega svona aðaldjobbið.

Þá fórum við bara til Geilo og tókum þar við skíðaleigunni. Maður er svona hálfpartinn að loka hringnum aftur, að vera kominn í Hlíðarfjall á Akureyri, þar sem við tókum yfir reksturinn á skíðaleigunni þar. En þetta var þarna í kringum 1980 – fyrir nokkrum árum.“

 

Sjálfsbjargarviðleitni tónleikaþyrstra Íslendinga

Halldór segist vera alæta á tónlist og mikill tónleikaunnandi. Hann rifjar upp þegar hann bjó í Noregi og margar hljómsveitir voru að koma þangað að spila.

„Þá var ekkert Tix eða Miði.is á lyklaborðinu. Þú varðst bara að fara í röð. Eins og þegar ég stóð í röðinni fyrir pabba og mig, fyrir Led Zeppelin-tónleikana hérna. Nema hvað, við komumst að því að það seldist bara upp á þá tónleika bara á þremur, fjórum tímum þarna í Ósló. Svo ég segi bara við mína stúlku: „Við bara keyrum þarna niður eftir og athugum hvort við getum ekki hjálpað til.“ Þegar við erum þarna á húninum klukkan átta, þá er náttúrlega hægt að hitta rekstrarstjórann og fá að hjálpa til. Hann segir meira að segja að við þurfum þess ekki, hann geti reddað miðum öðruvísi.

Ég veit ekki hvort ég á að segja það, en við hliðina á honum var náttúrlega einhver blaðasnápur, og honum fannst eitthvað mikið til þess koma að við værum frá Íslandi. Til þess að krydda og fá fólk til þess að lesa blaðið, þá segir hann að við höfum komið alla leið frá Íslandi til þess að sjá þessa tónleika. Það var að sjálfsögðu ekki rétt eftir okkur haft. Þá var auðvitað samfélagið uppi í Geilo alveg spinnegal en ég sagði að þetta væri bara sjálfsbjargarviðleitni hjá okkur Íslendingum.“

 

Uppsagnarbréf frá Jóni Ásgeiri

Árið 1985 tók Halldór við Skátabúðinni, en hún var í eigu Hjálparsveitar skáta í Reykjavík. Hann var þar í 14 ár en dreymdi eftir það um að vera sjálfstæður.

„Ég fór inn í Fálka í níu mánuði, í stöðu markaðsstjóra sem síðan var bara lögð niður. En raunverulega var ég á leiðinni inn í Útilíf. Fjölskyldan þar leitaði til mín af því að þá var Bjarni nýfallinn frá, sem var sómakaupmaður, og þau langaði að finna einhvern flöt á framtíðarrekstri Útilífs. Svo atvikast það þannig, svona til þess að taka stuttu útgáfuna, að ég er að reyna eftir veruna í Fálkanum að skoða möguleikana á Útilífi í einhverja þrjá, fjóra mánuði; reyna að verðleggja fyrirtækið og svona. Þá er bara hringt í mig og sagt að það sé aðili búinn að kaupa, allt með húð og hári og að hann vilji hitta mig eftir klukkutíma. Það er þá Baugur, sem öllu stýrði og réði. Þá hugsaði ég bara: „Ókei. If you can’t beat them, join them.“ En svo er bara ekkert meira með það, nema að ég er þar í þrjú ár og á fallegt bréf frá Jóni Ásgeiri, sem kannski þoldi ekki allt sem ég sagði og hafði skoðanir á, en það er óþarfi að fara út í það hér.“

Með öðrum orðum, þá rak Jón Ásgeir Halldór.

„Já, ég á bréf. Uppsagnarbréf.“

 

Nýtt fyrirtæki í Hafnarfirði

En þegar einar dyr lokast, þá opnast aðrar. Þetta gerðist sama dag og Samvinnuferðir-Landssýn var tekið til gjaldþrotaskipta, 26. nóvember árið 2001.

„Þá gerist það að góður vinur, Magnús Gunnarsson, í Hafnarfirði, sjálfstæðismaður, hefur samband. Hann var þá með söluskrifstofu, útibú frá Samvinnuferðum, á sínum reikningi, og leitar eftir því hvort ég hafi áhuga á samstarfi. Mér fannst ferðabransinn alltaf spennandi og í stuttu máli þá náum við þarna saman með félag í Hafnarfirði, sem er raunverulega ennþá til, ennþá á sömu kennitölu, 21 ári síðar. Það er núna svolítið rekið sem svona ferðahluti Fjallakofans. Fjallakofinn selur upplifun, Fjallakofinn selur allan búnaðinn í upplifunina og Fjallakofinn fer með þér alla leið. Íslandsvinir heitir það, Iceland Explorer. Svo kemur annar kollegi minn frá Skátabúðartímanum og leitar eftir því hvort ég hafi áhuga á að stíga skrefið með honum inn í það tómarúm sem honum fannst vera eftir að Nanoq kaupir út Skátabúðina á sínum tíma. Svo er það bara tekið til gjaldþrotaskipta eftir lóðrétt fall niður á stuttum tíma. Þannig að við störtuðum Fjallakofanum 1. apríl árið 2004.“

 

Fjallakofinn

„Við byrjum bara með tvær hendur tómar, með „know how“ og þekkingu, hitt kom bara til okkar hvað af öðru. Erlendu fyrirtækin fóru að leita að nýjum aðilum. Ég sagði við Scarpa-fjölskylduna og Parisotto-fjölskylduna – ég var búinn að vinna með þeim þarna í 16, 17 ár – að ef þau vildu að ég tæki aftur við vörumerkinu þá væri ég tilbúinn í það. Það voru 40 aðrir Íslendingar sem gerðu slíkt hið sama, en þeir auðvitað, eðli málsins samkvæmt, völdu mig með öll samskiptin áður.“

Í dag er Fjallakofinn mikils virt fyrirtæki sem nýtur velgengni á markaðnum.

Mér líður alltaf svo illa ef ég get ekki annað og sinnt hverjum og einum viðskiptavini eins vel og mér hugnast og langar til.

„Við erum bara með góða útivistarverslun sem reynir að gera betur í dag en í gær. En það er alveg gríðarlega erfitt, vegna þess að til okkar sækir mikill fjöldi fólks og eftir að við komum hérna í Hallarmúlann þá er þetta bara eins og snjóflóð. Mér líður alltaf svo illa ef ég get ekki annað og sinnt hverjum og einum viðskiptavini eins vel og mér hugnast og langar til.

Að láta alla fara með góða tilfinningu til þeirra fjallaferða eða skíðaferða sem þeir ætla sér að fara í.“

Mynd úr einkasafni.

Jökulfirðirnir og fjölskyldan

Halldór segist eiga auðvelt með að slaka á og draga sig frá hinu hversdagslega amstri.

„Besta hleðslustöðin er Jökulfirðirnir. Ef ég fer í viku skútu- eða skíðatúr þangað, þá get ég hlaðið upp fyrir sumarið. Svo að sjálfsögðu bara samvera með fjölskyldunni; við erum að fara núna í vetrarfríinu saman. Við nærumst á samveru og samverustundum okkar og það er ákveðin hleðsla inni í því. Þótt maður sé kaupmaður 24/7 þá verður maður að passa að rafmagnið klárist ekki á sjálfum þér eða þeim sem næst þér eru. Þannig að maður þarf að huga að því.“

Halldór er síður fyrir að vera í stórum hópum, að eigin sögn. Honum líður vel einum með sjálfum sér, eða með fjölskyldu sinni. Hann segir að enn sé langt í að hann setjist í helgan stein í kaupmennskunni.

„Eins og á skíðunum, þá er gott að eiga gott rennsli, og ég er svona bara að horfa í það, að þeir sem eru að renna með mér inn í framtíðina geti tekið við stýrinu. Það held ég að gerist, því það eru aðilar þarna uppi sem eru með öll tögl og hagldir í framtíðinni okkar.“

 

Stundum nauðsynlegt að stíga lengra

Aðspurður segist Halldór nokkuð óttalaus.

„Ég verð, bæði í rekstri og í fjölskyldunni, að vera klettur sem heldur haus. Við erum búin að ganga í gegnum hrunið, við erum búin að ganga í gegnum svo margt, við erum búin að ganga í gegnum Covid, og þá lýsti ég fyrir starfsfólkinu að þetta væri bara eins og við værum að fara inn í eitthvert óvissuástand þar sem við værum í rútu og það hefði fallið snjóflóð á veginn. Ég veit ekki hvað þetta er langt, en við komumst í gegnum það. Það eru 20 aðrar rútur keppinautanna þarna, en við komumst í gegnum þetta.“

Blaðamaður ber það upp við Halldór að hafa frétt af því að eitt sinn, þegar hart hafi verið í ári, reksturinn gengið brösuglega og erfitt hafi verið að eiga fyrir launum, hafi hann tekið það upp hjá sér að bjóða öllu starfsfólkinu til Prag.

„Já.

Stundum er bara nauðsynlegt að reyna að stíga lengra. Starfsfólkið er jafn mikilvægt og fjölskyldan og við lítum á þetta sem eina stóra fjölskyldu, og maður verður stundum bara að sýna æðruleysi og þakklæti. Svo bara bjarga því einhvern veginn öðruvísi, að splæsa á þau einhverju virkilega góðu. Auðvitað nærðu þá mjög ánægðum og gefandi starfsmönnum, sem brosa framan í mann og annan, þegar þau eru búin að upplifa svona ferðalag.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -