Enn og aftur lekur vatn inn í íbúð Dorritar Mouassaieff í London en vandræðin byrjuðu árið 2019.
Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú og eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar, virðist ansi óheppin með nágranna en enn og aftur hefur nú orðið mikill leki inn í íbúð Dorritar í London en vatnið kemur úr íbúð fyrir ofan hana. Sú íbúð er í eigu Greg Coffey, vogunarsjóðsbraskara frá Ástralíu en árið 2019 varð hún fyrir miklum skemmdum af völdum leka sem lak úr íbúð sem er eða var í eigu Loro Piano fjölskyldunnar sem rekur heimsfrægt ítalskt fatahönnunarfyrirtæki. Tryggingarfélag hennar neitaði síðar að tryggja hana fyrir vatnsskemmdum vegna of tíðra vatnsleka.
Í nýlegri Instagram-færslu birtir Dorrit myndband sem sýnir gríðarlegan leka í íbúð hennar og er greinilega ósátt enda segir hún hvorki Greg Coffey né eiginkonu hans hafa beðist afsökunar á lekanum.
„Flóð frá eign Greg Coffey sem er fyrir ofan mig. Margir mánuðir liðnir en hvorki hann né kona hans hafa svo mikið sem beðist afsökunar.“ Dorrit heldur áfram: „Tryggingafélag þeirra segir að „þau hafi ekki sýnt af sér vanrækslu“ og því sé engin þörf á að bæta mér upp þann gríðarlega skaða sem ég hef orðið fyrir sem ekki aðeins varð á íbúð minni, heldur einnig á innbúi mínu og eigum. Nú er öll byggingin án vatnstryggingar en það er vegna leka frá Loro Piano fjölskyldunni.“
Segir hún ennfremur í færslunni að pípulagningameistari á vegum Coffey hafi gefið mismunandi ástæður fyrir lekanum. „Þegar þetta myndband er tekið segir píparinn að ástæðan sé ísvélin, þar á undan var það annað hvort uppþvottavélin eða þvottavélin og þar á undan var það sturtan.“
Dorrit segir að máið sé nú úr hennar höndum. „Nú er málið úr mínum höndum og komið í hendurnar á lögfræðiteymi mínu. Og mér sýnist sem fjölmiðlar séu komnir með þetta líka á borð til sín. Lögfræðingur Greg Coffey segir að hún geti ekki samþykkt myndefnið frá mér vegna öryggisástæðna, þannig að ég hef, treglega, neyðst til að birta þetta henni til hægðarauka, Zoe ég vona að þetta muni hjálpa þér.“
Einn af fylgjendum Dorritar skrifar athugasem við færsluna og segir: „Guð minn góður. Þvílík martröð og þvílíkir yfirlætislegir nágrannar!“ Þessu svarar Dorrit: „Ég er með önnur orð yfir þau en mun leyfa öðru fólki að nota þau.“