Miðvikudagur 5. febrúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Dóttir Karenar endaði á bráðamóttöku vegna mistaka lyfjafræðings: „Mætti algjöru skilningsleysi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Karen Drífa Thorhallsdóttir endaði með sautján mánaða gamla dóttur sína uppi á bráðamóttöku Barnaspítalans í eitrunarprófi, vegna vítaverðra mistaka lyfjafræðings í Apótekaranum í Mosfellsbæ.

Karen segir frá því hvernig dóttir hennar hafi byrjað á leikskóla í haust og að því hafi fylgt ýmis tilheyrandi veikindi. Til að mynda hafi dóttir hennar fengið þráláta eyrnabólgu, sem varð til þess að hún þurfti þrisvar sinnum að fara á sýklalyf.

„Í þriðja skiptið dugði flaskan sem hún fékk frá apótekinu ekki fyrir skömmtunum sem voru uppáskrifaðir fyrir hana. Ég fór undrandi í apótekið og spurði hvort hún ætti meira inni hjá þeim eða eitthvað svoleiðis,“ segir Karen.

Hún lýsir því hvernig lyfjafræðingnum sem þá var á vakt hafi sömuleiðis þótt þetta afar skrýtið og farið á bak við til þess að reyna að komast til botns í málinu. Þess ber að geta að viðkomandi lyfjafræðingur vinnur aðeins þessa einu vikulegu vakt í hverri viku í umræddu apóteki.

„Hún kom aftur fram eftir dágóða stund og sagði mér að það kæmi ekkert annað til greina að hennar mati en að lyfjafræðingurinn sem vinnur alla hina dagana og blandaði lyfið hafi blandað það rangt.

Þetta þýddi að dóttir mín hafði fengið um 8-900 mg af sýklalyfi í staðinn fyrir 350 mg í fjóra daga. Lyfjafræðingurinn hringdi strax upp á eitrunardeild sem hafði svo samband við mig nokkrum mínútum síðar og við vorum beðin um að bruna með dóttur okkar upp á bráðamóttöku Barnaspítalans í eitrunarpróf.“

- Auglýsing -

Á spítalanum kom í ljós að stúlkan hafði blessunarlega sloppið við eitrun, en hún þurfti umsvifalaust að hætta að taka inn lyfin, þrátt fyrir að vera ekki batnað af eyrnabólgunni.

„Nokkrum dögum síðar fékk hún svo hræðilega mikla sveppasýkingu í tannholdið sem afleiðingu af magni lyfjanna ofan á eyrnabólguna og ég hélt að ég myndi varla lifa það af að sjá hversu kvalin hún var og hún gat ekkert borðað í marga daga og léttist mjög hratt.“

- Auglýsing -

Hélt að lyfjafræðingurinn yrði miður sín

Sá lyfjafræðingur sem hafði áttað sig á málinu mælti með því við Karen að hún tilkynnti málið til Lyfjastofnunar, auk þess að koma aftur með lyfjaglasið í apótekið og ræða málið við lyfjafræðinginn sem hafði blandað lyfið.

„Þegar ég fór aftur í apótekið algjörlega uppgefin og hreinlega stressuð yfir því að tala við konu sem ég hélt að myndi vera með tárin í augunum yfir því að hafa mögulega eitrað fyrir ungabarni þá mætti ég í staðinn algjöru skilningsleysi og kæruleysi.

Viðkomandi lyfjafræðingur hóf bara að rökræða um hvað hafði verið í glasinu og hvers vegna barnið fékk svona oft sýklalyf og svo framvegis.

Í stuttu máli þá þurfti ég bara að stöðva samtalið, taka glasið af konunni til baka og fara.

Ég á svo erfitt með að skilja afstöðu lyfjafræðingsins að taka því ekki alvarlegar en þetta að hafa gert svo grafalvarleg mistök í svo ábyrgðarfullu starfi.“

Karen ákvað í ljósi þessa að henni þætti ekki nóg að tilkynna málið til Lyfjastofnunar, heldur vildi hún vara aðra foreldra við.

„Höfum augun alltaf opin,“ segir Karen að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -