„Ég biðst einlægrar afsökunar,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna ásakana Sigurlaugar Hreinsdóttur, móður Birnu Brjánsdóttur sem fannst myrt í janúar 2017, um slæleg vinnubrögð lögreglunnar við rannsókn málsins.
Grímur stýrði rannsókninni á sínum tíma og var honum hampað sem hetju og valinn maður ársins vegna framgöngu sinnar við rannsóknina. Sigurlaug segir hann og lögregluna alla hins vegar hafa brugðist. „Ég get ekki lifað við þessa lygi. Sagan sem er sögð er hetjusaga, en fyrir mér er það lygi,“ segir hún í nýjasta tölublaði Stundarinnar:
Þegar Birna skilaði sér ekki heim aðfaranótt laugardagsins 14. janúar 2017 vissi Sigurlaug að dóttir sín væri í hættu stödd. Hún leitaði til lögreglunnar sem sýndi lítinn áhuga. „Við gerum ekkert í þessu fyrr en á mánudaginn þegar fólk kemur til vinnu, var svarið sem ég fékk. Á hálftíma til klukkutíma fresti var ég að hringja og biðja lögregluna um að bregðast við: Eruð þið ekki að fara að gera eitthvað?“