Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Hallfríður: „Innflytjendalandið Ísland – 70 þúsund innflytjendur á Íslandi í dag“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Áhuga minn á fólki úr annarri menningu má sennilega rekja til þess að ég er uppalin á mörkum ólíkra menninga, í Njarðvíkum á Kaldastríðs árunum þegar umsvif bandaríska hersins voru hvað mest. Það ríkti einhverskonar skitsófrenískt samband milli Íslendinga og fólksins á herstöðinni – aðdáun og undrun annars vegar og hins vegar fyrirlitning ótti við einhverskonar hugsanlega menningarlega mengun. Á þeim árum var það ekki hátt skrifað á Íslandi. Sem unglingur hlustaði ég líka á og þýddi texta Bob Marleys og Stevie Wonders, sem hvor um sig sungu hástöfum um ójafnrétti, kúgun og rasisma. Það hafði mikil áhrif á mig.

Mikil þungavigt var í pólitískum og menningarlegum áhrifum Bandaríkjanna á þessum tíma en jafnframt var þjóðernishyggjan allsráðandi í íslenskri menningarpólitík og viðhorfum Íslendinga gagnvart sjálfum sér og öðrum og ekki örgrannt um að þeir finndu til yfirburða sinna samanborið við fólk úr annarri menningu.“

Mannlíf hitti Dr. Hallfríði Þórarinsdóttur í spjall, en hún er stofnandi og framkvæmdastjóri Mirru, fræðslu- og rannsóknarseturs, sem sérhæfir sig í innflytjendum og margmenningu á Íslandi. Hallfríður er einn frumkvöðla í rannsóknum á innflytjendum á Íslandi, einkum innflytjendum á vinnumarkaði og jafnframt einn frumkvöðla í fræðslu um innflytjendalandið Ísland. Hallfríður er með doktorspróf í menningarmannfræði frá The New School for Social Research í New York borg.

Samfélagið ákaflega einsleitt

„Tæplega tvítug fór ég svo að vinna í Stokkhólmi og vann m.a. með fólki, frá Finnlandi, Gambíu, Chile, Bandaríkjunum og mörgum fleiri löndum. Þetta var um 1980 og innflytjendur skiptu þegar hundruðum þúsunda í Svíþjóð, en á Íslandi voru þeir hins vegar teljandi á fingrum annarrar handar, samfélagið ákaflega einsleitt og smátt og viðbrigðin því mikil en jafnframt mjög heillandi.

Stuttu eftir Svíþjóðardvölina lagði ég aftur land undir fót og fór til Frakklands þar sem ég var í tæpt ár og kynntist þá líka fólki víðsvegar að m.a. frá Venesúela, Senegal, Simbabve, Bretlandi, Bandaríkjunum, Danmörku og mörgum fleiri löndum. Ég hafði ætlað að fara í mannfræðinám í Frakklandi en venti mínu kvæði í kross, innritaðist í HÍ og lauk þaðan B.A. prófi nokkrum árum síðar. Fékk svo rektorsstyrk frá New School og var boðið þar í framhaldsnám. Lauk fyrst M.A gráðu og var svo boðið í doktorsnám, sem ég lauk í fyllingu tímans.“

- Auglýsing -

Endalaus menningarleg fjölbreytni

Hallfríður eða Fríða eins og hún er oftast kölluð segir að:

„stúdera menningarmannfræði í New York er eins og að sitja á menningarlegri gullnámu. Fyrir utan öll söfnin, leikhúsin, jazzinn, klassíkina og listalífið þá er í þessari innflytjendahöfuðborg heimsins, samankomið fólk úr öllum heimshornum. Hreint stórkostlegt dæmi um sambýli fólks úr ólíkri menningu sem gengur þrátt fyrir allt.

New York, er eins og margir vita borg endalausrar menningalegrar fjölbreytni og þar ílengdist ég til fjölda ára og kenndi þar m.a. við háskóla í nokkur ár. Nemendur mínir voru margir af innflytjendauppruna og tilheyrðu ólíkum trúarbrögðum. Voru gyðingar, múslimar, úr margskonar kristnum söfnuðum o.s.frv. það var iðulega þannig að einhver í kúrsinum gat sagt frá eigin reynslu þegar dæmi komu upp í mannfræðinni t.d. um skipulögð hjónabönd, mismun milli trúarbragða o.fl..

- Auglýsing -

Auk þess kynntist ég fólki hvaðanæva úr veröldinni, af öllum hugsanlegum litum, stærðum, gerðum og trúarbrögðum. Búsetan í New York, þeir menningarstraumar sem þar lágu, ásamt mikilli pólitískri vakningu og baráttu ýmissa jaðarsettra hópa og róttækum hugmyndum í fræðilegri orðræðu höfðu djúpstæð áhrif á mig bæði persónulega og fræðilega. Það voru gífurleg viðbrigði að flytja svo aftur til litla einsleita Íslands. Ég saknaði fjölbreytileikans og því ekki undarlegt að ég fann mig fljótt á kafi í fræðslu um fjölmenningu og innflytjendur.“

Innflytjendalandið Ísland

Mirra var stofnuð 2007 í ReykjavíkurAkademíunni, en varð svo að einkafyrirtæki síðar. Mirra hefur staðið fyrir margskonar rannsóknum á innflytjendum á Íslandi og jafnframt tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknum, sem m.a. lúta að samburði milli landa á stöðu innflytjenda á vinnumarkaði.

Auk rannsókna hefur Fríða unnið að fræðslu í formi fyrirlestra og námskeiða um innflytjendalandið Ísland, margmenningu og þjálfun í s.k. menningarfærni. Vitundarvakning um mikilvægi þess að margbreytileikinn fái notið sín, verður sífellt háværari. Það er ekki nóg að segjast vera jafnréttissinnaður heldur verður það að sjást í verki. Jafnrétti einskorðast ekki við kynjajafnrétti það er miklu víðtækara. Það þarf að taka tillit til menningarlegs uppruna, aldurs og fleiri þátta.

70 þúsund innflytjendur á Íslandi í dag

Fríða er aðspurð hvað henni finndist mætti gera betur í þessum málaflokki hérlendis, og hún nefnir nokkur atriði.

„Í fyrsta lagi þá þurfum við heimafólk að átta okkur á þeim grundvallarbreytingum sem eru að verða á íslensku samfélagi, með aðkomu tugþúsunda fólks úr öðrum menningarsamfélögum. Fjölgun innflytjenda á Íslandi hefur verið ótrúlega hröð. Á aðeins tveimur áratugum hefur þeim fjölgað um 85% og eru nú hátt í sjötíu þúsund. Þetta er fjölskrúðugur hópur fólks, sem hefur ákveðið að helga íslensku samfélagi krafta sína.

Einkennandi fyrir alþjóðlega fólksflutninga til Íslands er að flest fólk kemur hingað í atvinnuleit þar af flestir frá ríkjum Evrópusambandsins, en flóttafólk er hlutfallslega fátt. Fimmti hver starfandi á vinnumarkaði á Íslandi í dag er innflytjandi og þeir eru mjög fjölmennir í ákveðnum starfsgreinum s.s. byggingariðnaði, umönnun, ferðaþjónustu og mörgum fleiri greinum. Mirra hefur t.a.m. rannsakað og kortlagt innflytjendur í ferðaþjónustu og vinnur nú að rannsókn á konum í umönnun.

Breytingarnar kalla á uppstokkun gamalla viðhorfa. Við heimamenn þurfum að átta okkur á betur á hlutverki okkar sem móttakendur og gestgjafar. Það er ekki nóg að aðfluttir leggi sig fram setji sig inn í aðstæður hér. Líkt og í hverri annarri sambúð þarf fólk að mætast á miðri leið.

Íslendingar hafa aldrei fyrr í sögunni þurft að deila sínu samfélagi með hópum fólks sem hefur aðra menningu eða trúarbrögð. Gestgjafinn er óhjákvæmilega leiðandi og við eigum hér óunnið verk bæði hvað varðar samskipti milli einstaklinga úr ólíkum bakgrunni sem og hvað varðar viðhorf stjórnenda á vinnustöðum, í félögum og stofnunum. Eftir höfðinu dansa limirnir segir máltækið, þess vegna er mikilvægt að stjórnendur hafi sans fyrir mikilvægi þess að praktísera jafnrétti á sínum vettvangi.

Þrátt fyrir fjöldann eru innflytjendur á jaðrinum í pólitískri og samfélagslegri umræðu. Rödd þeirra er lágstemmd en mun verða hástemmdari eftir því sem rætur þeirra í landinu dýpka.
Það sem einkennt hefur afstöðu stjórnvalda er að líta fyrst og fremst á innflytjendur sem vinnuafl, sem mætir „þörfum atvinnulífsins“, en ekki fyrst og fremst sem fólk með allskonar hæfni og getu þar sem þátttaka á vinnumarkaði er aðeins einn flötur á lífi þeirra, líkt og heimamanna.

Íslenskur vinnumarkaður er sem betur fer – þökk sé mikilli baráttu – ákaflega vel skipulagður og réttindi og skyldur launafólks og atvinnurekenda bundin í lög. En það eru göt lögunum. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar – einkum og sérílagi launþegahreyfingarinnar – hafa viðbrögð yfirvalda gegn kerfisbundnum brotum á innflytjendum á vinnumarkaði, einkum launaþjófnaði, og vinnumansali því miður verið hæg. Launaþjófnaður er lögum samkvæmt ekki refsivert athæfi, líkt og launþegahreyfingin hefur ítrekað gagnrýnt. Staða launafólks á Íslandi er um margt betri en gerist í heimalöndum marga innflytjenda en það er ekki afsökun fyrir því að brjóta á þeim hér.

Annað afar aðkallandi mál, sem liggur þungt hjá innflytjendum eru húsnæðismál. Lélegt húsnæði á uppsprengdu verði er það sem allt of margir þeirra hafa neyðst til búa við. Skortur á mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegu verði er manngert vandamál, sem auðvelt er að leysa sé til þess pólitískur vilji. Annað sæmir okkur ekki sem móttakendum og gestgjöfum. Laun sem nægja ekki til framfærslu, skapa fleiri vandamál en þau leysa.

Íslenska, eða ekki? Ef okkur heimamönnum er alvara með því að taka innflytjendur inn í íslenskt samfélag þá þurfum við að veita þeim aðgang að íslensku málsamfélagi. Það gerist ekki ef Íslendingar skella í lás og tala ensku við þá öllum stundum. Þarna hafa yfirvöld dregið lappirnar, það ætti ekki að þurfa að ræða mikilvægi þess að veita ókeypis íslenskukennslu fyrir alla innflytjendur. Ef heldur fram sem horfir er mjög mikil hætta á því að margir innflytjendur einangrist og það getur alið af sér allskonar vandamál, sem örðugt getur reynst að leysa.“

Áhyggjuefni að börn innflytjenda eru að detta út úr framhaldsskólum

Fríða segir að ekki megi hins vegar gleyma að það hafi margt verið vel gert þegar kemur að innflytjendum og mjög margt fólk sem hefur lagt sig fram um að liðsinna þeim og greiða götu þeirra á margvíslegan hátt.

„Það er vissulega ánægjulegt að sjá að sambúðin við innflytjendur hefur gengið stórátakalaust og í heildina held ég að heimamenn séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að gera hana betri. Alþýðusambandið og einstök aðildarfélög innan þess hafa staðið í eldlínunni þegar kemur að því að verja réttindi innflytjenda á vinnumarkaði. Það er til fyrirmyndar.

Ég myndi vilja sjá meira af kerfisbundnum aðgerðum yfirvalda til að bæta stöðu innflytjenda á vinnumarkaði líkt og ég þegar nefndi. Sama gildir um aðgerðir í skólakerfinu. Það er verulegt áhyggjuefni eins og rannsóknir hafa sýnt, að börn innflytjenda detta út úr framhaldsskólum í meira mæli en börn Íslendinga. Aðgerðir til að sporna við þeirri þróun og í átt að raunverulegri samþættingu innflytjenda og barna þeirra, er fjárfesting sem skilar sér margfalt.“

Hér má fræðast meira um hennar starf hjá Mirru.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -