Dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík verður áfram rektor Háskólans á Bifröst en greint er frá þessu í tilkynningu frá skólanum. Skipunartíma hennar mun nú ljúka 1. júlí 2030 en hún tók við stöðunni árið 2020. „Háskólinn á Bifröst hefur tekið miklum breytingum undir stjórn Margrétar. Ber þar hæst fjármál háskólans en Háskólinn á Bifröst er kominn í hóp fyrirmyndarfyrirtækja Creditinfo. Þá hafa gæðamál tekið stakkaskiptum. Aðrar stórar breytingar eru meðal annars þær að ákveðið hefur verið að selja háskólasvæðið á Bifröst enda hafa náðst samningar við Húsnæðis og mannvirkjastofnun um fasteignir á svæðinu,“ segir í tilkynningunni um störf Margrétar á þeim tíma sem hún hefur verið rektor. „Ein mesta breytingin er þó án efa sú að háskólinn ákvað að þiggja fulla opinbera fjárveitingu þannig að ekki eru lengur greidd skólagjöld við háskólann. Nemendafjöldi hefur nærri því þrefaldast við þá breytingu. Þá er háskólinn á Bifröst kominn í háskólanetið OpenEU sem felur í sér stofnun Evrópska Opna Háskólans eftir fjögur ár í samstarfi við tíu evrópska fjarkennsluháskóla,“ en Margrét er með doktorspróf í spænsku máli og bókmenntum frá Princeton University og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Margrét segist þakklát fyrir það traust sem stjórnin ber til hennar og hlakkar til að takast á við verkefni komandi ára með sínu frábæra starfsfólki.