Eitt febrúarkvöld árið 1965 ákvað hinn 19 ára Jón Gunnar Pétursson, háseti, að skoða bæjarlífið í Cuxhaven í Þýskalandi. Með honum í för voru tveir skipsfélagar Jóns en skip þeirra var þá við bryggju í borginni. Aðeins tveir þeirra snéru aftur.
Jón Gunnar Pétursson starfaði sem háseti togarans „Skúli Magnússon“ en hann kom frá Hólmavík. Jón Gunnar varð viðskila við félaga sína og hvarf sporlaust.

Morgunblaðið greindi frá málinu á sínum tíma:
„UNGUR sjómaður hvarf af togaranum Skúla Magnússyni, er hann var í söluferð í Cuxhaven í Þýzkalandi á fimmtudaginn í síðustu viku og hefur ekkert til hans spurzt þrátt fyrir leit lögreglunnar á staðnum í viku. Pilturinn er um tvítugt, Jón Pétursson að nafni og frá Hólmavík. Hann kom ekki til skips á fimmtudaginn, er togarinn skyldi sigla heim. Var beðið eftir honum á aðra klukkustund. En síðan var hvarf mannsins tilkynnt umboðsmanni skipsins og ræðismanni Íslands í Cuxhaven. Gerði hann lögreglunni aðvart og hefur verið leitað síðan, án árangurs. Sjópróf fara fram í dag.“
Enn þann dag í dag er Jón einn af fjölmörgum Íslendingum sem horfið hafa sporlaust.