Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-0.3 C
Reykjavik

Dularfullt hvarf Seyðfirðings í Aberdeen – Sást síðast á spjalli við bílstjóra fyrir utan hótel

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þrír skipverjar af vélskipinu Víkingi frá Seyðisfirði sátu að snæðingi inni á Stanley hótelinu í Aberdeen í Skotlandi, mánudagskvöldið 26. febrúar 1951. Mennirnir þrír höfðu ekki hugmynd um að einn þeirra væri að borða sína síðustu máltíð.

Fjölmargir Íslendingar hafa horfið sporlaust í útlöndum í gegnum aldirnar en hvörfin eru misdularfull. Í mörgum tilfellum er um að ræða sjómenn sem dottið hafa líklega milli stafs og bryggju og drukknað en það á þó sennilega ekki við um alla sjómennina sem týnst hafa. Hvarf Hjartar Bjarnasonar er eitt af þeim dularfyllstu.

Hjörtur Bjarnason

Eftir að Hjörtur (49 ára) hafði snætt kvöldverð á Stanley hótelinu í Aberdeen ásamt Þorgeiri Jónssyni og Birni Einarssyni, sem unnu með Hirti um borð í Víkingi. Eftir matinn gerðu þremenningarnir sig tilbúna til að ganga aftur að skipinu en Hjörtur tók þá eftir bifreið sem lagt var fyrir utan hótelið og stakk upp á að þeir myndu fá skutl að bátnum. Þorgeiri leist ekki á það og hóf að ganga í átt að bryggjunni en er hann leit við sá hann að Hjörtur virtist eiga í samtali við ökumann bifreiðarinnar. Það var svo ekki fyrr en morguninn eftir að það uppgötvaðist að Hjörtur var horfinn. Og það hefur hann verið frá hvarfinu en skipverjar Víkings töldu fráleitt að hann hefði fallið milli skips og bryggju enda hafi báturinn legið þétt upp við bryggju.

Tíminn fjallaði um hið dularfulla hvarf á sínum tíma:

Seyðfirðingur hverfur í skozkum hafnarbæ

Varð eftir af félaga sínum á tali við bifreiðastjóra í veitingahúsdyrum

Mánudaginn 26. febrúar hvarf í Aberdeen í Skotlandi skipverji af vélskipinu Víkingi frá Seyðisfirði, maður um fimmtugt, Hjörtur Bjarnason að nafni, til heimilis í Seyðisfirði. Veit enginn, hvað af honum hefir orðið.

Hjálmar Vilhjálmsson, sýslumaður í Seyðisfirði, skýrði Tímanum svo frá þessum atburði: Víkingur kom til Aberdeen aðfaranótt mánudagsins, og var farmurinn seldur á mánudag, olía tekin og gengið frá skipinu í Viktoríudokk þar í höfninni.

Sást síðast á tali við bílstjóra


Klukkan 6—7 um kvöldið fór Hjörtur við þriðja mann í Stanleyhótel, skammt frá höfninni, og snæddu þeir félagar þar. Voru með honum Þorgeir Jónsson, einnig Seyðfirðingur, og Björn Einarsson, fyrsti vélstjóri. Er þeir höfðu setið einn til tvo klukkutíma í veitingahúsinu, bjuggust Hjörtur og Þorgeir til brottferðar, en Björn var eftir. Þegar út kom, veitti Hjörtur athygli bifreið, sem beið við veitingahúsið, og hafði orð á því við Þorgeir, að þeir fái sér bíl og aki niður að skipinu. Þorgeir eyddi því og hélt áfram, en Hjörtur dokaði við, og er Þorgeir leit um öxl, stóð hann við bílinn, að því er virtist í samræðum við bílstjórann. Hélt Þorgeir þá áfram til skips og háttaði, en morguninn eftir urðu skipverjar þess varir, að Hjörtur var horfinn, og spurðist ekki til hans eftir þetta.

Leitað til lögreglunnar

Skipstjórinn sneri sér þegar til lögreglunnar í Aberdeen og var skipið látið bíða í tvo daga, meðan hún rannsakaði málið. En ekki báru þessar eftirgrennslanir árangur. Skipverjum í Víkingi þykir ósennilegt, að Hjörtur hafi fallið í höfnina og drukknað, því að skipið lá fast við bryggju, svo að maður hefði varia komizt niður á milli borðstokks og bryggju, og borðstokkur skipsins nam ekki hærra en bryggjupallurinn. — Sýslumaðurinn á Seyðisfirði hefir snúið sér til stjórnarráðsins og óskað þess, að það hafi meðalgöngu um frekari eftirgrennslanir um það, hvað af Hirti hafi orðið. Hjörtur var sérstakt prúðmenni í allri framgöngu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -