Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-3.2 C
Reykjavik

Dumitru neitar sök og segist hafa óttast Daníel: „Stop the car, stop the car!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í dag fer fram aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Dumitro Calin. Hann er sakaður um manndráp af gáleysi og að hafa ekki komið Daníel Eiríkssyni til hjálpar með þeim afleiðingum að hann lést þann 2. apríl 2021.

Í vitnaleiðslum yfir Dumitru sagðist hann hafa átt erindi í Vindakór þennan dag til þess að selja eiturlyf. Hringt hafi verið í hann en hann ekki vitað hver það var sem hringdi; hann hafi aðeins fengið heimilisfang.

Hann segir að fljótlega eftir að Daníel kom til hans að bílnum hafi hinn síðarnefndi sagt eitthvað á þessa leið: „Þú ert þarna frá Rúmeníu, ég man eftir þér.“

Dumitru segir Daníel hafa verið illa við sig og haft í hótunum við sig um langa hríð. Hann hafi meðal annars brotist inn á heimili hans, hótað honum og krafist peninga og eiturlyfja.

Hann segist hafa orðið hræddur þegar Daníel þekkti hann og viljað forða sér. Hann hafi verið þess fullviss að Daníel ætlaði sér að ganga í skrokk á honum. Hann sagði jafnframt að Daníel hefði farið með aðra hönd í vasa sinn og hann hafi óttast það að hann ætlaði sér að taka upp vopn.


Sagði hann hafa ætlað að hlaupa af stað

Dumitru segir að Daníel hafi haldið með höndum í rúðu bílsins, sem var að hluta til skrúfuð niður fyrir þau viðskipti sem áttu að eiga sér stað.

- Auglýsing -

„Stop the car, stop the car, sagði hann. Hann var rosalega æstur og reiður og tilfinningin var að hann vildi stoppa bílinn og berja mig. Ég vildi bara losna við hann og komast i burtu. Ég sagði nei, var hræddur og vildi fara. Ég byrjaði að gefa í og hann tók með báðum höndum um rúðuna og hélt sér í. Ég byrjaði að keyra og keyrði kannski 15 til 20 metra með hann hangandi á rúðunni. Svo losnaði hann af rúðunni og datt í jörðina.“

Dumitru segist hafa stoppað og séð Daníel á jörðinni í baksýnisspeglinum. Hann segir Daníel hafa verið að standa upp og gera sig líklegan til þess að hlaupa af stað á eftir honum aftur. Þá hafi Dumitru forðað sér af vettvangi. „Ég var bara hræddur og titrandi,“ sagði hann fyrir dómi í dag.

„Ég sá hann í speglinum og það var ekkert blóð eða neitt, og ég vissi að hann ætlaði að hlaupa á eftir bílnum.“

- Auglýsing -

Sakborningur sagðist hafa farið heim til sín og beðið hræddur eftir því að Daníel kæmi að finna hann. Hann hafi sent honum skilaboð um að hann myndi ekki selja honum eiturlyf, hann þyrfti að finna einhvern annan. „Ég sagði: „Þú varst að reyna að berja mig og ræna mig, ekki greiða fyrir vöruna. Ég kem ekki meira heim til þín. Mér datt ekki í hug að það væri ekki í lagi með hann. Mér er búið að líða rosalega illa síðan ég fékk fréttirnar.“

„Ég sver við börnin mín og fjölskylduna að ég er að segja satt. Ég er mjög leiður yfir því sem gerðist. Er búinn að upplifa martröð,“ sagði Dumitru.

Segir nánast útilokað að hann hefði getað staðið upp

Sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum, sem gerði aðgerð á Daníel eftir að hann kom á bráðamóttöku, bar vitni fyrir dómi í dag. Hann lýsti alvarlegum áverkum á höfði og heila Daníels. Hann sagði áverkana hafa verið afar dreifða og að blætt hafi frá fleirum en einum stað. Hann sagði að ástand sjúklings yrði yfirleitt alvarlegt í kjölfar svona áverka. Yfirleitt á fyrstu sekúndum eða mínútum.

Sækjandi spurði þá hvort líklegt væri að Daníel hefði getað staðið upp eftir að hafa hlotið áverkana. Hann sagðist ekki telja að svo gæti verið.

„Miðað við útlit áverkanna finnst mér það nánast útilokað.“

Verjandi sakbornings spurði í kjölfarið hvort sérfræðingurinn gæti útilokað það.

„Nánast. En ekki hundrað prósent. En þetta er mín skoðun með mína þekkingu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -