Alls gista fjórir í klefa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina en nóg hefur verið að gera hjá lögreglunni frá klukkan 17 á Gamlársdag. Samkvæmt dagbók lögreglunnar bárust fjölmargar tilkynningar um aðstoðarbeiðnir vegna fólks í annarlegu ástandi, óæskilegar hópamyndanir ungmenna með flugelda, ökumanna undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, ágreininga, tónlistarhávaða og heimilisofbeldis.
Fimm ferðamönnum var bjargað frá Gróttuvita en þar höfðu þau orðið innlyksa þegar það flæddi að. Björgunarsveit var kölluð út sem flutti fólkið í land.
Tilkynning barst um mann sem hélt á fána Palestínu og var að ógna fólki nærri Hallgrímskirkju. Samkvæmt vitnum var hann meðal annars að hrinda fólki og hrækja á það. Fann lögreglan manninn og flutti á lögreglustöð þar sem honum var sleppt að framburði loknum.
Þá voru nokkrir dyraverðir handteknir á skemmtistað í Reykjavík vegna líkamsárásar í tveimur aðskildum málum. Voru þeir fluttir á lögreglustöðina á Hverfisgötu en sleppt að lokinni skýrslutöku.
Lögreglu sem annast Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes barst tilkynning um flugeld sem hafði sprungið í íbúð. Reyndust ólögráða ungmenni hafa verið að prófa kveikjara og óvart kveikt í flugelda innandyra. Var herbergið í rúst eftir sprenginguna og notkun slökkvitækis en blessunarlega engin slys urðu á fólki.
Tilkynning barst sömu lögreglustöð um hóp stráka sem gerðu sér að leik að beina flugeldum að rúðum í íbúðarhverfi. Brotnaði ein þeirra við skoteldinn og hlupu þá strákarnir á brott. Kannað verður hvort öryggismyndavélar hafi náð upptökum af asnaskapnum svo hægt sé að bera kennsl á óknyttadrengina.
Lögreglan sem sinnir útköllum í Kópavogi og Breiðholti barst tilkynning um menn sem köstuðu sprengjum í bifreiðar og gangandi vegfarendur en ekki fylgir sögunni hvort kauðarnir hafi náðst. Þá var einnig tilkynnt um ungmenni sem köstuðu flugeldum í opið bál.
Lögreglustöð 4, sem annast Árbæ, Grafarholt, Grafarvog, Norðlingaholt, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp og Kjalarnes barst tilkynning um drengi sem voru að skjóta rakettum inn í grunnskóla í þeim tilgangi að valda skemmdum. Ekki fylgdi dagbókarfærslunni hvort þeir hafi náðst.